Fréttir

Stuttmyndir um ættleidd börn

Á ráðstefnu NAC um liðna helgi var kynnt kvikmyndaverkefni um ættleidda, umhverfi þeirra og viðfangsefni. Um er að ræða röð sjónvarpsþátta eða stuttmynda um ættleidd börn unnið af fyrirtækinu UR.

Við undirbúning þáttanna var unnin ítarleg rannsóknarvinna. Sendir voru spurningalistar, settir upp rýnihópar og handritshöfundar tóku einnig ítarleg viðtöl við nokkur börn. 

UR er almannaþjónustfyrirtæki tengt sænska útvarpinu og ríkissjónvarpinu. Markmið þeirra er að framleiða fræðsluefni sérstaklega fyrir skólakerfið en á fyrirtækinu hvílir einnig sú skylda að sinna vel fólki með fötlun, þeim sem glíma við tungumálavanda og minnihlutahópum.


Á ráðstefnu NAC komu fulltrúar UR, framleiðandi og handritshöfundur. Fjölluðu þeir um myndirnar og sýndu tvær af þeim fimm myndum sem UR hefur framleitt um ættleidda.

Skemmst er frá því að segja að myndirnar eru afar vel gerðar, handrit er vandað og leikendur þar sem börn spila stærstu rullurnar eru óþvingaðir og eðlilegir. Í þáttunum sjáum við ólíkar sögur um hugsanir og hugmyndir um ættleiðinguna og fáum innsýn í reynsluna af glímunni við að vera samþykktur. Hvaða augum líta ættleiddir uppruna sinn og umhverfið og hvernig upplifa þeir viðhorf annara?

Í samtali eftir kynninguna sögðu framleiðendurnir okkur að þáttaröðin hefði verið kynnt á samnorrænni kynningu sjónvarpsstöðva á Norðurlöndum. Einhver lönd utan Svíþjóðar hafa falast eftir efninu til útsendingar en þau mundu ekki eftir viðbrögðum frá Íslandi.

Stax á laugardag hafði Elín Henriksen stjórnarmaður í ÍÆ samband við dagskrárstjóra RÚV og kynnti efnið og ósk okkar um að það verði sent út í sjónvarpi allra landsmanna.

Þættina verður hægt að skoða í takmarkaðan tíma á netinu en þar er efnið auðvitað ekki þýtt og talsett á Íslensku eins og þarf að gera því það er ætlað börnum frá u.þ.b. 8 til 12 ára.


Svæði