Fréttir

Um ættleiðingar á eigin vegum

Í Haagsáttmálanum um ættleiðingar og leiðbeiningum við hann er skilgreint hvernig haga ber alþjóðlegum ættleiðingum svo tryggt sé að hagsmunir barnsins séu alltaf hafðir í fyrirrúmi.

Í leiðbeiningunum er það talinn vænlegur kostur að ættleiðingar fari fram með milligöngu ættleiðingarfélags en þar er líka heimilað að ættleiðingar fari fram á eigin vegum, svokallaðar sjálfstæðar ættleiðingar eða (independent adoptions) en samkvæmt því fyrirkomulagi fara væntanlegir kjörforeldrar í gegnum úttektarferli í heimalandi sínu og eru samþykktir af stjórnvöldum sem hæfir foreldrar, en að því búnu fer umsókn þeirra til upprunalands barnsins án þess að sérstakt ættleiðingarfélag sé hinn formlegi sendandi umsóknarinnar.

Mikilvægt er að gera greinarmun á sjálfstæðum ættleiðingum og svokölluðum einkaættleiðingum (private adoptions) en það eru ættleiðingar sem fara þannig fram að fólk sem ekki hefur gengið í gegnum úttekt heima fyrir finnur sjálft barn í upprunalandi barnsins og óskar eftir að ættleiða það. Slíkt fyrirkomulag er ekki talið standast siðferðilega skoðun.

Bæði frá Íslandi og t.d. frá Danmörku fara umsóknir nú þegar (og hafa gert árum saman) út á vegum stjórnvalda en ekki ættleiðingarfélagsins þegar sótt er um að ættleiða barn frá sumum löndum. Þó ættleiðingarfélagið annist umsjón með umsóknarferlinu hér innanlands og styðji umsækjendur og leiðbeini þeim fara umsóknir samt sem áður til Kólumbíu á vegum stjórnvalda en ekki félagsins. Ættleiðingarfélagið sinnir samt verkunum frá A til Ö og sækir stimpla og áritanir eins og gerist með ættleiðingar sem far að öllu leiti fram með milligöngu félagsins. Sami háttur er hafður á hjá Danadopt í Danmörku varðandi umsóknir til sumra landa.

Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um að ráðherra skoði nú möguleika á að heimila sjálfstæðar ættleiðingar til landsins. Og þar er haft eftir formanni Íslenskrar ættleiðingar að fyrir marga séu ættleiðingar án milligöngu félaga besta lausnin.

Hvorki formaður félagsins eða stjórn þess taka að sér að ákveða hvað er besta lausnin í ættleiðingum fyrir annað fólk. En á stjórnarfundi hjá Íslenskri ættleiðingu í gærkvöldi var ákveðið að skýra út fyrir ráðherra afstöðu félagsins til sjálfstæðra ættleiðinga og tilkynna ráðuneytinu að ef til þess kemur að ráðherra heimili sjálfstæðar ættleiðingar frá fleiri löndum en nú er, sé félagið tilbúið til að annast umsjón ferilsins hér innanlands eins og nú þegar er gert í mörgum tilvikum hér og á hinum Norðurlöndunum. Ekki ætti því að þurfa að koma til mikilla kerfisbreytinga eða kostnaðarsamra breytinga á starfsmannahaldi í ráðuneytinu ef ákveðið verður að heimila sjálfstæðar ættleiðingar í meira mæli.


Svæði