Fréttir

Stjórnarfundur 31.08.2009

Stjórnarfundur 31. ágúst 2009
 
Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar miðvikudaginn 31. ágúst 2009, kl. 17.15
 
10. fundur stjórnar
 
Mættir:
 
Ágúst Guðmundsson
Hörður Svavarsson
Guðbjörg Grímsdóttir
Margrét Rósa Kristjánsdóttir
Pálmi Finnbogason
Vigdís Ósk Sveinsdóttir
 
Guðrún Sveinsdóttir sat einnig fundinn.
Fundurinn hófst á því að fundarmenn fóru yfir síðustu fundargerð og samþykktu hana. 
 
Mál á dagskrá:
 
  1. Beiðni um umsögn um reglugerðardrög.
  2. Kjör varafulltrúa ÍÆ í NAC.
  3. Verkaskipting vegna aðalfundar og ráðstefnu NAC
  4. Special Need vinnuferlar
  5. Önnur mál
 
1.      Beiðni um umsögn um reglugerðardrög.
Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur sent Íslenskri ættleiðingu drög að nýrri reglugerð um ættleiðingar sem hún hyggst setja á grundvelli laga um ættleiðingar, félaginu til umsagnar. Stjórn Íslenskrar ættleiðingar hefur farið yfir drögin og eru viðamestu breytingarnar eftirfarandi:
 
Breytingar eru gerðar á niðurlagi ákvæðis 11. gr. laganna um aldur umsækjenda þar sem kemur fram eftirfarandi breyting: [,,...að heimilt er að gefa út nýtt forsamþykki eða framlengja forsamþykki sem getur gilt allt að því tímamarki er sá umsækjenda sem yngri er, sé um hjón að ræða, nær 50 ára aldri.”].
 
Þá vill stjórn ÍÆ koma á framfæri athugasemdum um að aðrar reglur virðast gilda um ættleiðingar á erlendum börnum og á börnum sem ættleidd eru innanlands. Stjórn telur orð eins og „erlend börn“ og „alþjóðleg fjölskylduættleiðing o.fl.“ óheppileg þar sem lögin taka til ættleiðinga hérlendis sem og erlendis.
 
Þá kemur fram sú breyting í fyrstu efnisgrein 19. gr. að drögunum, að heimilt sé að víkja frá því að þörf sé á milligöngu ættleiðingarfélags við ættleiðingu. Telur stjórn ÍÆ að þarna sé verið að opna fyrir möguleika ættleiðanda til þess að ættleiða á eigin vegum og án milligöngu löggilts ættleiðingafélags. 
 
Þá snýr þriðja breytingin að námskeiðsmálum þar sem vikið er frá því skilyrði að ættleiðandi/ættleiðendur séu búnir að sækja námskeið hjá ættleiðingarfélagi, til þess að öðlast forsamþykki.
 
Formanni og Vigdísi falið að setja saman drög að umsögn um drög að reglugerð um ættleiðingar. Stjórn Í.Æ. mun funda um endanlega umsögn um félagsins áður en tilgreindur frestur er úti.
 
2.      Kjör varafulltrúa ÍÆ í NAC.
Nýkjörinn varafulltrúi okkar til setu á fundum NAC, Guðrún Sveinsdóttir, sagði af sér hlutverkinu með bréfi þann 6. Júní. Lagt er til að Kristinn Ingvarsson verði kjörinn í hlutverkið. Kristinn á sæti í stjórnum Foreldrafélags ættleiddra barna og Alþjóðlegrar ættleiðingar og hefur því töluverða reynslu af að vinna að málefnum ættleiðinga. Tillagan er samþykkt samhljóða.
 
3.      Verkaskipting vegna aðalfundar og ráðstefnu NAC.
Einar Már Guðmundsson hefur verið fenginn til að setja ráðstefnuna. Guðrún Ögmundsdóttir mun verða ráðstefnustjóri á föstudeginum. Stjórn ÍÆ hefur komið því þannig fyrir að einhverjir stjórnarmeðlimir ÍÆ taki þátt í ráðstefnunni og móttökum alla fundardagana.
 
4.      Special Need vinnuferlar.
Skrifstofustjóri lagði fram yfirlit yfir vinnuferlið og reglur CCA frá Kínverskum stjórnvöldum. Lagt til að fá fund með Gesti barnalækni og vinna að ferlunum vegna þessara barna í samvinnu við hann. Stjórn ákvað að taka upp þráðinn síðar og skoða þá ferlið nánar.
 
5.      Önnur mál.
Stjórn upplýst um það að bréf hefur verið sent til fyrrv. leigusala þar sem kröfu hennar var hafnað.
 
 
Fundi slitið kl. 18.30.
 
Vigdís Ósk Sveinsdóttir
fundarritari
 

Svæði