Fréttir

Vísir - Tugir hjóna að falla á tíma

INNLENT

KL 00:30, 06. JÚNÍ 2009

Börn Reynt er að bregðast við vandamálinu svo bið margra hjóna verði ekki að engu.
Reynt er að bregðast við vandamálinu svo bið margra hjóna verði ekki að engu.
 

Íslensk ættleiðing og Foreldrafélag ættleiddra barna hafa lagt til við dómsmálaráðherra að aldurshámark verði fellt úr reglugerð um ættleiðingar og miðað verði við aldurshámark upprunaríkisins, segir í nýju fréttariti Íslenskrar ættleiðingar.

Eins og staðan er í dag eru tugir íslenskra hjóna sem vilja ættleiða barn að falla á tíma vegna innlends aldurshámarks. Núverandi hámark er 45 ár, en er í flestum löndum hærra. Nokkur ár getur tekið að bíða eftir að ættleiðing barns gangi í gegn og ef það gerist ekki fyrir 45 ára aldur missa hjónin möguleikann á ættleiðingu.

Ísland er þekkt fyrir góðar lífslíkur og háan meðalaldur og því ætti aldur ekki að vera svo mikil fyrirstaða, segir í ritinu.

„Með nýjum ráðherra skynjum við aukinn áhuga í dómsmálaráðuneytinu á ættleiðingarmálum. Við bindum því miklar vonir við að á þeim bæ verði skilningur á vanda þeirra sem eru að missa möguleika sína vegna þröngra aldursmarka á Íslandi," segir í ritinu.- hds


Svæði