Fréttir

Barna- og unglingastarf, vorönn 2018

Á nýju ári ætlar Íslensk ættleiðing að halda áfram með barna- og unglingastarf. Tilraun var gerð nú í haust með slíkt starf, það gafst vel og ljóst að það er full ástæða til að halda áfram. Við munum halda okkur við aldursskiptinguna og vinna með krakkana í tveimur hópum. Eldri hópur er 11-14 ára, yngri hópur 8-10 ára. 

Á haustmánuðum voru 23 börn skráð í tvo hópa, skipt eftir aldri. Það var virkilega ánægjulegt og gaman að vinna með hópunum, ýmislegt skemmtilegt var brallað í bland við samtöl og hugleiðingar. Markmiðið með starfinu, er að krakkarnir nái að kynnast í gegnum leik og afþreyingu, myndi tengsl og traust sín á milli. Með því getum við stutt þau í að miðla hvers til annars, reynslu og hugleiðingum varðandi uppruna og ættleiðingu. Þá er einnig unnið með sjálfsstyrkingu og sjálfsmynd í gegnum verkefni og afþreyingu sem höfðar til aldurs barnanna. Sömu starfsmenn verða og áður, Rut Sigurðardóttir félagsráðgjafi og starfsmaður Íslenskrar ættleiðingar og Kjartan Björn Elísson sem er ættleiddur frá Kólumbíu. Hann hefur mikla reynslu af vinnu með börnum og unglingum og starfar í dag sem stuðningsaðili í grunnskóla og á sambýli fyrir fötluð börn. Að auki munu aðrir fagaðilar koma inn í starfið, með mismunandi bakgrunn og þekkingu. Drög að dagskrá liggur fyrir, hún getur tekið breytingum en dagsetningarnar munu ekki breytast.Við erum að hittast frá klukkan 17.30 til 19.30. Verðið fyrir öll skiptin er 16.000 fyrir félagsmenn en 32.000 fyrir utanfélagsmenn.

Yngri hópur, 18. Janúar, eldri hópur 22. Janúar – Myndlist undir handleiðslu Kristínar Bertu Guðnadóttur, myndlistarkonu, félagsráðgjafa og fjölskylduráðgjafa. Hér ætlum við að leika okkur með liti og málningu, með okkur sjálf í huga og reyna að koma því til skila á striga.

Yngri hópur, 8. Febrúar, eldri hópur 12. Febrúar – Sjálfsstyrking með Kristínu Tómasdóttur. Farið yfir hugtakið sjálfsmynd og farið yfir þær leiðir sem hægt er fara til að hafa áhrif á eigin sjálfsmynd.

Yngri hópur, 8. Mars, eldri hópur 12. Mars – útivist með Ásgeiri Péturssyni og Styrmi Magnússyni sem báðir eru félagsráðgjafar og með mikla reynslu af vinnu með börnum og unglingum. Við ætlum að fara í útivistarævintýri undir þeirra stjórn og takast á við skemmtileg verkefni.

Yngri hópur, 12. Apríl, eldri hópur 16. Apríl – matreiðsla með Ebbu Guðný. Við ætlum að hittast í Satt eldhúsi og læra að útbúa hollan og góðan mat/nesti. 

Skráning stendur til 16. Janúar. 


Svæði