Fréttir

Stjórnarfundur ÍÆ 27.05.2004

Kl. 20:00

Mætt: Ásta B. Þorbjörnsdóttir, Gerður Guðmundsdóttir, Helga Gísladóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Ingvar Kristjánsson, Lísa Yoder. Auk þeirra sat Guðrún Sveinsdóttir framkvæmdastjóri fundinn.

Fundargerð.

Tékkland.
Dómsmálaráðuneytið virðist vera jákvætt fyrir þessu nýja samband. Þar er vilji til að hafa sama form á ýmsum þáttum og er á hinum norðurlöndunum. Vonast er eftir löggildingu innan skamms. Mögulegt er fyrir einstæða að sækja um ættleiðingu en þær umsóknir verða miklu færri en umsóknir frá hjónum.

Hliðarlistinn fyrir einhleypa.
Lögð fram drög að reglum um hliðarlista fyrir einhleypa. Orðalag yfirfarið og lagfært. Þessar nýju reglur verða lagðar fyrir Dómsmálaráðuneytið hið fyrsta.
Lögð fram drög að skráningu á reglum um almennan biðlista íslenskrar ættleiðingar. Guðrúnu falið að lagfæra orðalag og senda stjórn til yfirlestrar.

Aðsent bréf.
Stjórnin fékk bréf frá félagsmanni þar sem lagt var til að þjónustan við landsbyggðina yrði efld, t.d. í fræðslumálum. Í því sambandi var ítekuð sú hugmynd að hafa öflug málþing annað hvert ár þa. landsbyggðarfólk gæti þá betur mætt og tekið þátt. Mikil ánægja var með málþingið sem haldið var vorið 2003. Fyrir stuttu var fræðslufundur á Akureyri, mættu þar um 20 manns.

Eins mætti hugsa sér það að efni fyrirlesara yrði keypt og komið fyrir undir læstum svæðum á heimasíðunni. Halda þarf kostnaði innan skynsamlegra marka og er talið að fjarfundakerfi verði félaginu of dýrt. Stjórn ÍÆ hefur reynt að halda flesta fundi um helgar til að gefa landsbyggðarfólki kost á að taka þátt.

Fræðslumál félagsins.
Lagt til að birta upplýsingar á heimasíðunni t.d. um fjölda þátttakenda í uppákomum á vegum félagsins ef því verður við komið. T.a.m. mættu 4 á fund um umönnun ungra barna. Oft er verið að gagnrýna stjórnina fyrir að sinna fræðsluþættinum ekki nógu vel en á móti kemur að stundum er mætingin á viðburði í félaginu ansi léleg.
Ingibjörg talaði um fræðslumálin. Hún kom inn á eldri hugmynd að netfyrirspurnum þar sem einhver sæti fyrir svörum.

Formannafundurinn í haust.
Rætt um skipulag og verkefni sem þarf að sinna fyrir þann fund. Fundarmenn voru á eitt sáttir á það að þessi fundur væri ekki til þess fallinn að bjóða félagsráðgjöfum og öðru fagfólki svo sem sálfræðingurm og félagsfræðingum til fundar Heldur væri málþing annað hvert ár sá vettvangur.

Fjármál félagsins
Þau eru góð. Hugmynd kom fram að auka starfshlutfall annars starfskraftsins. Rætt var um nauðsyn þess að gera ítarlegri fjárhagsáætlanir en hingað til hafa verið gerðar.
Rætt var um fjáröflunarnefndina og á hvaða formi best er að hafa samband við fjölskyldur. Sennilega er heppilegast að fjáröflunarnefndin myndi útbúa blað sem yrði síðan sent til félagsmanna af stjórn og skrifstofu félagsins.

Næsti fundur verður 10. júní. Ingibjörg mun skrifa fundargerð í fjarveru Ástu.

Fleira var ekki rætt á þessum fundi.
Fundi slitið kl. 23:00.
Ásta B. Þorbjörnsdóttir.


Svæði