Fréttir

Í tilefni af fréttum

Vegna frétta í kvöld um að kínversk börn hafi verið seld til ættleiðinga vill stjórn Íslenskrar ættleiðingar taka eftirfarandi fram:
 
Frá aldamótunum síðustu hafa Íslendingar átt gott samstarf við kínversku ættleiðingasamtökin CCAA.

 

CCAA eru miðlæg ættleiðingasamtök rekin af stjórnvöldum í Kína og er eina stofnunin þar í landi sem heimild hefur til að ættleiða börn frá Kína.
 
CCAA fyrir hönd kínverskra stjórnvalda stendur gríðarlega vel að öllu ættleiðingarferli innanlands og fylgist náið með að erlend félög sem þau eru í samskiptum við uppfylli ítarlegar reglur um umsóknarferlið og trúverðugleika.
 
Hagsáttmálinn er alþjóðlegur sáttmáli sem ætlað er að koma í veg fyrir verslun með börn undir yfirskyni ættleiðinga. Íslendingar gátu ekki hafið ættleiðingar frá Kína fyrr en Íslensk stjórnvöld höfðu samþykkt sáttmálann, en það var gert eins og kunnugt er árið 1999.
 
Í fréttum í kvöld sem byggðar eru á frétt í kínversku dagblaði er getið um að allt að 80 börn í einu héraði hafi verið seld til ættleiðinga út úr landinu. Ekkert í fréttinni bendir til þess að umrædd börn hafi verið ættleidd úr landi með aðstoð CCAA og telur stjórn Íslenskrar ættleiðingar útilokað að svo hafi verið. En eins og áður segir eru öll börn sem ættleidd hafa verið til Íslands frá Kína hingað komin með milligöngu CCAA.
 
Í fréttum kvöldsins hefur einnig verið fullyrt að reglum í Kína hafi verið breytt árið 2006 “til að stöðva barnasölu”. Ekki er fótur fyrir þessum staðhæfingum. Kínverjar, sem eins og áður segir standa gríðarlega vel að ættleiðingarferlinu, vildu herða reglurnar í þeim tilgangi að gera meiri kröfur til gæða væntanlegra kjörfjölskyldna.
 
Engar upplýsingar eru um að barn frá því héraði sem kínverska dagblaðið fjallar um hafi verið ættleitt til Íslands.
 
Verslun með fólk er ógeðfellt athæfi og íslensk stjórnvöld hafa sett strangar reglur í samræmi við alþjóðasáttmála til að koma í veg fyrir slíka verslun. Íslensk ættleiðing starfar eftir þeim reglum og það er veigamikill þáttur í starfsemi félagsins að tryggja gott siðferði í samskipum við erlend ættleiðingafélög.
 
Nærri 130 börn hafa á seinustu árum verið ættleidd til Íslands frá Kína. Þessir einstaklingar eru nú hluti af gróskumikilli íslenskri æsku sem fylgist grannt með umhverfi sínu, þar á meðal fréttum. Stjórn Íslenskrar ættleiðingar óskar eftir vönduðum fréttaflutningi um viðkvæm mál af þessum toga og biður um að aðgát sé höfð í nærveru sálar.
 
 
 
Reykjavík 2.07.2009
Stjórn Íslenskrar ættleiðingar.

Svæði