Fréttir

Góður árangur Pasnefndar

Að undnaförnu hafa dugmiklir Pasnefndarmenn sent heilbrigðisstarfsfólki víða um land bréf um fyrirkomaulag sem óskað er eftir að viðhaft sé þegar ættleidd börn fara í aðgerðir á sjúkrahúsum eða öðrum heilbrigðisstofnunum.

Upphaf verkefnisins má rekja til þess að stjórnarmaður ÍÆ heyrði af því er barn sem nýlega hafði verið ættleidd var tekið úr örmum foreldra sinna þar sem færa átti það inná skurðstofu á spítala til aðgerðar. Stjórnarmaður fékk fund með yfirhjúkrunarfræðing í Fossvogi vegna þessa þar sem foreldrarnir voru með miklar áhyggjur yfir að sú tengslamyndum sem hefði átt sér stað á milli barnsins og foreldranna, yrði til lítils sökum þessa atviks. Málið var rætt og bentu hjúkrunarfræðingarnir á að rannsóknir sýndu að foreldrarnir kæmumst almennt í uppnám við að verða vitni að svæfingu barna sinna inni á skurðstofum og því væri þeirri starfsreglu oft fylgt að foreldrarnir væru ekki viðstaddir inni á skurðstofum.

Var hjúkrunarfræðingunum bent á að tengslamyndun foreldra og ættleidds barns gæti farið fyrir lítið yrðu ekki gerðar undantekningar á verkferlinu og að sérstakt tillit þyrfti að taka til ættleiddra barna sem væru almennt viðkvæmari heldur en börn sem alist hefðu upp alla tíð hjá sömu foreldrunum.

Í fundargerð stjórnar Í .Æ. frá 4. Nóvember 2009 segir meðal annars: Var vel tekið í þessa athugasemd á Landspítalanum í Fossvogi en stjórn ÍÆ hyggst leggja til við Pas-nefnd að fylgja þessu eftir við félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og félög hjúkrunarfræðinema við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.

Pasnefnd tók málið upp á sína arma og ritaði ágætt bréf til heilbrigðisstarfsmanna þar sem bakgrunnur og reynsla ættleiddra barna er skýrð og bent á mikilvægi traustrar tengslamyndunar og ekkert það sé gert sem raskað geti trausti milli foreldra og hins ættleidda barns.

Nýlega barst okkur svo eftirfarandi frásögn í tölvupósti.

Sonur minn þurfti að fara í nokkrar svæfingar um daginn á LSH Hringbraut og svæfingarlæknirinn ætlaði að neita mér um að koma með í fyrstu svæfinguna en ég spurði hvort hún væri ekki búin að fá bréfið umrædda og það var svo. Eftir það var þetta ekkert mál :)

Það er mikilvægt fyrir okkur að fá svona frásagnir. Dæmið sýnir að það sem fjölmargir sjálfboðaliðar eru að aðhafast á vettvangi félagsins getur borið árangur og frásögnin sýnir í hnotskurn mikinn árangur af dæmigerðu Passtarfi.

Hér er hægt að hlaða niður bréfi Pasnefndar til heilbrigðisstarfsmanna.


Svæði