Fréttir

Visir.is - Stöðva ætt­leiðingar frá er­lendum ríkjum

Ráðherrann Dekker segir yfirvöld bera ríka ábyrgð
Ráðherrann Dekker segir yfirvöld bera ríka ábyrgð

Sylvía Hall skrifar 8. febrúar 2021 23:17

Ráðherrann Sander Dekker (t.h.) segir yfirvöld bera ríka ábyrgð í málinu og að þau hafi átt að gera meira til þess að koma í veg fyrir ofbeldið sem einkenndi margar ættleiðingar. 

Yfirvöld í Hollandi hafa ákveðið að banna ættleiðingar frá erlendum ríkjum og tekur bannið gildi tafarlaust. Ákveðið var að grípa til þessa úrræðis eftir að umfangsmikil rannsókn leiddi í ljós of mörg tilvik ofbeldis og misnotkunar.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins einblíndi rannsóknin á ættleiðingar barna frá Bangladesh, Brasilíu, Kólumbíu, Indónesíu og Sri Landa á árunum 1967 til 1998, en að sögn Tjibbe Joustra, sem fór fyrir störfum nefndarinnar, er ljóst að margt hafi farið úrskeiðis bæði árin fyrir og eftir þann tíma.

Þau tilvik sem rannsóknin leiddi í ljós beindist einna helst að mæðrum barnanna sem ættleidd voru, en dæmi voru um að þeim hafi verið hótað eða mútað til þess að gefa börn sín til ættleiðingar. Þá kom einnig í ljós að yfirvöld hafi verið meðvituð um það sem átti sér stað og í sumum tilfellum tekið þátt í því sem fram fór.

Widya Astuti Boerma, 45 ára gömul kona sem ættleidd var af hollenskum foreldrum, leitar nú líffræðilegra foreldra sinna í Indónesíu. Hún segist fagna ákvörðuninni þar sem núverandi kerfi ýti undir það að börn séu fórnarlömb mansals.

„Alþjóðlegar ættleiðingar einblína einn á foreldra sem eru að leita að börnum, en það ætti í raun að vera öfugt,“ segir Boerma.

Hollenska ríkisstjórnin hefur beðist afsökunar og sagði ráðherrann Sander Dekker að yfirvöld hefðu brugðist með því að hundsa ofbeldistilfelli í áraraðir.

„Ríkisstjórnin gerði ekki það sem er ætlast af henni og hefði átt að taka virkari þátt í því að koma í veg fyrir ofbeldi, og það er erfið staðreynd.“

Visir.is - Stöðva ætt­leiðingar frá er­lendum ríkjum


Svæði