Stjórnarfundur 28.01.1987
Fundinn sátu: Engilbert, Guðrún, Helgi, Jón Hilmar, Hilmar og fyrrverandi formaður ,Elín.
Í upphafi voru rifjuð upp og gerð grein fyrir viðtölum við þrjá ráðherra sem fram höfðu farið síðustu daga. 21. jan. Var rætt við forsætisráðherra. Stjórnarmönnum bar saman um að fundirinn hefði tekist allvel. Ráðherra hafði lofað að ræða málið við dómsmálaráðherra og hafa samband við stjórnina að því loknu.
27.1. lét hann vita að hann hefði rætt málið við dómsmálaráðherra og fleiri starfsmenn þess ráðuneytis en skilningur ráðuneytismanna væri sýnilega lítill. Hann upplýsti að von væri á greinagerð dómsmálaráðuneytisins um málið.
24.1. var rætt við utanríkisráðherra og honum kynntir málavextir. Ráðherra virtist sýna málinu velvilja og lofaði að ræða það við forsætis- og dómsmálaráðherra.
27.1. greindi hann frá þessum viðræðum sínum sem m.a. fengu þau svör háttsetts embættismanns í dómsmálaráðuneytinu að ákvörðun lægi fyrir um stöðvun ættleiðinga frá Sri Lanka meðan ekki fengist tengiliður þar syðra sem ráðuneytið felldi sig við.
28.1. var rætt við félagsmálaráðherra. Ráðherra sýndi málinu áhuga og skilning og sagðist myndu krefja dómsmálaráðuneytið svara um afstöðu þess og aðgerðir. Ráðherra var bent á að dómsmálaráðuneytið hefði gert ýmsar ráðstafanir til að breyta gangi umsókna um ættleiðingar og hrifsað til sín aukin umráð og úrskurðarvald í þeim efnum sem heyrðu undir félagsmálaráðuneytið. Í ljós kom að ráðherra hafði enga vitneskju um þetta og hugðist kanna málið.
Samið var fyrsta uppkast að greinagerð um samskipti við dómsmálaráðuneytið vegna stöðvunar ættleiðinga frá Sri Lanka. Áhersla var lögð á að fjalla um málið frá sem flestum hliðum. Stefnt var að því að hafa greinargerðina fullbúna innan viku til 10 daga og senda hana þá hlutaðeigandi ráðherrum og fleiri ráðamönnum.
Jón Hilmar Jónsson