Fréttir

DV - Ég vildi ekki breyta neinu

Mynd: Auðunn Níelsson
Mynd: Auðunn Níelsson

06:00 › 22. maí 2015
Indíana Ása Hreinsdóttir 
indiana@dv.is

Tónlistarmaðurinn Heimir Ingimarsson er loksins orðinn pabbi - Hjónin ættleiddu strák frá Kína          

Hamingja Hjónin höfðu reynt lengi að eignast barn og fengu loksins ósk sína uppfyllta fyrir rúmum tveimur vikum.

Mynd: Auðunn Níelsson

Tónlistarmanninn Heimi Ingimarsson og eiginkonu hans hafði lengi dreymt um að eignast barn. Sá draumur rættist fyrir tveimur vikum þegar hjónin ættleiddu tveggja ára dreng, Breka Ingimar Chang. Indíana Ása Hreinsdóttir ræddi við Heimi um barnleysið, ættleiðingarferlið, tónlistina, trúna á Guð og síðast en ekki síst soninn sem þau hjónin biðu svo lengi eftir.

„Ég held að þetta hafi alltaf átt að fara svona og að við höfum þurft að bíða svona lengi eftir honum því það hafi alltaf átt að vera hann sem átti að koma til okkar. Auðvitað hefðum við verið til í að þetta tæki styttri tíma en þetta var allt þess virði og ég vildi ekki breyta neinu. Eftir allt erfiðið erum við að uppskera núna,“ segir tónlistarmaðurinn og -kennarinn Heimir Ingimarsson, en hann og eiginkona hans, Anna Rósa Friðriksdóttir, ættleiddu lítinn dreng frá Kína á dögunum. Sá litli, Breki Ingimar Chang Heimisson, er tveggja ára en litla fjölskyldan sameinaðist fyrir rúmum tveimur vikum.

Hraustur mömmustrákur

Hjónin höfðu lengi reynt að eignast barn en án árangurs. „Þetta hafði tekið dágóðan tíma og margar meðferðir. Við þoldum einfaldlega ekki meira og ákváðum að hefja ættleiðingarferli og vorum strax mjög sátt við það. Það ferli hefur styrkt okkur sem hjón og við höfum kynnst mörgu yndislegu fólki. Allt í einu er maður kominn inn í góðan vinahóp,“ segir Heimir en þau Anna Rósa héldu til Kína í byrjun mánaðarins, rúmum tveimur árum eftir að þau sóttu um ættleiðingu. „Þann 11. mars fengum við mynd af honum og það var alveg ólýsanleg tilfinning. Við vorum svo sátt og hamingjusöm með hann og okkur var í rauninni alveg sama hvort eitthvað væri að en hann fæddist með hjartagalla. Gleðin varð svo enn meiri þegar barnalæknirinn sagði að hann myndi ná sér að fullu. Þetta hefur gengið svo rosalega vel að það er eiginlega lyginni líkast. Hann fékk frábæra læknisskoðun og er hress og góður og tengdist mömmu sinni strax gríðarlega vel. Þetta er mömmustrákur – þótt við eigum líka okkar góðu stundir saman.“

 
Loksins fjölskylda Breki er nýorðinn tveggja ára, ákveðinn ungur drengur.

Mynd: Auðunn Níelsson

Fannst úti á götu

Heimir segir ólýsanlega tilfinningu að fá barnið sitt í fangið eftir svo langa bið. „Ég veit ekki hvernig ég ætti að lýsa því. Maður upplifði margs konar tilfinningar, bæði gleði og svo að maður vorkenndi honum. Hann hefur upplifað ansi margt og þótt við værum í hamingjulosti vissum við ekkert hvað hann var að hugsa. Hann tók okkur samt ótrúlega vel,“ segir Heimir og útskýrir að Breki hafi verið mánaðar gamall þegar hann fannst úti á götu og að hann hafi dvalið á barnaheimili fyrstu mánuðina en síðar hjá fósturfjölskyldu. „Hann hefur greinilega fengið mikla örvun og góða umönnun á fósturheimilinu því hann hefur verið ótrúlega fljótur að aðlagast og er þroskaður miðað við aldur. Hann vill til dæmis alls ekki láta mata sig heldur borða sjálfur og ég er alveg viss um að hann verði kokkur eða bakari. Þetta er ákveðinn, ungur drengur sem veit nákvæmlega hvað hann vill.“

Tilfinningalegur rússíbani

Heimir segir ófrjósemina ekki mikið feimnismál hjá þeim hjónum þótt vissulega sé málefnið afar persónulegt. „Auðvitað var gríðarlegt áfall að komast að því að við gætum ekki eignast börn. Þetta hefur verið svakalegur rússíbani í mörg ár. Það hefur hins vegar hjálpað okkur að tala við fólk sem gengur í gegnum svipað ferli. Auðvitað hugsaði maður stundum af hverju þessi og hinn væri að eignast fullt af börnum og manni fannst við frekar eiga það skilið. En það þýðir ekkert að fara þá braut, það er ekkert í boði. Maður verður einfaldlega að einblína á markmiðið. Mér tókst að samgleðjast fjölskyldu og vinum þegar þau eignuðust börn þótt tilhugsunin hafi alltaf verið hvað það væri nú gaman ef þetta tækist hjá okkur. Og hvað það verður gaman þegar þetta gerist. Það var alltaf peppið, að muna að þetta tækist á endanum. Systur mínar og bræður eiga öll börn og mér hefur tekist að lifa mig í gegnum þau sem er ótrúlega magnað. Við erum bæði ótrúlega lánsöm með fólkið í kringum okkur og hvað við höfum fengið mikinn og góðan stuðning.“

„Þegar loks var búið að tengja okkur við barn var þungu fargi af okkur létt og þegar við fengum myndina og skýrsluna þá var einhvern veginn eins og við gætum loksins andað.“

Gátu loks andað

Hann segir ættleiðingarferlið einnig mikla rússíbanareið. „Það tók líka sinn toll en skilar þvílíkri hamingju til baka enda er það yfirleitt þannig með erfiðustu verkefnin. Einn áfangi tók við af öðrum og svo endalaust pappírsflóð. Forsamþykki var einn stærsti áfanginn og svo biðin eftir barninu. Þegar loks var búið að tengja okkur við barn var þungu fargi af okkur létt og þegar við fengum myndina og skýrsluna þá var einhvern veginn eins og við gætum loksins andað. Svo þegar drengurinn var kominn til okkar þá fannst okkur allt í einu eins og þetta hafi ekki verið neitt mál. Öll hugsun um erfiðleika hvarf og ekkert annað skipti máli. Þetta var allt svo gjörsamlega þess virði.“

Efaðist í trúnni

Heimir rekur eigin söngskóla og starfar líka sem söngkennari í Tónlistarskólanum á Akureyri auk þess sem hann stjórnar Gospelkór Akureyrar. Undanfarið hefur hann svo tekið æ meiri þátt í starfi Hjálpræðishersins á Akureyri. „Bróðir minn er kapteinn í Hjálpræðishernum og ég hef alltaf litið mikið upp til hans. Svo var pabbi minn í þessu starfi og systur mínar eru komnar inn í þetta að einhverju leyti. Eftir að ég fór að nota aðstöðu hersins fyrir söngskólann hef ég farið meira inn í starfið og fer á samkomur flesta sunnudaga. Ég er því trúaður og er ánægður með mína barnatrú en stefni ekki endilega að því að verða kapteinn en við sjáum til hvert þetta leiðir,“ segir Heimir sem viðurkennir þó að hafa efast í trúnni í gegnum erfiðleikana tengda barnleysinu. „Við fengum mikið af fyrirbænum og stuðning frá yndislegu fólki og þá fer maður ósjálfrátt að spyrja sig af hverju ekkert gerist; af hverju þetta gangi svona illa og af hverju þetta sé að koma fyrir okkur. Við trúum því núna að það hafi verið vegna þess að við vorum að bíða eftir honum; Breki hafi verið valinn fyrir okkur. Sú tilhugsun veitir mér vellíðan og bjartsýni. Ég var samt aldrei reiður út í guð og þó að ég hafi efast vissi ég alltaf og treysti því innst inni að Guð myndi sjá um okkur og við yrðum á endanum foreldrar. Stóra spurningin var hversu lengi við þurftum við að bíða.“

Hætti að drekka

Trúin var þó ekki alltaf ofarlega á forgangslista Heimis. „Ég fór í KFUM eins og bróðir minn en á unglingsárunum datt ég út úr þessu. Þá var það tónlistin og drykkjan,“ segir Heimir sem tók ákvörðun um að hætta að drekka árið 2006. „Djammið tók sinn toll. Maður var varla búinn að ná sér eftir helgina þegar maður byrjaði aftur. Ég stóð frammi fyrir þeirri ákvörðun að þurfa að velja hvaða leið ég ætlaði; halda áfram í drykkjunni eða gera eitthvað við líf mitt? Ég var ekki á góðri braut og þegar ég útskrifaðist úr tónlistarskólanum hér heima ákvað ég að breyta þessu. Ég var að stefna lífinu öllu í hættu. Það var í rauninni ekki svo erfitt að hætta því ég held að ég hafi ekki verið svo háður áfengi. Hjá mér var þetta meira félagslegt, en þegar ég drakk, drakk ég mig iðulega til óbóta. Svo þegar ég tók ákvörðunina fór ég út í skóla og leið svo vel, gat einbeitt mér að náminu og því að verða góður tónlistarmaður og söngvari. Þetta var besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu. Í dag vakna ég hress og kátur um helgar sem er æðislegt – best í heimi!“

Hætti í Luxor

Einhverjir muna eflaust eftir Heimi úr Luxor, fyrsta íslenska strákabandinu, sem sett var saman af Einari Bárðarsyni árið 2007. Einar setti upp áheyrnarprufur og valdi fimm stráka úr hópi 60 og þar á meðal Akureyringinn Heimi. „Þetta var flott konsept, frábærir strákar og skemmtilegt að taka þátt í þessu en hugur minn var annars staðar svo ég hætti. Mér datt aldrei í hug að ég yrði valinn en fór fyrir forvitni sakir í þessar prufur. Svo þegar ég var að keyra norður aftur og var kominn í gegnum göngin fékk ég símtal og varð að snúa við. Ég fann mig bara ekki í þessu. Þetta var endalaust ferðalag, bæði suður og svo út líka, því ég var í námi á sama tíma. Einn daginn ákvað ég að ég nennti þessu ekki lengur og hringdi í Einar og sagðist ætla að einbeita mér að því að vera söngkennari og opna minn skóla. Ég vonaði innilega að þeir myndu halda áfram og þeir ætluðu að gera það en einhverra hluta vegna flosnaði upp úr þessu. Mig hefur aldrei dreymt um að slá í gegn en vil gera tónlist á mínum forsendum og spila tónlist sem ég er að semja. Þetta var spurning um að flytja suður og gera þetta almennilega eða hætta. Ég var að gera góða hluti hér heima og langaði að vera hérna. Mér líður alltaf best á Akureyri,“ segir hann og segist ekki sjá eftir að hafa gefið Luxor upp á bátinn. „Það hefði kannski verið gaman að sjá hvert þetta myndi leiða en ég er mjög ánægður að hafa tekið þessa ákvörðun. Skólinn minn er orðinn fimm ára og ég er kominn á þann stað sem ég vil vera á.“

Missti föður sinn

Heimir lenti í erfiðri lífsreynslu þegar hann missti föður sinn fyrir örfáum árum. „Hann fékk slæma streptókokkasýkingu og varð mjög veikur, var í hálfgerðu dái í nokkurn tíma en kom svo til baka. Hann var á góðri leið í endurhæfingu þegar hann fékk hjartaáfall og lést. Hann þoldi ekki meira. Ég hugsa oft um það hvað það hefði verið gaman ef Breki hefði fengið að kynnast honum. Það er hálf leiðinlegt að það hafi ekki fengið að gerast en það þýðir ekkert að hugsa um það. Hann kynnist ömmu og hinum afanum og ömmunni, sem er frábært. Svo leyfum við honum að sjá myndir, myndbönd af pabba og hlusta á tónlist eftir pabba svo hann fái aðeins að kynnast því hvernig maður hann var.“

Mikilvæg tengslamyndun

Blaðamaður kann ekki við að halda Heimi lengur í burtu frá fjölskyldunni og aðspurður viðurkennir hann að hann iði í skinninu að komast heim. „Við höfðum hugsað okkur að eignast allavega tvö, þrjú börn en eins og staðan er í dag erum við góð í bili. Hann er svo yndislegur og eins og önnur börn þá tekur hann sín köst þegar hann er þreyttur og þá vill hann bara mömmu sína,“ segir hann brosandi og bætir við að þeim sé afar umhugað að tengslamyndunin takist vel. „Við höfum lokað heimilinu á meðan hann er að finna öryggið og komast í rútínu. Við höfum samt aðeins farið með hann og leyft vinum og fjölskyldu að hitta hann en það kemur enginn heim og það má enginn taka hann upp.
Annars er hann svo brattur að við förum smám saman að sleppa takinu. Við viljum bara ekki fara of hratt í sakirnar,“ segir Heimir og bætir við að hann sé enn að átta sig á því að sonurinn sé kominn til þeirra. „Morgnarnir eru yndislegar stundir. Eftir að hann vaknar liggur hann í svona hálftíma, horfir í kringum sig og kúrir hjá mömmu sinni. Ég gleymi því líka aldrei þegar hann kom heim í fyrsta skiptið. Það var eins og að hann vissi að hann væri kominn heim. Hann hljóp um allt, svo glaður og spenntur, og skoðaði dótið sitt. Það var eins og þungu fargi væri af honum létt. Við erum svo ánægð með hvað við erum heppin. Við duttum sko í lukkupottinn.“

DV - Ég vildi ekki breyta neinu

 


Svæði