Fréttir

Breyting á þjónustu og reglugerðum

Starf og þjónusta Íslenskrar ættleiðingar (ÍÆ) miðar að því að sinna félagsmönnum eins vel og kostur er enda eru þeir félagið. Eitt af markmiðum félagsins er að tryggja góða faglega þjónustu.

Ættleiðingarmálaflokkurinn hefur breyst mikið á síðustu árum, ættleiðingum hefur fækkað en á móti er hvert mál orðið flóknara. Þessar breytingar eru ekki eingöngu að eiga sér stað á Íslandi heldur í öllum heiminum. Áherslan hefur færst frá því að sjá eingöngu um milligöngu um ættleiðingu yfir í meiri kröfur um fræðslu og stuðning til væntanlegra kjörforeldra, ættleiddra barna og uppkominna ættleiddra. Á sú fræðsla sér stað á meðan biðin er, þegar heim er komið og einnig eftir því sem árin líða frá ættleiðingunni. ÍÆ telur að sagan hafi sýnt að góð fræðsla samhliða ættleiðingu er forsenda fyrir því að ættleiðing gangi vel.

En til þess að hægt sé að tryggja að allt starf sem með hagsmuni barns að leiðarljósi þarf það regluverk sem er til staðar að vera í samræmi við þær kröfur sem eru í málaflokknum. Í júní var tilkynnt að dómsmálaráðuneytið hefði lagt fram í samráðsgátta stjórnvalda drög að nýrri reglugerð um ættleiðingar. ÍÆ hefur ítrekað óskað eftir því síðustu ár að lög og reglugerðir vegna ættleiðinga væru uppfærðar í samræmi við þær breytingar sem átt hafa sér stað.

Frá og með 1.október hafa verið gerðar uppfærslur á reglugerð um ættleiðingar og reglugerð um ættleiðingarfélög en ekki hefur heildarendurskoðun verið gerð og eftir er að taka tillit til þeirra athugasemda sem gerðar höfðu verið í sumar. Þessar uppfærslur eru gerðar þar sem frá og með 1.október hefur Sýslumannsembættið á höfuðborgarsvæðinu tekið að sér meira hlutverk í 3 verkefnum. Helstu breytingar sem gerðar voru á reglugerðunum er vegna:

  • Aldursviðmið umsækjenda sem sækja um forsamþykki
    - Umsækjendur á aldrinum 25 til 50 ára geta sótt um forsamþykki til að ættleiða barn á aldrinum 0 til 5 ára og/eða barn eldra en 5 ára. Hámarksaldur miðast við umsækjanda sem er eldri. Forsamþykki fyrir ættleiðingu barns á aldrinum 0 til 5 ára fellur úr gildi þegar eldri umsækjandi nær 51 árs aldri.
    - Umsækjendur á aldrinum 51 til 55 ára geta sótt um forsamþykki til að ættleiða barn eldra en 5 ára. Hámarksaldur miðast við umsækjanda sem er eldri. Forsamþykki fyrir ættleiðingu barns sem er eldra en 5 ára fellur úr gildi þegar eldri umsækjandi er nær 56 ára aldri.
  • Þegar upplýsingar um barn berast til Íslands
    Í gegnum árin hefur Íslensk ættleiðing séð til þess að lögfræðingur fari yfir öll skjöl sem berast um barn til að tryggja lögmæti þeirra. Nú verður sú breyting að fulltrúar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu taka að sér yfirferð sem lögfræðingur hefur gert áður. Starfsfólk Íslenskrar ættleiðingar og sérfræðilæknir munu einnig fara yfir skjölin.
  • Samþykki í samræmi við 17.gr c á grundvelli Haag-samningsins um vernd barna og samvinnu um ættleiðingu á milli landa frá 1993
    Ef allar upplýsingar og skjöl um tiltekið barn eru í lagi tilkynnir Íslensk ættleliðing væntanlegum kjörforeldrum um pörun og fer yfir gögn barnsins með þeim. Ef samþykki frá væntanlegum kjörforeldrum liggur fyrir er sýslumannsembættið upplýst um það og er þá gefið út samþykki samkvæmt 17.gr c um að ferli ættleiðingar megi halda áfram. Íslensk ættleiðing sendir þetta samþykki til upprunalands auk upplýsinga um að væntanlegir kjörforeldrar hafi kynnt sér öll gögn vegna tiltekins barns.
  • Eftirfylgniskýrslur
    Sýslumannsembættið tekur yfir ábyrgð á því að skýrslur um stöðu barns eftir komu til landsins (eftirfylgniskýrslur) eru gerðar og sendar til upprunalands barns í samræmi við reglur sem gilda í ríkinu. Íslensk ættleiðing mun taka þátt í þessu ferli og upplýsa upprunaland um stuðning og ráðgjöf sem barninu eða fjölskyldu þess hefur verið boðið uppá.
  • Þjónusta og ráðgjöf fyrir uppkomna ættleidda
    Ný þjónusta, uppkomnir ættleiddir geta fengið 5 ráðgjafaviðtöl vegna ættleiðingar án endurgjalds. Boðið hefur verið uppá ráðgjöf fyrir þennan hóp hjá Íslenskri ættleiðingu en gegn greiðslu. Sjá nánar á Þjónusta og ráðgjöf fyrir uppkomna ættleidda | Ísland.is (island.is).
  • Fjöldi stjórnarmanna í stjórn Íslenskrar ættleiðingar
    Stjórn Íslenskrar ættleiðingar hefur í gegnum árin þurft að vera skipuð 7 mönnum hið minnsta, nú hefur þessu verið breytt. Frá og með 1.október þarf stjórn að vera skipuð 5 mönnum hið minnsta. 

Hægt er að kynna sé betur breytingar á reglugerð um ættleiðingarfélög og reglugerð um ættleiðingar hér.

 


Svæði