Fréttir

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins er 20 ára

...Börn sem ekki alast upp í fjölskyldu eru í hópi varnarlausustu einstaklinga heimsins. Afkomu þeirra er oft ógnað sökum skorts á næringu, húsaskjóli og heilsugæslu... 

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem í daglegu tali er oftast nefndur Barnasáttmálinn, var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989 og á þeim 20 árum sem liðin eru hefur hann orðið mikilvægasta samkomulag um mannréttindi sem gert hefur verið milli ríkja heimsins.

Ríkin sem standa að samningnum viðurkenna að barn eigi að alast upp innan fjölskyldu, við hamingju, ást og skilning, til þess að persónuleiki þess geti mótast á heilsteyptan og jákvæðan hátt. En það er jafnframt staðfest í sáttmálanum að foreldrar kunna að þurfa á stuðningi að hald í viðleitni sinni til að uppfylla skyldur sínar til umönnunar. Sé barn tímabundið eða til frambúðar aðskilið frá foreldrum sínum skal ríkið sjá til þess að önnur fjölskylda eða stofnun sé til staðar fyrir barnið. Það er jafnframt staðfest í Barnasáttmálanum að stofnanauppeldi er lakasti kosturinn sem ráðlegur er að búa barni sem nýtur ekki samvista við foreldra sína.

Þrátt fyrir að 20 ár séu liðin frá útgáfu samningsins eru að minnsta kosti 24 milljónir barna í veröldinni sem alast upp án foreldra, en það er um 1% af öllum börnum heimsins. Sumar stofnanir, þar á meðal UNICEF, telja fjölda yfirgefinna og munaðarlausra barna vera mun meiri.

Börn sem ekki alast upp í fjölskyldu eru í hópi varnarlausustu einstaklinga heimsins. Afkomu þeirra er oft ógnað sökum skorts á næringu, húsaskjóli og heilsugæslu. Það er líka meiri hætta á að börn sem ekki alast upp í fjölskyldum séu beitt ofbeldi af ýmsum toga, þau sæti þrælkun, fari á mis við menntun og skólagöngu og glati barnæskunni.

Íslensk ættleiðing hefur Samning Sameinuðu þjóðanna og Haagsamninginn um alþjóðlegar ættleiðingar að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Meginverkefni félagsins er að hafa milligöngu um ættleiðingar erlendis frá en jafnframt starfar öflug fjáröflunarnefnd á vegum Íslenskrar ættleiðingar sem hefur það hlutverk að styrkja yfirgefin börn og börn sem búa við erfiðar aðstæður í heimalandi sínu en verða ekki ættleidd.

 

 

Tekið saman á 20 ára afmæli
Barnasáttmálans - Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
Stjórn Íslenskrar ættleiðingar
20.11.2009.

 

 

 

Heimildir:
www.barn.is
www.everychild.org.uk
www.unicef.org

 

 


Svæði