Fréttir

Hamingjustund #Adoptionjoy

Þann 1.janúar lagði lítil fjölskylda af stað í ferðalag til Tékklands, þetta var ekki venjulegt ferðalag heldur ævintýraferð að hitta nýjasta meðlim fjölskyldunnar, stúlkuna hana Anetu.  Ég, Elísabet, Smári og Birkir Jan sonur okkar flugum til Prag með smá viðkomu í Manchester. Öryggisleitin tók aðeins lengri tíma í Manchester þar sem foreldarnir voru ekki alveg aðfara eftir öllum leiðbeiningum og einhver var meðfullt veski af breskri mynt í handfarangri og gleymdi að taka það upp, viðnefnum engin nöfn en það er þessi veskisóða. 

Við vorum aðeins á undan flugáætlun til Prag og skiluðu allar töskurnar sér alla leið. Túlkurinn okkar hafði boðist til að sækja okkur og var voðalega fínt að sjá kunnulegt andlit. Hún skutlaði okkur upp á hótel, þar fengum við flott herbergi með útsýni yfir aðallestarstöðina í Prag en ekki var mikið úrval af mat enda nýársdagur. Allir veitingastaðir voru lokaðir eða hættir að taka við matarpöntunum, þannig að við enduðum á McDonalds,  líka Smári sem fann hamborgara með glútenlausu brauði. Það var því hátíðarkvöldverður fyrsta kvöldið okkar í Tékklandi. Það var þreytt fjölskylda sem lagðist á koddann þetta kvöld.

Þegar við vöknuðum var komin bylur í Prag en hann endist sem betur fer ekki lengi, búið var að birta til, tveimur klukkustundum síðarþegar við röltum með farangurinn okkar yfir á lestarstöðina. Við vorum mætt aðeins of snemma þangað enda tók ekki nema tvær mínútur að labba frá hótelinu. En við náðum þá að kaupa smá hádegis mat til að borða í lestinni. 

Við höfðum farið eftir leiðbeiningum túlksins og bókað sæti fyrir okkur öll áfyrsta farrými í lestinni til Brno, mjög gott að vera með fyrirfram bókuð sæti. Lestarferðin gekk vel og náðum við að taka nokkrar myndir þegar farið var í gegnum Kolín þar sem Birkir var á barnaheimili. Honum fannst þessi staður mun ómerkilegri en foreldrunum og sagðist hafa séð þetta allt saman áður. 

Þegar komið var til Brno röltum við í gegnum stóru verslunarmiðstöðina á leiðinni uppá hótelið, aðallega til að ná sér í smá hita, það var kalt fyrir bera putta að draga töskurnar. Birkir hafði verið með það verkefni að passa alveg uppá eina tösku og þó hann sé nú ekki alltaf hrifinn af þessu verkefni hefur þetta gengið ágætlega. Þegar komið var uppá hótel var ákveðið að kíkja aftur í búðir og fékk Birkir að kaupa sér eitt lítið dót, því ekki var pláss fyrir meira í töskunum okkar ... já þær voru að springa. Við enduðum svo kvöldið á að hafa það kósý og borða saman uppi á hóteli mat sem Smári náði í fyrir okkur. 

Þann 3.janúar var komið að svo kölluðum Núllfundi, þá hittum við lögfræðing og sálfræðing þar sem farið var yfir gögnin hennar Anetu, formsatriði og skrifað undir skjöl til að fara með í dómshúsið svo dómarinn gæti byrjað að vinna í málinu okkar. Eftir að öllum gögnum hafði verið skilað fékk fjölskyldan far með túlknum okkar til Prag þar sem við náðum í bílaleigubíl til að keyra til Most þar sem barnaheimilið hennar Anetu var. Bílferðin gekk vel og náði Birkir að sofa næstum alla leiðina til Most á meðan foreldarnir virtu fyrir sér sveitingar í kring. Við vorum þreytt þegar loksins var komið uppá hótelherbergi og komin spenna í mannskapinn enda hittum við litla skottið okkar daginn eftir. 

4.janúar –dagurinn sem beðið hafði verið eftir. Við mættum uppá barnaheimili rétt fyrir kl. 9:30 og biðum aðeins inni á skrifstofu hjá félagsráðgjöfum eftir að túlkurinn og sálfræðingurinn kæmu frá Prag. Þegar allir voru komnir var farið yfir læknisfræðileg atriði með lækni barnaheimilsins. Mikið af upplýsingunum höfðum við fengið áður en nokkur ný atriði komu í ljós. Eftir þessa yfirferð var komið að því að hitta Anetu, við fórum með túlknum, sálfræðingnum og félagsráðgjafa upp á 5.hæð þar sem Aneta var. Við vissum ekki alveg hvernig hún myndi taka okkur, en þurftum ekki að hafa miklar áhyggjur af því. Litla skottið stökk í fangið á okkur og leist sérstaklega vel á Smára og Birki. 

Aneta var dugleg að tala og vildi sýna okkur fullt af dóti, við fengum að vera með henni í nokkra stund áður en hún þurfti að fara að borða og hvíla sig. Við fórum á meðan af barnaheimilinu, kíktum íbúð til að kaupa mat og tókum því rólega uppi á hóteli. Klukkan þrjú fórum við svo aftur uppá barnaheimilið til að hitta hana aftur, túlkurinn var með okkur og fengum við að fara út í garð til að leika okkur í snjónum. Úti í garði var mjög gaman, við fundum snjóþotur fyrir þau systkinin og voru brekkurnar í garðinum notaðar til að renna sér á fullum hraða og þvílík gleðihróp sem því fylgdu, svo prófuðum við að fara í snjókast og ekki var það minna spennandi. Eftir góða stund úti í garði fórum við aftur inn á leikherbergið á deildinni hennar Anetu, fengum að hafa það út af fyrir okkur. Þar gátum við leikið og skemmt okkur á fullu þar til tími var komin fyrir Anetu að fara að borða, þá þurftum við að fara. Túlkurinn var ennþá með okkur og gat útskýrt fyrir henni að við kæmum aftur á morgun og var Aneta ánægð með það. 

Þvílík hamingjustund sem þessi dagur var og allir þeir sem fylgt hafa á eftir. 

 

 


Svæði