Fréttir

PESSAN- „Loksins erum við orðin vísitölufjölskylda – með barn og hund!“

Elísabet og Birkir Jan
Elísabet og Birkir Jan
12.01.2014 Hlín Einarsdóttir

Elísabet Hrund Salvarsdóttir og Smári Hrólfsson hafa nú gengið í gegnum ættleiðingarferli sem var bæði langt og strangt. Þau sóttu um að ættleiða barn frá Tékklandi og nú er litli gullmolinn þeirra, Birkir Jan Smárason kominn til þeirra og er hann mjög kærkomið barn!

Við fengum að líta inn til þeirra og fengum að vita hvernig ferlið fór fram. Þetta er saga sem lætur engan ósnortinn!

Elísabet og Birkir Jan  (Myndir: Bleikt.is og úr einkasafni)

Elísabet og Birkir Jan
(Myndir: Bleikt.is og úr einkasafni)

Elísabet og Smári kynntust árið 1999 þegar þau voru bæði að vinna í SPRON. Þau hófu sambúð árið 2000 og það var í maí 2005 að þau fóru að ræða barneignir. Hálfu öðru ári síðar hafði ekkert gerst í þeim efnum en þau töldu sig bæði vera ágætlega heilbrigð.

„Ég fór þá til kvensjúkdómalæknis og kom þá í ljós að ég var með legslímuflakk,“ segir Elísabet. „Ég fór síðan í aðgerð í nóvember 2006 og í framhaldi fórum við í fyrsta viðtal til Art Medica.“

Þau gengu í gegnum fjórar tæknifrjóvganir á þessum tíma og sex smásjárfrjóvganir. Þrisvar sinnum voru settir upp frystir fósturvísar og Elísabet fór ótrauð í gegnum þetta ferli þrátt fyrir mikið álag sem fylgir slíkum hormónagjöfum. „Þetta var í raun eins og að ganga í gegnum breytingarskeiðið aftur og aftur,“ segir Smári. „Sem betur fer hefur Elísabet mikið jafnaðargeð og fór ótrúlega vel í gegnum þetta þrátt fyrir að það taki líkamann í raun mörg ár að jafna sig eftir svona hormónameðferðið.“

Það sem tók mest á var biðinn frá því uppsetningu þar til niðurstaða kom hvort þetta hefði gengið eða ekki. Elísabet reyndi ýmislegt á meðan biðinni stóð en bíða þarf í hálfan mánuð eftir niðurstöðum úr meðferðinni: „Stundum var ég heima, stundum beið ég í tvo daga og fór svo að vinna. Þetta var yfirleitt það erfiðasta í ferlinu, að bíða,“ segir hún.

Elísabet og Smári á leið til Tékklands í gegnum Danmörku. Mynd tekin á flugvellinum - takið eftir möppunni og myndunum af Birki

Elísabet og Smári á leið til Tékklands í gegnum Danmörku. Mynd tekin á flugvellinum – takið eftir möppunni og myndunum af Birki

Niðurstaðan

Þau hjónin fengu að vita að ástæður þess að ekki gengi að eignast barn væri líklega óútskýrð ófrjósemi. Líkaminn hafnar öllum uppsetningum og Elísabet hefur aldrei orðið ófrísk. „Við höfum alltaf rætt málin og fórum að þarna skoða þann möguleika að ættleiða barn. Smára fannst það fyrst ekki spennandi kostur og ég þrýsti ekki á hann,“ sagði Elísabet. Þau sáu þó með tímanum að þetta væri eina lausnin sem lægi fyrir.

Íslensk ættleiðing

Þann 12. mars 2010 sendu þau fyrirspurn til Íslenskrar ættleiðingar og fengu fljótlega svar. „Við fórum í framhaldi og hittum framkvæmdastjórann Kristin Ingvarsson „Svo fórum við á undirbúningsnámskeið sem allir sem ætla að ættleiða barn þurfa að fara á,“ segja þau. „Þetta er eitt af mörgu sem sýslumaður hakar við og eru einskonar forkröfur til þessa að fá forsamþykki frá íslenska ríkinu til að mega ættleiða . Það er þó ýmislegt sem þarf að skila inn og fórum við í umfangsmikla pappírsvinnu með öllu tilheyrandi á næstu mánuðum.“

Það sem verðandi foreldrar þurfa að skila inn er m.a. fæðingarvottorð, hjúskaparvottorð, skattskýrslur liðinna ára, úttekt á fjármálum, skýrslu frá barnaverndarnefnd, sakavottorð og ekki mega umsækjendur vera í yfirþyngd og þarf viðkomandi að vera innan ákveðins BMI stuðuls. Eftir að forsamþykki hefur fengist þarf svo að halda áfram að safna gögnum, fara í viðtal hjá sálfræðingi þar sem tekin eru t.d. greindar- og persónuleikapróf.

Einnig þurfti að stimpla og votta allt – senda svo skjölin til þýðingar eftir að sýslumaður samþykkti.

„Við grínumst stundum með þetta, en ef allir foreldrar á Íslandi þyrftu að fara í gegnum slík próf til að eignast börn á náttúrulegan hátt væru Íslendingar útdauðir!“ segir Smári og hlær. „Þú lendir á vegg eftir vegg. En þegar maður er með fókusinn á það sem maður vill, og í okkar tilfelli var það að eignast barn, sættir maður sig við ferlið, gerir það sem þarf að gera og fer í gegnum það án þess að kvarta. Þetta er bara hluti af þessu og það eru hreinar línur að þetta sigtar hiklaust út fólk sem leggur ekki í þetta, kannski annars mjög hæft fólk.“

Ein af fyrstu myndunum sem teknar voru af fjölskyldunni - fyrsta heimsóknin í barnaheimilið í Tékklandi

Ein af fyrstu myndunum sem teknar voru af fjölskyldunni – Heimsóknin í barnaheimilið í Tékklandi þar sem Birkir Jan var fárveikur.

Þann 26. ágúst skiluðu þau inn skjölunum til sýslumanns og fengu þau samþykki til ættleiðingar í október árið 2010. Þau voru fegin að þetta gekk hratt fyrir sig því þegar þau sóttu um var sýslumaðurinn á Búðardal með umboð fyrir ættleiðingum en nú hefur það verið flutt til Reykjavíkur og virðist hafa hægt á afgreiðslu þessara mála þar.

Elísabet og Smári skiluðu inn öllum gögnum í janúar árið 2011 og fóru þau öll í þýðingu til Tékklands. Löndin sem þau gátu valið um á þessu tíma voru Indland, Tékkland, Kína og Kólumbía. Um ástæðu þess að þau völdu barn frá Tékklandi sögðu þau að það væri frekar nálægt okkur í sögu og menningu. Annars staðar, eins og í Kína er biðtíminn líka langur, getur verið allt að sjö ár, nema þú veljir barn með skilgreindar þarfir en það þýðir að barn getur verið með allt frá áreynsluastma til fötlunar af einhverju tagi. Þeim var alveg sama hvort þau fengju strák eða stelpu, bara svo lengi sem barnið væri heilbrigt.

Birkir Jan er af Roma-ættum og eru það einu börnin frá Tékklandi sem ættleidd eru úr landi. Tékknesk börn eru annars ættleidd innanlands. Það ríkja ákveðnir fordómar gagnvart Romafólki eða fólki af sígaunaættum í Tékklandi. Stjórnvöld kynda undir því og fólki er haldið í viðjum fátæktar og stéttarskiptingar og eiga oft ekki möguleika á betra lífi.

„Ef fólk ættleiðir Roma barn er stundum sagt að það sé frá Ítalíu. Þau eru send í sérstaka skóla og þarf það að brjótast sjálft út ef það vill eiga möguleika á betra lífi. Langafi Birkis gerði það og náði sér í menntun. Öll börnin hans gerðu slíkt hið sama, öll nema móðuramma Birkis. Birkir því er ekki hefðbundinn Tékki í þeim skilningi en hann er líkur okkur. Þetta er okkar „ídeal“ fjölskylda,“ segja þau og brosa en þau eiga labradorhundinn Castró sem er fimm ára.

Jólakort fjölskyldunnar árið 2013

Jólakort fjölskyldunnar árið 2013: Birkir Jan Smárason!

Tékkland og uppruni Birkis Jan

Smári og Elísabet segja aðbúnað barnanna í Tékklandi hafa verið frábæran. „Þar er viðhorfið: Börn eiga að vera hjá fjölskyldum, ekki á stofnunum.“ Á heimilinu sem Birkir bjó voru 42 börn sem þykir ekki mikið. Einn tékkneskur drengur sem var ættleiddur til íslenskra foreldra kom af barnaheimili þar sem voru 140 börn.“

Birkir kom á barnaheimilið þegar hann var þriggja daga gamall. Þar sáu Smári og Elísabet tveggja vikna barn sem var á leið til ættleiðingar innanlands þegar þau fóru að sækja Birki. „Flest börnin voru þó börn kvenna af Roma-ættum. Þar eignast þær oft mörg börn og mörg fara beint inn í kerfið svo að segja, beint til ættleiðingar.“ Birkir Jan var fyrsta árið á stofnuninni en kom til Elísabetar og Smára 14 mánaða gamall nú síðastliðið haust.

„Móðir Birkis afsalaði sér honum á meðgöngunni,“ segja þau. „Hún er tvítug að aldri og á fyrir þriggja ára stúlku sem er hjá ömmusystur þeirra. Nú er hún ófrísk aftur og það barn mun líklega fara inn á stofnun. Talið er að pabbi hans og þeirra vilji ekki börn en þau búa saman. Við sáum annað tilfelli þarna úti en þar voru fimm bræður, allir frá sömu móður og allir á ættleiðingarstofnun.“

„Þú hefur val – nýttu þér það“

Í júlí 2010 fengu þau hjónin símtal frá Íslenskri ættleiðingu. Þau höfðu upplýsingar um barn og segir Smári að hann hafi aldrei verið jafn fljótur að keyra frá Snæfellsnesi til Reykjavíkur! Þegar þau skoðuðu gögnin voru læknaskýrslurnar ekki nógu góðar. Þau ráðfærðu sig við Gest Pálsson, barnalækni sem hefur alfarið séð um að skoða þau börn sem ættleidd eru til landsins, en hann vildi fá ráðleggingu frá öðrum læknum varðandi skýrslurnar . „Hann var ekki mjög jákvæður en gögnin sýndu að um stúlku væri að ræða en höfuð hennar virtist ekki þroskast eðlilega. Við þurftum að taka allar tilfinningar út, svo að segja og meta þetta kalt. Við sáum mynd af henni en hún var um eins árs gömul og gat ekki setið sjálf. Okkur var ráðlagt að nýta okkur að við hefðum val og læknirinn ráðlagði að barnið kæmi ekki til landsins þannig við vorum sátt við ákvörðunina þó hún hafi vissulega verið tregablandin.“

Aðdáunarvert að sjá þau dúlla við litla gullmolann!

Aðdáunarvert að sjá þau dúlla við litla gullmolann!

Svo tók biðin við aftur. „Hún tók virkilega á,“ segja þau bæði. „Við fórum til sálfræðings, en þetta tók mest á Elísabetu. Við vildum líka vita hvort við værum að „tækla þetta rétt“ – við vildum gera hlutina betur. Sálfræðingurinn var býsna ánægð með okkur og sagði að við værum að gera þetta samkvæmt bókinni.“

„Fullt af fólki setur líf sitt á „bið“ meðan biðin stendur yfir,“ segja þau. „Við ætluðum ekki að gera það heldur stofnuðum biðlistahóp í samráði við Íslenska ættleiðingu en þar var fólk í sömu stöðu og við,  sem var að bíða eftir barni og fara í gegnum það sama og við. Við fengum til okkar fyrirlesara og gerðum ýmislegt saman. Nú erum við í hóp sem kallaður er Tékklandshópurinn en í honum eru börn sem komin eru til Íslands frá Tékklandi og þeir sem eru á staðfestum biðlista í Tékklandi. Við gerum ýmislegt saman, nú síðast hittumst við og skreyttum piparkökur í desember.“

Fyrsta jólaball fjölskyldunnar saman, jólin 2013

Fyrsta jólaball fjölskyldunnar saman, jólin 2013

Góðar fréttir

„Við vorum á leið í útilegu þegar símtalið kom,“ segja þau brosandi. „Við seinkuðum því snarlega og fórum upp á skrifstofu þar sem Kristinn framkvæmdastjóri tók á móti okkur. Hann vísaði okkur inn í herbergi og sagði einfaldlega: „Þið kíkið bara í möppuna á borðinu.“ Við opnuðum hana og sáum blað á ensku sem sagði að það væri búið að finna barn handa okkur en afgangurinn af skjölunum var á tékknesku! Við fengum úr því bætt og þegar við lásum skjölin sáum við að að þetta var heilbrigður drengur. Eftir að við höfðum lesið okkur í gegnum þau vorum við spurð hvort við myndum vilja þetta barn og að sjálfsögðu sögðum við já, þá fengum við loksins að sjá mynd af þessu fallega barni.“

Aðspurð um hvernig tilfinningin hafi verið segja þau að hún hafi verið líkust draumi: „Þetta var bara súrrealískt, við þurftum að beita væntingastjórnun því við höfðum lent í að þurfa neita barni. Við vorum samt bara svöl, svona eftir á að hyggja!“

Áður en þau fengu að vita hvenær þau færu út til Tékklands að sækja drenginn var biðin löng. „Um leið og við vissum í lok ágúst að við færum út 23. september flaug tíminn áfram. Við gerðum allt tilbúið hér heima og fórum út þann 22. september til Kaupmannahafnar.“

Frá Kaupmannahöfn flugu þau til Tékklands þar sem þau áttu fund með lögfræðingi og sálfræðingi í Brno sem er borg í Tékklandi. Þar er skrifstofa ættleiðingar í landinu. Þar vorum við spurð oft og mörgum sinnum: „Viljið þið fá barnið?“ Við vorum oft spurð í ferlinu, „viljið þið örugglega fá barnið“ en við svöruðum alltaf játandi, að sjálfsögðu.“

Að hitta soninn í fyrsta skipti 

Ákveðið var síðan að þau myndu fara á barnaheimilið þar sem Birkir Jan var: „Við mættum um morguninn og hittum forstöðukonuna, lækni og félagsráðgjafa í afar litlu herbergi. Túlkurinn okkar, hún Marta, var með okkur því ekki var sjálfgefið að enska væri töluð. Forstöðukonan reyndist þó tala fína elsku og við fórum yfir gögnin. Við fengum að vita að Birkir væri kallaður honziku sem þýðir bara: litla barn,“ segir Elísabet.

Birkir Jan hét þó áður Jan Bikar, en eftirnafn móðir hans er Bikarova, sem er kvenútgáfan af nafninu.

Allt í einu skipti túlkurinn litum þegar henni var tjáð eitthvað: „Hún sagði snögglega: „Eruð þið með myndavél?!“ og svo var hann bara allt í einu kominn!“ Þeim hafði verið tjáð að hann væri veikur, með sýkingu og bullandi hita og þau gætu kannski ekki fengið að sjá hann þannig þau voru algerlega sátt við það. Þær afsökuðu sig í bak og fyrir en svo var drengurinn allt í einu kominn inn í þetta litla herbergi þar sem þau fengu að setjast niður með hann. „Hann var dálítið feiminn í fyrstu og hann var mun stærri en við héldum. Það var búið að segja okkur að þessi börn væru svo lítil en hann var bara mjög hraustlegur.“

Þennan sama dag, sem var þriðjudagur, komu þau aftur eftir blundinn hans, böðuðu hann og settu hann í rúmið. Næstu daga mættu þau alltaf að morgni á barnaheimilið til að hitta Birki og svo kom hann endanlega til þeirra á föstudeginum upp á hótel þar sem þau voru í viku að kynnast og Birkir var að jafna sig á flensunni. Hann var þó ótrúlega hugrakkur og kvartaði aldrei. „Á mánudeginum kom svo fólkið til að meta okkur og gáfu okkur ítarlegri upplýsingar um fjölskylduna hans. Við skrifuðum undir og fengum að vita hvenær við mættum fara heim. Svo fengum við vegabréfið hans á öðrum fundi þegar sólarhringur var þar til við færum úr landi.“

Þau fóru til Kaupmannahafnar í sólarhring þar sem þau fóru í skoðunarferð og svo var haldið til Íslands. „Hann svaf bara í flugvélinni og virtist ekkert stressaður! Hann var í raun borinn inn heima sofandi og var hundurinn Castró mjög forvitinn að hitta nýja „bróður“ sinn: „Þeir eru nú að venjast, hann var voða mikið að passa sitt til að byrja með,“ segir Smári.

Tilfinningin að vera komin heim…með barn!

„Það var æðislegt að komast heim í sitt umhverfi og sína rútínu með sínu fólki. Við vorum búin að senda út á undan okkur myndaalbúm með myndum af okkur og fjölskyldunni með tékknesku orðunum við hlið myndanna, t.d. „amma,“ „pabbi,“ og svo framvegis.

Daginn eftir fóru þau með Birki Jan í læknisskoðun, „extreme“ læknisskoðun, eins og þau orða það.  „Það var tékkað á öllu, alnæmi, berklum og öllu en hann reyndist fullkomlega heilbrigður.“

Elísabet, Smári, Birkir Jan og Castró

Elísabet, Smári, Birkir Jan og Castró

Uppruninn og ættleiðingin

Þau segjast alls ekki ætla að halda uppruna Birkis leyndum fyrir honum heldur tala opinskátt um það þegar hann eldist: „Þetta er bara eðlilegt og við munum alveg leyfa honum að halda tengslum við sinn uppruna. Ætlum ekkert að hamra á því en það er ekkert leyndarmál.“

Smári og Elísabet segja að þau mæli með ættleiðingu fyrir fólk sem er jafnvel búin að reyna allt annað: „Þetta tekur vissulega á, en hafa ber í huga að óvelkomið barnleysi gerir það líka. Þetta er ekkert meira mál en hvað annað.“

Birkir Jan Smárason er að minnsta kosti afar velkomið barn og það eru líka þau börn í þeim fjölskyldum sem Elísabet og Smári hafa kynnst í þessu ættleiðingaferli: „Já, þau eru svo mikið velkomin! Foreldrar sem ættleiða verða kannski ekki öðruvísi foreldrar en aðrir en þeir eru viljugri en aðrir að leita sér hjálpar og fyrr en aðrir.“

Elísabet og Smári hreinlega geisla af gleði með Birki Jan í fanginu: „Nú erum við loksins orðin vísitölufjölskylda – með barn og hund!“

Bleikt óskar litlu fjölskyldunni allra heilla í framtíðinni :)

http://bleikt.pressan.is/lesa/loksins-erum-vid-ordin-visitolufjolskulda-med-barn-og-hund/


Svæði