Fréttir

Góður fundur með Gesti

Gestur Pálson
Gestur Pálson

Það var ánægjulegur fundur sem fulltrúar Íslenskrar ættleiðingar áttu með Gesti Pálssyni barnalækni föstudaginn 11. desember.

Tilefni fundarins var gagnkvæm upplýsingamiðlun. Gestur er eins og félagsmenn vita trúnaðarlæknir félagsins. Hann hefur haft umsjón með læknisskoðun ættleiddra barna eftir komu til Íslands. Þar er heilsufar þeirra kannað og þau fá síðan þá þjónustu sem ungbarnaeftirlit og heilsugæsla veita öllum börnum á Íslandi. Gestur er félaginu og væntanlegum foreldrum einnig til ráðgjafar. Þá hefur hlutverk Gests í ættleiðingaferlinu vaxið verulega eftir að ættleiðingar barna með sérþarfir hófust frá Kína fyrir þremur árum. 

Það voru formaður, framkvæmdastjóri og gjaldkeri Íslenskrar ættleiðingar sem funduðu með Gesti í glæsilegum húsakynnum Barnspítalans. Fundurinn stóð í tæpar tvær klukkustundir og fór gríðarmikið af gagnlegum upplýsingum milli fundarmanna þann tíma.
 
Gestur útlistaði hve mikilvægt er að móttaka ættleiddra barna sé í miðstöð barnalækninga á barnaspítalanum og hve mikil trygging það er fyrir nýbakaða kjörforeldra að þar hefur trúnaðarlæknir félagsins aðgang að öllum helstu sérfræðingum landsins á hvaða sviði læknisfræðinnar sem er. Stjórnendum Í.Æ. finnst mikilvægt að ekki verði hróflað við þessu fyrirkomulagi við yfirvofandi niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og munum við fylgjast grannt með framgangi þeirra hugmynda.
 
Af hálfu Í.Æ. var Gesti veitt aukin innsýn í ferli ættleiðinga til landsins eins og því er háttað um þessar mundir og sérstaklega hver þáttur félagsins er í ferli ættleiðinga barna með sérþarfir. Í ráði er að bjóða Gesti að kynna sér það ferli nánar á næstunni.
 
Fulltrúum Í.Æ. þótti ljóst að læknirinn okkar hafði gaman af heimsókninni og að góður framgangur þessa málaflokks innan heilbrigðiskerfisins er honum hjartans mál. Gestur hafði á orði að í störfum sínum fyrir Í.Æ. síðan 1981 hafi hann ekki áður hitt svona sendinefnd á vegum félagsins og var fastmælum bundið að bjóða Gesti í höfuðstöðvar félagsins við sérstakt tækifæri á næstunni.


Svæði