Fréttir

Stjórnarfundur 22.06.2006

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 22. júní 2006, kl. 20:00
5. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2006

Fundarstaður: Húsnæði ÍÆ, Ármúla 36, Reykjavík

Mættir: Ingibjörg J. Ingibjörg B. Kristjana, Arnþrúður og Karl Steinar. Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.

1. Fræðsla – Nýjir leiðbeinendur. Verið rætt við nokkra aðila en aðeins ein formleg umsókn hefur boriðst. Búið er að skipuleggja 2 námskeið en þörf er á þriðja námskeiðinu í haust, þar sem fólk er komið á biðlista eftir námskeiði. Þegar búið er að ráða leiðbeinendur er ráðgert að fá Lene Kamm frá Danmörku, sem hefur aðstoðað ÍÆ við að byggja upp fræðsluna, til að fara yfir uppbyggingu námskeiðanna og aðferðafræðina. Spurning hvort hægt er að fá hana til að halda erindi á fræðslufundi fyrir félagsmenn á sama tíma. Ákveða þarf eitthvað afmarkað efni og láta hana vita með fyrirvara.

Félagið er að borga með námskeiðunum en hefur ekki bolmagn til þess, ljóst er að endurskoða þarf gjald þátttakenda fyrir námskeiðin.

2. Húsnæðismál. Karl Steinar og Pálmi skoðuðu húsnæði í Síðumúlanum sem þeir töldu að myndi henta starfsemi félagsins og skrifstofunnar mjög vel. Kostnaður við þetta húsnæði er um 200 þúsund á mánuði með hita og rafmagni, spurning hvort hægt er að fá það eitthvað neðar með því að gera samning til 3 eða 5 ára. Húsnæðið býður upp á ýmsa möguleika, aðstaða fyrir litla fundi t.d. fræðslufundi, skrifstofur, fundarherbergi og viðtalsherbergi. Karl Steinar ætlar að skoða þetta mál betur. Fara þarf yfir fjármál félagsins og athuga hve mikið svigrúm er fyrir félagið að fara í meiri húsaleigukostnað.

3. Styrktarmálið. Hvar er styrkjamálið statt? Guðrún og Ingibjörg J. hittu Jón Kristjánsson þáverandi félagsmálaráðherra og Magnús Stefánsson þáverandi formann fjármálanefndar en núverandi félagsmálaráðherra. Niðurstaða fundarins var að félagið fengi að tilnefna fulltrúa í nefnd sem á að koma með tillögur að útfærslu styrkjanna. Samþykkt að Karl Steinar verði þessi fulltrúi. 

4. Indland. Nýtt starfsleyfi, hvar er það statt í ferlinu? Búið að ganga frá því og senda til Indlands. Það er stutt í að starfsleyfi félagsins frá dómsmálaráðuneytisins renni út en verið að endurnýja starfsleyfið á Indlandi til margra ára. Verður að endurnýja leyfið sem fyrst til að valda sem minnstu töfum við endurnýjun starfsleyfisins á Indlandi.

5. NAC símafundur. Fundargerð NAC símafundarins var lögð fram. Gerður Guðmundsdóttir sat þennan fund fyrir hönd félagsins. 

6. Önnur mál.

  • Fyrsta alþjóðlega könnunin sem félagið tekur þátt í verður lögð fyrir félagsmenn í haust. Þarf að breyta orðalagi á einni klausu sem varðar félagið.
  • Nýjar leiðbeiningar hafa borist skrifstofunni frá Tékklandi um ættleiðingar. Þetta er samtals 31 blaðsíða en enn sem komið er er þetta bara á tékknesku en verður sent félaginu á ensku á næstu vikum. Ein umsókn er í Tékklandi á vegum félagsins
  • Dómsmálaráðuneytið hefur gert athugasemdir við stafsetningu á nöfnum sumra barnanna þegar foreldrar hafa ákveðið að halda hluta af upprunalega nafninu. Félagið gæti sent til ráðuneytisins upplýsingar varðandi stafsetningu nafna barnanna og leiðbeina þannig um nafnareglur í upprunalandi barnanna.
  • Rætt um ungbarnaeftirlit á heilsugæslustöðvum fyrir ættleidd börn. Félagsmenn hafa verið að fá mismunandi mikla þjónustu og margir eru óöruggir í samskiptum sínum við heilsugæslustöðvarnar og fá þá kannski ekki þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Fræða þarf félagsmenn hvernig hægt er að vera í góðu sambandi við ungbarnaeftirlitið og starfsfólk heilsugæslunnar. Spurning um að setja þetta inn í fræðslu félagsins þar sem fjallað er um umönnun ungbarna. Einnig er gott að setja efni inn á vefsíðuna varðandi þetta. Hvetja foreldra til að kaupa fræðslubækling um heilsufar ættleiddra frá félaginu og færa sinni heilsugæslustöð.

Næsti fundur ákveðinn 24. ágúst. Fleira ekki rætt og fundi slitið.

Arnþrúður Karlsdóttir

Fundarritari.


Svæði