Fréttir

Tvö lönd - tvö félög

Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra gaf í dag út löggildingu fyrir Íslenska ættleiðingu til að annast milligöngu um ættleiðingar á börnum frá Nepal.

Félagið hefur þar með heimild íslenskra stjórnvalda til að annast milligöngu um ættleiðingar á börnum frá sjö löndum: Kína, Kólumbíu, Indlandi, Tékklandi, Makedóníu og Tælandi, auk Nepal. Þá hefur ráðherra einnig gefið út löggildingu fyrir nýtt ættleiðingarfélag, Alþjóðlega ættleiðingu, til að annast milligöngu um ættleiðingar frá Póllandi.

Það er mikilvægur áfangi fyrir Íslenska ættleiðingu að hafa nú færst skrefi nær því að geta haft milligöngu um ættleiðingar frá Nepal. Löggildingin gerir félaginu kleift að styrkja sambandið við tengiliði félagsins í Nepal og ákvað stjórn félagsins á fundi sínum í dag að stíga þau skref sem þarf til þess.

Það eru einnig mikil tímamót að nýtt félag á vettvangi alþjóðlegra ættleiðinga hefur nú fengið löggildingu og þar með opnast möguleiki á ættleiðingum frá Póllandi.  Stjórn Íslenskrar ættleiðingar fagnar þessu og sendir Alþjóðlegri ættleiðingu hamingjuóskir.


Svæði