Fréttir

Gleðilegt nýtt ár

Breytingar urðu hjá Íslenskri ættleiðingu í upphafi síðasta árs þegar fyrrum framkvæmdastjóri Kristinn Ingvarsson kvaddi félagið og nýr framkvæmdastjóri, Elísabet Hrund Salvarsdóttir kom til starfa. Árið var að mestu leyti laust við áhrif eftir Covid-19 faraldurinn þó að áhrifa hafi gætt í upprunaríkjum sem félagið er í samstarfi við. 

Á aðalfundi félagsins í mars 2022 urðu breytingar í stjórn. Gylfi Már Ágústsson, Svandís Sigurðardóttir og Örn Haraldsson komu ný inn og tóku við af Elísabetu Hrund Salvarsdóttur, Dylani Herrera og Sigurði Halldóri Jessyni. Berglind Glóð Garðardóttir gaf áfram kost á sér til stjórnarsetu. Elísabetu, Dylan og Sigurði er þakkað fyrir sín störf í þágu barna og þeirra fjölskyldna sem hafa ættleitt í gegnum árin. 

Í lok mars var aftur var farið af stað með fræðslu fyrir félagsmenn, en boðið var uppá nokkrar fræðslur yfir árið og félagsstarf. Ný fésbókarsíða var stofnuð fyrir félagið og var einnig stofnuð síða á Instagram til að ná til fleiri, jafnt félagsmanna og annarra áhugasamra um ættleiðingar. Haldið var áfram að nýta rafrænar lausnir til að styrkja samskipti við upprunaríkin, en framkvæmdastjóri félagsins og verkefnastjóri fóru í heimsókn til Tékklands í byrjun desember og fengu góðar móttökur.

Árið 2022 var sérstakt á þann hátt að engin fjölskyldusameining átti sér stað á árinu. 21 fjölskylda heimsóttu félagið í fyrsta skipti á árinu, svipaður fjöldi og árinu áður.  Í lok árs voru 19 umsóknir í ferli hjá erlendum ættleiðingaryfirvöldum, 8 samþykktar / 2 á bið / 2 í þýðingu/skoðun, 3 í Kolumbíu, 1 í Kína og 3 í Tógó.

Í september var loksins haldin ráðstefna á vegum EurAdopt, samtaka ættleiðingarfélaga í Evrópu, í Kaupmannahöfn en vegna heimsfaraldurs hafði henni verið frestað í 2 ár, en síðasta ráðstefna var haldin í Mílanó vorið 2018. Á ráðstefnunni 2022 var fjallað um framtíð ættleiðinga milli landa frá ýmsum sjónarhornum. Fjöldi fyrirlesara tóku þátt, t.d. fulltrúi frá Haag, fullltrúar miðstjórnvalda, fulltrúar frá upprunaríkjum, rannsakendur og uppkomnir ættleiddir.

Framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar er einnig formaður samtakana Nordic Adoption Council / NAC, samtök ættleiðingarfélaga á Norðurlöndunum, og var áfram mikið samstarf innan samtakana. Á þessu ári er svo undirbúningur fyrir ráðstefnu og aðalfund NAC sem haldin verður í september á Íslandi.

Í byrjun desember var boðið uppá jólakósý fyrir krakka 12-16 ára, þetta var í fyrsta skipti sem það hefur verið í boði, Spilavinir mættu á svæðið og boðið var uppá léttar veitingar í anda jólanna. 11.desember var svo haldið jólaball fyrir félagsmenn sem heppnaðist vel, þátttaka var mjög góð og ánægjulegt var að sjá fleiri uppkomna ættleidda en áður.

Ættleiðingar voru töluvert í fjölmiðlum á síðasta ári, sérstaklega í kringum þættina Leitin að upprunanum sem sýndir voru á Stöð2. Starfsfólk félagsins fór á fjölda ráðstefna og málþinga til að vekja athygli á málaflokknum, afla sér þekkingar og að tryggja að fjölskyldur og börn fái viðeigandi þjónustu svo þeim farnist vel eftir ættleiðingu.

Framkvæmdastjóri og formaður Íslenskrar ættleiðingar áttu fundi með forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og mennta- og barnamálaráðherra, til að ræða stöðuna á ættleiðingarmálaflokknum og hvernig þessi ráðuneyti tengjast málaflokknum. Við vonum að hægt verið að halda áfram að þróa það starf sem unnið hefur verið að síðustu ár og að Ísland haldi áfram að vera í farabroddi í að auka gæði þjónustu og fræðslu sem þessi málaflokkur á skilið.

Gleðilegt nýtt ár – við hlökkum til samstarfsins á árinu.

 


Svæði