Fréttir

Börn með skilgreindar þarfir

Á næsta fræðslufyrirlestri Íslenskrar ættleiðingar verður sjónunum beint að ættleiðingum barna með skilgreindar þarfir.

Árið 2006 kynnti CCCWA nýtt ferli við ættleiðingar frá Kína. Um var að ræða lista yfir börn með skilgreindar þarfir þar ættleiðingarfélögin höfðu aðgang þar sem og gátu kannað læknis- og félagsfræðilegar skýrslur um börnin. Með tilkomu listans var CCCWA að leita leiða til að finna foreldra fyrir börn sem áður eignuðust ekki fjölskyldur. Síðan listinn var fyrst búinn til hefur hann breyst mikið og aðferðafræðin við vinnslu hans sömuleiðis. 
Síðan Íslensk ættleiðing hóf samstarf við CCCWA um ættleiðingar barna með skilgreindar þarfir hafa tæplega 50 börn af listanum eignast foreldra á Íslandi. 

Auk þessara barna, þar sem þarfir þeirra hafa verið skilgreindar fyrirfram, hafa börn með skilgreindar þarfir lengi verið ættleidd til Íslands. Fjölmörg börn sem ættleidd hafa verið frá Indlandi á árum áður eru með skilgreindar þarfir, þó að það hafi ekki verið þekkt þegar ættleiðingin upplýsingar um börnin bárust foreldrum þeirra. 

Á fyrirlestrinum mun Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar fara vel yfir ættleiðingarferlið þegar sótt er um að ættleiða barn með skilgreindar þarfir, en það er nokkuð frábrugðið hefðbundnu ættleiðingarferli.

Gestur Pálsson barnalæknir, talar um læknisfræðina í tengslum við börn með skilgreindar sérþarfir. Gestur hefur viðamikla reynslu af yfirferð erlendra læknaskýrslna og móttöku barna með skilgreindar þarfir.
Fyrir utan reynslu sýna af börnum með skilgreindar þarfir hefur Gestur tekið á móti öllum börnum sem hafa verið ættleidd til landsins síðan 1981.  

Fyrirlesturinn verður haldinn í hátíðarsal Tækniskólans við Háteigsveg (gamli Sjómannaskólinn) miðvikudaginn 16.apríl klukkan 20:00. 

Skráning er á isadopt@isadopt.is.

Fræðslan er ókeypis fyrir félagsmenn er kostar 1000 kr fyrir utanfélagsmenn.


Svæði