Fréttir

Ættleiðingarfélög sameinuð

Það er sérstak ánægjuefni nú á Jónsmessunni, þessari fornu frjósemishátíð, að tilkynna að nú fyrir stundu skrifuðu fulltrúar stjórna Alþjóðlegrar ættleiðingar og Íslenskrar ættleiðingar undir samkomulag þess efnis að starfsemi Alþjóðlegrar ættleiðingar verði lögð niður frá og með deginum í dag, 24. júní 2010, og sameinuð Íslenskri ættleiðingu undir merkjum Íslenskrar ættleiðingar frá sama tíma. Íslensk ættleiðing fer með ráðstöfun eigna Alþjóðlegrar ættleiðingar hér eftir og yfirtekur þær skuldbindingar Alþjóðlegrar ættleiðingar er varða ættleiðingarsambönd og afgreiðslu umsókna um ættleiðingar sem áður voru á ábyrgð Alþjóðlegrar ættleiðingar.

Þetta táknar að frá þessari stundu starfar eitt og öflugra ættleiðingarfélag í landinu. Það er von okkar að  ávöxtur þessarar sameiningar muni skila sér í gróskumiklu samstarfi við stjórnvöld um að koma börnum sem eru yfirgefin og munaðrlaus erlendis að liði með því að fjölga ættleiðingum til landsins.

Það var Pálmi Finnbogason formaður samninganefndar Í.Æ. sem ritaði undir samkomulagið fyrir hönd stjórnar félagsins en af hálfu Alþjóðlegrar ættleiðingar rituði þær Ásta Sólveig Andrésdóttir stjórnarmaður í A.Æ. og Sigrún María Kristinsdóttir einnig stjórnarmaður í A.Æ. undir samkomulagið.

Það er ekki venja á stjórnarfundum að hafa á boðstólum veitingar því sparlega verður að fara með rekstrarfé félagsins. En nú var tilefnið ærið og því var gerð undantekning á reglunni í fyrsta skipti og keyptar þrjár appelsínur sem formaður félagsins skar í báta fyrir fundarmenn.

Allir ætti að geta verið sammála um að þetta er ánægjulegur áfangi í sögu alþjóðlegra ættleiðinga til Ísland en þeir sem vilja kynna sér samkomulagið í heild sinni geta sótt skajlð í pdf formi hér.


Svæði