Fréttir

Um útgáfu og endurnýjun forsamþykkis að undanförnu

Áslaug Þórarinsdóttir, sýslumaður í Búðardal
Áslaug Þórarinsdóttir, sýslumaður í Búðardal

Að undanförnu hefur sýslumaðurinn í Búðardal sent aukinn fjölda umsókna um forsamþykki til umsagnar Ættleiðingarnefndar. Það er í þeim tilfellum þar sem eiginfjárstaða á skattframtali mælist neikvæð sem sýslumaður sendir málin þessa leið.

Það er mikilvægt að hafa alltaf hagsmuni barnsins í huga þegar metið er hvort fólk sé talið hæft til að ættleiða barn og því er jafnframt mikilvægt að málsmeðferð sé ekki íþyngjandi og tafsöm. Mikilvægt er að umsækjendur geri sér grein fyrir því að synjun sýslumanns um útgáfu forsamþykkis er hægt að kæra til Innanríkisráðuneytisins.

Árið 2006 óskaði Dóms- og kirkjumálaráðuneytið eftir umsögn ÍÆ um hugmyndir um flutning á útgáfu forsamþykkja frá ráðuneytinu til sýslumannsembætta. Félagið gaf þá umsögn að þessar breytingar mættu ekki verða til kostnaðarauka fyrir félagið og tryggja bæri að málsmeðferðarhraði kæmi ekki til með að lengjast.

Þegar það kom á daginn árið 2007 að öll ættleiðingarmál sem voru til vinnslu í Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu höfðu verið send til sýslumannsins í Búðardal, lýsti stjórn Í.Æ. yfir áhyggjum um að það gæti tafið málsmeðferð í einhverjum tilfellum.

Markmið stjórnvalda með flutningi verkefna úr ráðuneytinu til sýslumannsembætta á landsbyggðinni var að efla viðkomandi embætti og var því einskonar byggðastefna, en tilfærsla ættleiðingarmálaflokksins fól einnig í sér þá veigamiklu breytingu að hægt er að fjalla um mál á tveimur stjórnsýslustigum, þ.e. ákvörðun sýslumanns er almennt kæranleg til ráðuneytisins. Flutningur verkefnisins til sýslumanns gæti því stuðlað að auknu réttaröryggi í stjórnsýslunni.

Snemma árs 2010 bárust Íslenskri ættleiðingu margsinnis fyrirspurnir og athugasemdir umsækjenda varðandi málsmeðferð sýslumanns um forsamþykki til ættleiðingar, en sýslumaður virtist hafa tekið upp nýja háttu við mat á umsóknum. Málin komu ítrekað til umfjöllunar hjá stjórn félagsins það ár, samanber. fundargerð frá 23. febrúar 2010, en þar segir:
Sýslumaður í Búðardal hefur nú sent bréf til sumra umsækjenda sem eru í endurnýjunarferli með forsamþykki sitt. Þar segir m.a. að sýslumanni sé auðvitað kunnugt um að hrun íslenska fjármálakerfisins hafi haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir fjárhag bæði einstaklinga og fjölskyldna, þ.á.m. fjárhag þeirra sem sótt hafa um ættleiðingu erlendra barna. Það breyti þó ekki því að rannsóknarskylda hvíli á sýslumanni og það geri hún enn frekar en áður. Sýslumaður fer því þess á leit við barnaverndarnefndir að farið verði vandlega yfir núverandi eigna- og skuldastöðu umsækjenda. Þá verði einnig könnuð atvinnustaða umsækjenda og þess óskað að þeir leggi fram launaseðla. Framganga sýslumanns sætir nokkurri furðu af hálfu stjórnar ÍÆ og mun stjórnin staðreyna lögmæti ákvörðunar sýslumanns.

Þann 18. mars í fyrra var Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu sent erindi frá félaginu um sérstaka rannsóknarskyldu sýslumanns sem var svarað hálfu ári síðar með því mati ráðuneytisins að vinnubrögð sýslumannsembættisins bæru vott um vandaða stjórnsýslu.

Í árslok 2010 kom út skýrsla um ættleiðingarmálaflokkinn gefin út af Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr sem unnin var af Hrefnu Friðriksdóttur fyrir Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið. Það er niðurstaða höfundar skýrslunnar að taka beri upp nýtt fyrirkomulag við útgáfu forsamþykkis vegna ættleiðingar og málaflokknum komið fyrir í nefnd hjá sýslumannsembætti þar sem auðvelt yrði að tryggja greiðan aðgang að starfsmönnum til að sinna einstökum verkefnum. Þá taldi skýrsluhöfundur einnig að sjá bæri til þess að umsækjendur eigi eins greiðan aðgang að nefndinni og mögulegt er miðað við aðstæður enda mikilvægt að umsækjendur eigi þess kost að hitta úrlausnaraðila áður en ákvörðun í málum þeirra er tekin.

Undanfarið hefur skapast sú venja hjá sýslumanninum í Búðardal að vísa öllum málum, þar sem eiginfjárstaða umsækjenda er neikvæð samkvæmt skattframtali, til umsagnar hjá Ættleiðingarnefnd. Telur sýslumaður að það ríki jafnræði í málsmeðferð ef slíkur háttur er hafður á. Ekki virðist skipta máli þó fólk sé ekki í greiðsluerfiðleikum og hafi verulegar tekjur. Umsóknir allra sem mælast með neikvæða eiginfjárstöðu samkvæmt skattframtali eru sendar til umsagnar nefndarinnar.

Íslensk ættleiðing hefur hvatt umsækjendur til að láta bankann sinn eða aðra fjármálastofnun gera ítarlegt stöðumat fyrir sig og senda sem fylgigögn með umsóknum en félagið og umsækjendur hafa enga tryggingu fyrir því að litið verði til slíkra ítarlegra gagna við afgreiðslu umsókna um forsamþykki.

Breyttir starfshættir hjá sýslumannsembættinu í Búðardal hafa margvísleg áhrif. Starfshættirnir eru til þess fallnir að tefja afgreiðslu mála, þeir hafa aukið álag á ættleiðingarfélagið og hafa í för með sé aukinn kostnað fyrir ættleiðingarfélagið og umsækjendur. Þá eru ótalin þau sálrænu áhrif sem ferlið hefur á fólk sem verið hefur á biðlistum lengi og á nú í erfiðleikum með að fá endurnýjað forsamþykki vegna þess að bankahrun lækkaði fasteignamat á húseign þeirra en hækkaði húsnæðislánið. Dæmi eru um að sýslumaðurinn hafi hafnað útgáfu eða endurnýjunum á forsamþykki til að ættleiða barn erlendis frá vegna þessa.

Úrskurði sýslumanns má kæra til Innanríkisráðuneytisins innan tveggja mánaða frá dagsetningu úrskurðar, samkvæmt 2. mgr. 33. gr. laga um ættleiðingar. Ein hjón hafa farið þessa leið að undanförnu og kært ákvörðun sýslumanns um að endurnýja ekki forsamþykki þeirra, en með þeirri ákvörðun neitar sýslumaður fólkinu um heimild til að ættleiða barn.

Hinn 15. júlí síðastliðinn féll úrskurður ráðuneytisins hjónunum í vil, þannig að hinni kærðu ákvörðun sýslumanns var breytt á þann veg að umsókn hjónanna um forsamþykki til að ættleiða barn var samþykkt.


Svæði