Fréttir

Rúv.is - Ráðuneytið fékk ákúrur fyrir að stöðva ættleiðingar

Mánudaginn 21.11.2022 birtist frétt á rúv.is
 
Dómsmálaráðuneytið stöðvaði ættleiðingar frá Sri Lanka árið 1986, vegna þess vafa sem ráðuneytið taldi leika á ferli ættleiðinga þaðan á þeim tíma. Þá hafði komið upp tilfelli um fölsuð skjöl barns sem ættleitt var þaðan hingað til lands. Ráðuneytið kveðst hafa fullan vilja til að aðstoða í tilfellum þar sem hugsanlegt er að gögn um uppruna ættleiddra barna gætu hafa verið fölsuð, en segir að úrræði ráðuneytisins kunni að vera takmörkuð.
 

Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurnum fréttastofu.

Vísbendingar um barnamangara og fölsuð skjöl

Hátt í níutíu börn voru ættleidd hingað frá Sri Lanka árin 1984 til 1986 fyrir milligöngu Íslenskrar ættleiðingar. Vísbendingar eru um að börn hafi verið ættleidd þaðan til Íslands með milligöngu svokallaðra barnamangara á níunda áratugnum og að skjöl þeirra hafi verið fölsuð. Fjallað var um málið í þættinum Leitin að upprunanum, sem sýndur er á Stöð tvö, en á fimmtudag kom Elísabet Salvarsdóttir hjá Íslenskri ættleiðingu í Kastljós og sagði félagið ítrekað hafa leitað til dómsmálaráðuneytisins með beiðni um að aðstoða fólkið við að komast að uppruna sínum, án árangurs. Þá sagði Elísabet ráðuneytið hafa tekið fálega í fyrirspurnir Íslenskrar ættleiðingar allt frá því málið kom upp árið 2017. 

Ráðuneytið fékk ákúrur fyrir að stöðva ættleiðingarnar

„Þættirnir „Leitin að upprunanum“ sýna það glögglega hversu dýrmætt það er hverju mannsbarni að þekkja til móður og föður, að vita uppruna sinn. Í heimi skipulagðra afbrota eru barnarán og falsaðar ættleiðingar of algeng fyrirbæri og árið 1986 kom það í hlut starfsmanna dómsmálaráðuneytisins að stíga á bremsurnar hérlendis,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurnum fréttastofu um það hvort til standi að skoða ættleiðingar frá Sri Lanka á níunda áratugnum nánar, og hvers vegna ráðuneytið hafi tekið fálega í erindi Íslenskrar ættleiðingar, eins og fram kom í máli Elísabetar.

„Fyrir það fékk ráðuneytið raunar ákúrur, ekki síst frá stjórn Íslenskrar ættleiðingar á sínum tíma eins og glöggt sést í fundargerðum félagsins, allt til ársins 1987.“ Þá segist dómsmálaráðuneytið hafa afhent skjöl og pappíra varðandi ættleiðingar þegar eftir þeim hafi verið leitað af aðilum sem eigi rétt á því. 

„Í ráðuneytinu liggja engar ósvaraðar fyrirspurnir frá einstaklingum varðandi afhendingu slíkra gagna sem snúa að Sri Lanka.“

Fá árleg fjárframlög frá ríkinu þrátt fyrir fækkun ættleiðinga

Samkvæmt svari ráðuneytisins óskaði Íslensk ættleiðing eftir fulltingi þess til að bjóða þeim ættleiddu og fjölskyldum þeirra upp á ráðgjöf og stuðning vegna þeirra tilfinninga sem þau kynnu að upplifa við fregnir af fölsunum. Tekið er fram að Íslensk ættleiðing fái árleg fjárframlög frá ríkinu, þrátt fyrir að ættleiðingar hafi dregist mikið saman á síðustu árum.

„Að mati ráðuneytisins ættu samtökin að hafa nokkuð svigrúm til þess að liðsinna uppkomnum ættleiddum frá Sri Lanka í þessum erfiðum aðstæðum.“

Þá kemur fram að vegna erindis Íslenskrar ættleiðingar til ráðuneytisins árið 2017 hafi stjórnvöldum í Sri Lanka verið sent erindi - og Íslensk ættleiðing upplýst um það. Ráðuneytið hafi, þrátt fyrir bréfaskriftir við þarlend stjórnvöld árið 2017, ekki komist í samband við rétta opinbera aðila á Sri Lanka, sem fari með þessi mál. 

„Umfjöllun í þættinum „Leitin að upprunanum“ verður okkur hins vegar hvatning til þess að gera hvað við getum án þess að nokkru sé hægt að lofa í þeim efnum.“

Margar bókanir um ósætti við ráðuneytið í fundargerðum

Fundargerðir Íslenskrar ættleiðingar frá því á níunda áratugnum eru aðgengilegar á vef samtakanna. Þar var oft bókað um samskipti við dómsmálaráðuneytið. Í fundargerð frá 12. mars 1986 segir eftirfarandi um ástæðu stöðvunar ættleiðingarleyfa í dómsmálaráðuneytinu: 

„Hjón sem fóru út 21. des komu heim með barn á röngum pappírum. Barn það er þau áttu að fá veiktist og fengu þau þá þetta barn á pappírum fyrra barns sem er 5 vikum eldra en það barn sem heim kom. Til lausnar að okkar viti nú sem stendur. Ath með aðrar leiðir í gegnum Dammas, fá lögfræðilega aðstoð, fá fund með ráðherra og fulltrúum.“

Í fundargerð Íslenskrar ættleiðingar frá 4. janúar 1987 segir að staðan vegna stöðvunar dómsmálaráðuneytisins á ættleiðingum frá Sri Lanka hafi verið rædd. 

„Vandamálin eru einungis fólgin í afstöðu dómsmálaráðuneytisins hér á landi.“

Greint er frá því að kaþólsk nunna í Colombo sé reiðubúin að vera tengiliður við líffræðilegar mæður,

en þá þannig að hún fái að starfa í kyrrþey og ekkert eftirlit eigi sér stað af hálfu stjórnvalda.“

Meira:

„Ljóst er að ekkert leyfi þarf til ættleiðingar frá Sri Lanka frá stjórnvöldum, þ.e. allir lögfræðingar hafa sjálfkrafa leyfi til ættleiðinga. Þar með er krafa dómsmálaráðuneytisins um slíkt leyfi óraunhæf. Fram kom óánægja og undrun yfir þeirri kröfu dómsmálaráðuneytisins að binda hugsanlegar ættleiðingar frá Sri Lanka við barnaheimili þar sem ekki verður séð að það fyrirkomulag hafi sérstaka kosti umfram það sem félagið hefur búið við. Allt bendir hins vegar til þess mjög erfitt sé að afla nýrra sambanda við barnaheimili og slíkt samband verði að líkingum þungt í vöfum. Miklar umræður voru um öll þessi mál.“

Fjöldi ættleiðinga frá 2007

Eftirfarandi stöplarit sýnir fjölda ættleiðinga með milligöngu Íslenskrar ættleiðingar frá 2007, byggt á opinberum tölum frá samtökunum.

Sjá frétt á rúv.is

 


Svæði