Fréttir

Skólaaðlögun ættleiddra barna og sérstaða þeirra á fyrstu árum skólagöngunnar.

Næsta fræðsla á vegum Íslenskrar ættleiðingar verður laugardaginn 4.maí klukkan 11.00 - 12.30 í húsnæði Framvegis, Skeifunni 11, Reykjavík, 3.hæð.

Þá mun Ingibjörg Margrét Magnúsdóttir grunnskólakennari, með MA í sérkennslu halda erindi sem heitir "Skólaaðlögun ættleiddra barna og sérstaða þeirra á fyrstu árum skólagöngunnar."

Ingibjörg Magnúsdóttir er móðir tveggja ættleiddra stúlkna, 12 ára og 16 ára. Fjölskyldan er búsett á Akureyri. Hún er kennari að mennt, útskrifaðist sem grunnskólakennari frá KHÍ árið 2006 og fór svo nokkrum árum seinna í Meistaranám sem hún lauk árið 2014 með MA gráðu í Menntavísindum með áherslu á sérkennslu.

Í fyrirlestrinum verður stiklað í gegnum þann hluta rannsóknar Ingibjargar sem snýr að; ˶…ættleidd börn hafa með sér aukaferðatösku í gegnum lífið“.

Þjónustuþörf ættleiddra barna við upphaf grunnskóla, sem snýr að skólaaðlögun ættleiddra barna og sérstöðu þeirra almennt fyrstu ár skólagöngunnar. Rannsóknin sem um ræðir var unnin sem hluti af 60 eininga Meistaraprófsritgerð við Háskólann á Akureyri. Jafnframt mun Ingibjörg ræða hvað hefur komið nýtt í ljós síðan hún lauk sínu námi 2014,  fara yfir þá þætti sem mörg ættleidd börn virðast eiga sameiginlega þegar kemur að skólagöngunni. Hvað hægt sé að gera til að auka vellíðan ættleiddra barna í skólasamfélaginu ásamt því að skoða hvað gerist við tilfærslu á milli skólastiga, hverju þurfi að huga að við þau tímamót. 

Erindi þetta ætti að höfða til flestra, ef ekki allra félagsmanna þar sem að annað hvort á fólk barn á skólaaldri eða mun eignast barn á skólaaldri.

Við minnum einnig á að erindi okkar eru öllum opin og fólki er velkomið að benda skólum/kennurum barna sinna á þetta erindi. Þessi fyrirlestur er kennurum og starfsmönnum skóla að kostnaðarlausu, sem og félagsmönnum.


Svæði