Fréttir

Máltaka ættleiddra barna - Samanburður á hefðbundinni máltöku barna og máltöku ættleiddra barna. Höfundur Gerður Guðjónsdóttir

Ágrip
Í þessari ritgerð verður fjallað um máltöku ættleiddra barna af erlendum uppruna og hún
borin saman við máltöku barna fæddra í landinu. Í hefðbundinni máltöku ganga
börn í gegnum svipuð stig við tileinkun móðurmáls síns. Það sem skilur að máltöku
ættleiddra barna og hefðbundna máltöku er það rof sem verður á máltöku
ættleiddra barna við ættleiðingu. Settar eru upp tvær rannsóknarspurningar. Hver
er munurinn á eðlilegri máltöku og máltöku ættleiddra barna af erlendum uppruna
og hefur aldur ættleiðingar áhrif á máltöku ættleiddra barna.
Í ljós kom að lítill munur er á hefðbundinni máltöku barna og máltöku
ættleiddra barna. Það sem skilur að er að erlend ættleidd börn læra nýtt mál við
komu til nýs lands. Klippt er þá á máltöku sem átti sér stað í heimalandi þeirra og
ný máltaka hefst. Mörg börn þegja fyrstu vikurnar við komu til nýs lands en
nokkrum vikum eða mánuðum seinna eru þau flest farin að mynda orð og
setningar. Með markvissri málörvun frá foreldrum gengur flestum ættleiddum
börnum vel við nýja máltöku. Ákveðin atriði verður þó að hafa í huga þegar kemur
að máltöku þeirra, en þau skilja t.d. það sem sagt er við þau mun bókstaflegra en
börn sem alast upp við hefðbundna máltöku.
Aldur ættleiðingar getur haft áhrif á máltöku barna en því fyrr sem þau eru
ættleidd því betur gengur máltakan. Í ritgerðinni er einnig fjallað um áhrif
stofnanavistar á málþroska barna en oftast er það vegna lítillar örvunar sem
máltöku þeirra seinkar. Gerð var samanburðarrannsókn á málþroska þriggja
kínverskra ættleiddra stúlkna og málþroska þriggja íslenskra stúlkna á sama aldri
og fæddra á Íslandi. Í ljós kom að lítill sem enginn munur var á málþroska þessara
tveggja hópa en mælingar áttu sér stað þegar stúlkurnar voru 3;6 árs gamlar.

Máltaka ættleiddra barna - Samanburður á hefðbundinni máltöku barna og máltöku
ættleiddra barna


Svæði