Fréttir

Gleðilegt nýtt ár

Eftir sérstakt ár 2020 var vonast eftir því að faraldurinn hefði ekki eins mikil áhrif á 2021, en því miður varð það ekki raunin. Áskoranir héldu áfram og það umhverfi sem við þekktum áður hefur tekið stöðugum breytingum. Starf félagsins hélt að mestu óbreytt en ekki var hægt að bjóða upp á þá fræðslu og félagsstarf sem búið var að gera áætlanir um. Við styrktum samskiptin við upprunaríkin í gegnum rafrænar lausnir og höfum lært mikið á þessum tveimur árum sem faraldurinn hefur geisað. 

20 fjölskyldur heimsóttu félagið í fyrsta skipti á árinu og eru það aðeins fleiri en árið áður. Umsóknir um forsamþykki voru 7. 

Í lok ársins voru 14 umsóknir í ferli hjá erlendum ættleiðingaryfirvöldum, 5 samþykktar / 1 á bið / 1 í þýðingu í Tékklandi, 3 í Kólumbíu, 3 í Kína og 3 í Tógó. 

Fjögur börn eignuðust foreldra með milligöngu félagsins og eru þau öll frá Tékklandi, 3 drengir og 1 stúlka. 

Á aðalfundi félagsins í mars sl. urðu breytingar í stjórn. Brynja Dan Gunnarsdóttir og Tinna Þórarinsdóttir komu nýjar inn og tóku við af Ara Þór Guðmannssyni og Magali Mouy. Ara og Magali er þakkað fyrir sín störf í þágu barna og þeirra fjölskyldna sem hafa ættleitt í gegnum árin. 

Í desember náði félagið að halda jólaball fyrir félagsmenn sem heppnaðist vel og vöktu jólasveinar mikla gleði. Árið endaði svo með því að Kristinn Ingvarsson framkvæmdarstjóri kvaddi félagið eftir 12 viðburðarrík ár. Kristni er þakkað fyrir allt sem hann hefur gert fyrir og gefið félaginu á þessum tíma. Vonandi heldur hann áfram að kynna Íslenska ættleiðingarmódelið á alþjóðavettvangi, því það er mikilvægt að allt sem tengist ættleiðingum sé hugsað út frá hag barnsins. 

Nýr framkvæmdarstjóri, Elísabet Hrund kemur til starfa núna í upphafi árs. 

Miklar breytingar eru því í gangi sem starfsfólk og stjórn félagsins telja af hinu góða og horfa björtum augum fram á við. 

Gleðilegt nýtt ár – við hlökkum til samstarfsins á árinu.


Svæði