Fréttir

Stjórnarfundur ÍÆ 27.10.2005

Stjórnarfundur Íslenskrar ættleiðingar 27. október 2005.

Mættir: Ingibjörg, Guðmundur, Arnþrúður, Lísa og Helga. Guðrún starfsmaður sat fundinn.

Dagskrá:

1. Nýafstaðin fjölskylduhátíð.
2. Umræða um styrki – frekari aðgerðir
3. Ráðgjöf
4. Vinnudagur stjórnar
5. Fræðsla og útgáfa bæklings fyrir einhleypa
6. Heimasíða – lokaða svæðið
7. Önnur mál

Fundagerð síðasta fundar samþykkt með einni breytingu.

1. Fjölskylduhátíðin tókst mjög vel. Þátttaka á hátíðinni var góð, áætlað er að fjöldinn hafi verið á fimmta hundrað. Skemmtinefndin á mikið hrós og þakkir skildar fyrir góða skipulagningu og mikla vinnu við undirbúning.
Arnþrúður sagði frá peningamálum hátíðarinnar. Skemmtinefnd sótti um styrk til borgarinnar fyrir salarleigu og var hann samþykktur. Kostnaðurinn við hátíðina er um 210-220 þúsund. Á hátíðinni safnaðist 105 þúsund krónur og Landsbankinn gaf 50 þúsund. Kostnaðurinn verður því um 55-60.000. Skemmtinefnd ætlar að senda þakkarbréf til allra þeirra aðila sem styrktu hátíðina.
Í framhaldi af þessari umræðu var rætt um að sækja um styrk til Reykjavíkurborgar, t.d. vegna leigunnar á húsnæði KFUM/K á laugardögum. Einnig að sækja um í Velferðarsjóð barna t.d. fyrir þýðingu á góðum barnabókum.

2. Umræða um styrki – frekari aðgerðir. Arnþrúður og Guðrún fóru í viðtal við Leif Hauksson á Rás 2. Hann er til í að taka ættleiðingastyrki til foreldra til umfjöllunar í þætti sínu. Eins eru tengsl við fleira fjölmiðlafólk og spurning að fá það til að fjalla um þessi mál.
Ákveðið að reyna að koma á tengslum við einhvern í stjórnarliðinu, ræddir ýmsir möguleikar í því sambandi. Ákveðið að fá fundi með þingflokkum stjórnmálaflokkanna, byrja á Sjálfstæðisflokknum. Ingibjörg og Guðrún taka þetta að sér og Lísa er til í að koma með þeim. Vera búin að undirbúa fundina með því að útbúa bréf sem ýmsum tölulegum upplýsingum.

3. Það hefur oft verið rætt að útbúa upplýsingapakka fyrir fólk sem kemur á skrifstofuna til að fá upplýsingar um ættleiðingar. Ákveðið að leggja vinnu í það þar sem bæði yrði farið yfir ferlin í hverju landi fyrir sig ásamt þeim grunnupplýsingum sem má gera ráð fyrir að fólk vilji hafa með sér eftir almenna ráðgjöf. Samhliða vinna að því að gera heimasíðuna enn betri með sama hætti. Stefnt að því að taka 21. janúar sem vinnudag stjórnar og framkvæmdastjóra. Einnig þarf að huga að ráðgjöf fyrir foreldra eftir heimkomu. Það verða örugglega fleiri mál sem þarf að vinna að á þessum vinnudegi. Guðrún sagði frá því að Yasmin Olsen hefði komið á fund og hún og fleiri ættleiddir vinir hennar væru til í að hafa almennan fund þar sem þau lýsa sinni reynslu, hvað foreldrar þurfa að hafa í huga og fleira sem gagnlegt væri fyrir okkur að heyra. Hugmynd kom um það að fá einhvern til að koma á vinnufundinn okkar til að vera með innlegg t.d. um ráðgjöf eftir ættleiðingu.

4. Áætlaður vinnudagur stjórnar ásamt framkvæmdastjóra er eins og áður segir 21. janúar 2006.

5. Fræðsla og útgáfa bæklings fyrir einhleypa. Búið er að útbúa bæklinginn og á að ljósrita hann í 50 eintökum. Einnig þarf að útbúa fleiri leikskólabæklinga en þeim var mjög vel tekið og kláruðust hratt.

6. Heimasíða – lokaða svæðið. Lokaða svæðið er tilbúið til notkunar en eftir að setja efni inn á það. Byrja á að setja fundagerðirnar inn. Rætt um hvað annað efni á að fara þar inn. Auglýsa lokuðu síðuna á heimasíðunni og félagsmenn geta þá haft samband við skrifstofu og fengið uppgefið lykilorðið.

7. Önnur mál.
-Guðrún sagði að hún væri ekki með prókúru á alla reikininga fyrir félagið. Allir í stjórn þurfa að skrifa uppá prókúru og var það gert. Stofnaðir hafa verið sérstakir reikningar fyrir styrktarsjóðina en vantar kennitölu. Lísa tók að sér að athuga hvernig það fer fram.

-Laufey á Ísafirði hafði samband við skrifstofuna. Hana langar til að koma á fót foreldradögum á Ísafirði og spurði hvort félagið væri tilbúið að borga fyrir húsnæði. Það var samþykkt.

-Kostnaður við bolina 87.018 krónur. Verður sú upphæð dregin frá söluandvirði bolanna, þeir hafa selst vel. Ingibjörg sendi þakkarbréf til Láru og Badda í Kína.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið.

Helga Gísladóttir,
fundaritari.


Svæði