Fréttir

DV.is - Færist skrefi nær móður sinni með hverjum pósti

Mynd: Marella Steinsdóttir
Mynd: Marella Steinsdóttir
Sigurður Mikael Jónsson                            
mikael@dv.is                        
                  

Brynja hóf leitina að uppruna sínum í byrjun árs – Biðin erfiðust, en ferlið hefur kennt henni mikið um sjálfa sig                           

„Ef einhver finnst og ef þau vilja hitta mig, þá fer ég örugglega fyrr út en ég hafði ætlað mér,“ segir Brynja Valdimarsdóttir, sem í ársbyrjun tók þá ákvörðun að ráðast í það stóra verkefni að leita uppruna síns og móður sinnar á Srí Lanka. DV ræddi við Brynju fyrir ári þegar hún stóð á krossgötum og var að vega og meta hvort hún ætti að gefa grænt ljós á formlega upprunaleit. Þá hafði hún nýlega fengið fæðingarvottorð sitt og önnur skjöl sem hún hafði eftir áralanga forvitni, ákveðið að kalla eftir upp á von og óvon um að þau væru til. Brynja fæddist á Srí Lanka en það var þann 14. desember 1985 sem móðir hennar hér á landi sótti hana sex vikna gamla og veikburða og bjó henni öruggara og betra líf hér á landi.

DV lék forvitni á að vita hvað gerst hefði í leit Brynju á þessu ári sem liðið er frá því hún sagði sögu sína í DV. Enn á ný stendur hún á tímamótum í verkefninu og möguleikinn á að finna móður hennar verður raunverulegri með hverjum töluvpóstinum sem henni berst nú frá ræðismanninum á Srí Lanka.

Hjólin fóru að snúast eftir viðtalið

„Í kjölfar þess að greinin birtist í fyrra þá fóru hjólin að snúast og það mjög hratt. Margt fólk, sem ég þekkti ekkert fyrir ári, hafði samband og bauð fram aðstoð sína. Fólk sem er tengt Srí Lanka og fólk sem var að vinna í þessum ættleiðingarmálum á sínum tíma. Ég var hissa á að fá þetta fólk með mér í lið,“ segir Brynja. Það var síðan í ársbyrjun sem hún tók ákvörðun um að hún myndi fara til Srí Lanka á árinu 2017 og hóf að safna í ferðasjóð.

Hún segir að aðstoð í upprunaleit Íslenskrar ættleiðingar hafi verið takmörkuð varðandi ættleiðingar frá þessum tíma, sem voru með þeim fyrstu. „Mér fannst ég komin í smá blindgötu og það gerðist í nokkur skipti í þessu ferli og á þessu ári. Það var högg og vonbrigði en ég vildi halda áfram og leita sannleikans. Ég gafst ekki upp og alltaf kom nýtt fólk, með nýjar upplýsingar sem leiddu mig áfram hliðargötur, en alltaf áfram veginn þó.“

DV.is - Færist skrefi nær móður sinni með hverjum pósti


Svæði