Fréttir

Fyrirlestur - Öruggt samband foreldra og barna

Næsta fræðsla á vegum Íslenskrar ættleiðingar verður 31. mars næstkomandi frá 18-20 í sal Framvegis í Borgartúni 20, þriðju hæðhttps://www.framvegis.is/ 

Sú sem kemur til okkar heitir Kristjana en hún er leikmeðferðar- og geðtengslafræðingur MA/MSc frá Roehampton Háskóla í London, ásamt því að vera leikskólakennari og að hafa verið skólastjórnandi til margra ára. 

Hún hefur starfað með börnum og unglingum í yfir 25 ár. Hún starfaði í London sem skólaráðgjafi í grunnskóla fyrir börn sem hefur verið vikið varanlega úr skólakerfinu sökum slæmrar hegðunar og einnig innan breska heilbrigðiskerfisins (NHS) á Barna- og Unglingageðdeild (CAMHS) en þar var hún yfir sviði fósturbarna og unglinga. Þar vann Kristjana náið með barnavernd og félagsráðgjöfum ásamt skólum og öðrum sem komu að umönnun barnanna. Kristjana hefur haldið styttri og lengri námskeið fyrir fagfólk, foreldra og fóstur- og kjörforeldra og verið ráðgjafi á öllum stigum mála barna innan fósturkerfisins. Í dag starfar Kristjana sem ráðgjafi innan barnaverndar.

Á fyrirlestrinum verður farið í hagnýt ráð m.a. út frá PACE Daniel's Huges "Playfulness – Acceptance – Curiosity – Empathy" Þar sem undirstaðan er samhyggð (empathy) og samþykki einstaklingsins ásamt því að veita huggun og öryggi til að hafa rými til að kanna og vinna úr fyrri áföllum. Einnig er fjallað um Child parent Relationship Therapy Garry's Landreth. Öruggt samband foreldra og barna er nauðsynlegur þáttur í velferð barna, og mikilvægt að geta stillt sig inn á tilfinningalegar þarfir barnsins. Meðferðin gengur út á að foreldrar fá færni til að bregðast betur við tilfinningalegum og hegðunarvandamálum barna sinna í gegnum leik.

Fræðslan er félagsmönnum að kostnaðarlausu en það kostar 1000 krónur fyrir aðra.

Einnig verður boðið uppá að horfa á erindið á netinu en þá þarf skráning að berast í síðasta lagi kl 16:00 sama dag og erindið er.

Hlökkum til að sjá ykkur


Svæði