Fréttir

Stjórnarfundur 27.09.2007

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 27. september 2007, kl. 20:00
6. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2007
 
Mættir: Ingibjörg J, Ingibjörg B, Pálmi, Karl Steinar og Arnþrúður, Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.
 
NAC fundurinn
Aðalfundur samtaka norrænna ættleiðingarfélaga NAC, var haldinn í Helsinki 21.-23. september sl. Gerður Guðmundsdóttir sem sat í stjórn ÍÆ þar til fyrir rúmu ári síðan, lauk stjórnarsetu sinni í NAC sem fullrúi Íslands og við tók Ingibjörg Birgisdóttir meðstjórnandi í stjórn ÍÆ. Þær voru báðar fulltrúar Íslands (ÍÆ) á aðalfundinum.
 
Fyrir utan hefðbundin aðalfundarstörf og umfjöllun um ýmis innri málefni samtakanna, var margt mjög fróðlegt á dagskrá fundarins. Hefð er fyrir því að hafa „opinn dag“ með ýmsum fyrirlesurum og fróðleik og er sá dagur opinn almenningi. Meðal annars flutti Monica Dalen prófessor við Háskólann í Osló erindi sem hét: „Ég er sá/sú sem ég hef orðið að, en ekki sá/sú sem ég hefði getað orðið“ og fjallaði um sjónarmið/skoðanir sem ættleiddir einstaklingar hafa um sjálfsmynd sína og uppruna. Monica hefur skrifað bækur, gert rannsóknir og haldið ótal fyrirlestra um málefni ættleiddra barna og fjölskyldna þeirra og hefur komið hingað til lands og haldið fyrirlestur á vegum ÍÆ. 
 
Annað erindi á opna deginum flutti Pia Brandsnes, tæplega fertug kona ættleidd til Danmerkur frá Kóreu. Pia hefur í mörg ár unnið að málefnum ættleiddra í Danmörku og fyrirlestur hennar fjallaði um „sjálfsmyndarmenningu og alþjóðlegar ættleiðingar“, - hvernig ættleiddir einstaklingar upplifa sig.  Meðal niðurstaðna sem hún kynnti var að 7% ættleiddra eru í mikilli „krísu“ með sjálfsmynd sína og stöðu í lífinu, upplifa mikinn sársauka og þurfa mikla hjálp við að fóta sig.
 
Dagskrá og umfjöllunarefni NAC fundarins er hægt að skoða nánar á slóðinni:http://www.interpedia.fi/nac/
 
Auk opna dagsins var einnig fundur með fulltrúum yfirvalda á Norðurlöndunum, nema Íslandi sem ekki sendi fulltrúa til Helsinki. Þar var einnig Jenny Degeling frá Haag (The Permanent Bureau) sem hefur m.a. til umfjöllunar Haag samninginn um alþjóðlegar ættleiðingar og samskipti við löndin sem standa að þeim samningi og vilja gerast aðilar að honum.  Mikil vinna er samfara því ferli og margt fróðlegt sem Jenny hafði um það að segja. Annað sem ekki var jafn ánægjulegt er sú staðreynd að innan nefnda og ýmissa stofnana Evrópusambandsins og –ráðsins eru all sérstakar kenningar í gangi um ættleiðingar á milli landa og hversu æskilegar þær eru.  Sums staðar er því jafnvel haldið fram að börnum sé fyrir bestu að dvelja á barnaheimilum í fæðingarlandinu frekar en að eignast fjölskyldu í öðru landi, ef öll önnur úrræði hafa verið fullreynd.  Nokkur „ættleiðingarlönd“ eru í Evrópu, td Rúmenía og Búlgaría og er nokkuð öruggt að þessi nýja stefna er tengd umsóknum þeirra um aðild að Evrópusambandinu.  Ljóst er að t.d. NAC og ekki síður Euradopt, sem eru samtök ættleiðingarfélaga í Evrópu, þurfa að beita sér fyrir því að fræða og upplýsa til að þessi stefna verði ekki að veruleika. 
 
Í tengslum við aðalfund NAC var einnig svokallaður PAS (Post Adoption Services) fundur, en þar hittist vinnuhópur sem er skipaður fulltrúum frá öllum Norðurlöndunum og situr Gerður Guðmundóttir í þeim vinnuhópi fyrir Íslands hönd og mun gera áfram, auk þess að taka þátt í þessari vinnu hér heima.  Eins og nafnið gefur til kynna er vísað í „þjónustu-eftir-ættleiðingu“ , en ekki hefur tekist að finna þessu gott íslenskt nafn og mun verða notast við PAS enn um stund.  Þessi þáttur hefur verið ræddur fram og til baka í mörg ár: Hvaða þjónusta á þetta að vera, hver á að veita hana og hverjum?  Það sem öllum kemur þó saman um er að þetta eigi að vera á ábyrgð samfélagsins en ekki endilega ættleiðingarfélaganna, þó sumt geti vissulega fallið undir þau.  Það sem var eftirtektarverðast að frétta af þessum málaflokki núna var það að Danir eru að standa sig best.  Þeir hafa sett í gang mjög metnaðarfullt verkefni sem stendur yfir í fjögur ár.  Alls hafa verið ráðnir í vinnu sautján sérfræðingar í málefnum kjörfjölskyldna og eru þeir staðsettir víðsvegar um Danmörku.  Hver fjölskylda á rétt á fimm viðtölum fyrstu þrjú árin eftir heimkomu með ættleidda barnið og velur sér þann sérfræðing sem henni hentar, sér að kostnaðarlausu.  Þetta er tilraunaverkefni og verður spennandi að sjá hvernig til tekst. Hér heima á Íslandi er verk að vinna í þessum málaflokki og líklega best að fara að bretta upp ermar. Við bindum miklar vonir við íslenska PAS-vinnuhópinn og þá vinnu sem er að fara af stað þar. 
 
Gerður hefur verið í forsvari fyrir PAS nefndina hjá ÍÆ og er vel inni í þeim málum í NAC og í góðu sambandi við aðra PAS-aðila í NAC. Stjórnin samþykkti að biðja hana um að vera áfram í forsvari fyrir PAS hjá ÍÆ 
 
ÍÆ heldur NAC fundinn næst og verður hann í september 2009.
 
Fjárhagsstaða félagsins
Farið var yfir stöðuna á fjármálum ÍÆ og fjárhagsáætlun fyrir restina af árinu 2007 lögð fram. Staðan hefur batnað aðeins en þó er gert ráð fyrir að það vanti rúmlega tvær milljónir króna í rekstur félagsins á árinu.
 
Færri umsóknir hafa komið á þessu ári en árin á undan og því færri biðlistagreiðslur verið greiddar. 
 
Ákveðið var að milligreiðsla verði rukkuð þegar umsókn til Kína hefur farið gegnum “Review room” og næsti hópur verður rukkaður um milligreiðslu sem var ákveðin fyrir árið 2008 þar sem ljóst er að börnin koma ekki heim fyrr en á árinu 2008.
 
Pálmi og Guðrún funduðu með fjáröflunarnefndinni vegna stofnunar á Hollvinum ÍÆ. Ræddar hugmyndir um hvernig best er að kynna Hollvini ÍÆ fyrir stórfjölskyldu ættleiddra og komu fram hugmyndir um að halda sérstaka kynningu eða námskeið fyrir stórfjölskylduna um ættleiðingar, ættleidd börn, uppruna barnanna, upprunalöndin og kynþáttafordóma. Um leið væri hægt að gefa fólki tækifæri til að gerast aðilar að Hollvinum ÍÆ.
 
Fjárhagsstyrktarbeiðnir til sveitarfélaga og fyrirtækja eru ekki að skila neinu að ráði til félagsins. Nauðsynlegt er að fá fund með dómsmálaráðuneytinu og ræða fjárhagsstöðu félagsins.
 
Ráðstefna í Dehli á Indlandi 8. til 10. október
Á ráðstefnunni verður m.a. farið yfir nýjar reglur á Indlandi en þær eru í takt við þær reglur sem gilda í Kína. Guidlines frá CARA bárust ÍÆ í sumar og eru nú upp á 77 blaðsíður. Ingibjörg J. og Guðrún fara á ráðstefnuna. Einnig munu þær funda með sendiráði Íslands á Indlandi, heimsækja CARA og hitta Anju í Kalkútta.   
 
SN ferlið
Upplýsingar eru komnar um fimm börn. Búið er að finna fjölskyldur fyrir tvö af þessum börnum. Ferlið hefur verið endurskoðað og Ingibjörg J. og Arndís í fræðslunefndinni tóku væntanlega foreldra í viðtöl. Lögð er áhersla á að fyllsta trúnaðar sé gætt gagnvart börnunum og væntanlegum foreldrum. Dómsmálaráðuneyti hefur gert kröfur um að þeir umsækjendur sem ætla að sækja um ættleiðingu á SN barni verði að fara í viðbótarútekt hjá félagsþjónustunni áður en samþykki fyrir SN ættleiðingu er gefið út. Ferli varðandi viðbótarupplýsingar fyrir dómsmálaráðuneyti vegna SN ættleiðinga er tilbúið en viðkomandi umsækjendur eiga að hafa samband við sýslumann sem sendir beiðni á félagsþjónustuna vegna viðbótaupplýsinga í skýrslu félagsráðgjafa.
 
Eþíópía
Rætt um að koma á ættleiðingarsambandi við Eþíópíu. Þarf að vinnast í samráði við dómsmálaráðuneytið.
 
 
Önnur mál
  1. Beiðni um aðgang að upplýsingum. Kínverska sendiráðið hefur óskað eftir að fá upplýsingar um börn sem hafa ættleidd frá Kína þ.e. hvaðan úr Kína þau koma. Guðrún mun sjá um að senda sendiráðinu þessar upplýsingar.
  1. Lokaverkefni í félagsráðgjöf í HÍ. Beiðni kom frá nemanda á lokaári í félagsráðgjöf í HÍ um að vinna lokaverkefni tengt ættleiðingum. Stjórn gleðst yfir áhuga á málefnum tengdum ættleiðingum og er tilbúin til að gera það sem þarf t.d. að senda félagsmönnum beiðni um þátttöku í könnunum vegna lokaverkefna ef þess gerist þörf.  
  1. Afmælishátíðin. Sett verður saman afmælisnefnd sem mun sjá um stjórn á þessu verkefni. Fengin verður aðstoð frá PAS nefnd, skemmtinefnd og fjáröflunarnefnd til að koma að þessu verkefni. Fullorðnir ættleiddir verða fengnir til að taka þátt í undirbúningi. Hugmynd um að heiðra fyrir ómetanleg störf í þágu félagsins.
 
Fleira ekki rætt og fundi slitið.
 
Arnþrúður Karlsdóttir
Fundarritari

Svæði