Fréttir

DV - „Það sem Sindri er að tala um er ekki í vel­gjörðar­skyni heldur við­skipti“ Ummæli Sindra Sindrasonar vekja athygli – Hefði farið til Indlands og fengið hjálp frá staðgöngumóður

„Það er ekki auðvelt fyrir karlmenn í okkar stöðu að eignast börn,“ segir Sindri Sindrason sjónvarpsmaður, en eins og greint var frá í morgun eru hann og eiginmaður hans fyrsta og eina samkynhneigða parið sem hefur ættleitt barn hér á landi. Dóttir þeirra á íslenska og serbneska kynforeldra og kom til þeirra þegar hún var eins og hálfs árs.

„En sem betur fer ætla stjórnvöld að lögleiða staðgöngumæðrun. Ef þetta hefði ekki gengið hér hefðum við farið til Indlands eða annað til að finna okkur staðgöngumóður. Það er alveg ljóst,“ sagði Sindri í samtali við Fréttablaðið í morgun.

Formaður Samtakanna '78 segir að þessi ummæli komi sér verulega á óvart enda sé slíkt ólöglegt hér á landi.

Erfið staða

Eins og staðan er núna er staðgöngumæðrun ólögleg hér á landi auk þess sem ekkert af þeim löndum sem Íslendingum gefst kostur á að ættleiða börn frá heimila ættleiðingar samkynhneigðra.

Ættleiðingar innanlands eru að auki sjaldgæfar og því er hinsegin einstaklingum, og þá sérstaklega körlum innan þess hóps, þröngur stakkur skorinn. Það sést best á því að sjö ár eru síðan að ættleiðingar samkynhneigðra voru heimilaðar og Sindri og eiginmaður hans eru fyrstu og einu hjónin sem hafa ættleitt.

Undirbúningur frumvarps

Starfshópur um undirbúning frumvarps um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni var skipaður í fyrra (áður hafði vinnuhópur um svipað efni verið skipaður árið 2009).

Staðgöngumæðrun hefur reynst afar umdeild á Íslandi,sem og víðar, og margar siðferðisspurningar hafa vaknað í tengslum við frumvarpið sem stendur til að leggja fram.

Umdeild staðgöngumæðrun

Mörgum er eflaust í fersku minni mál íslenskra foreldra sem sátu fastir á Indlandi eftir að hafa eignast barn með aðstoð staðgöngumóður.

Staðgöngumæðrun mæðra í þriðja heiminum fyrir vestræna foreldra hefur verið gagnrýnd víða út frá því sjónarmiði að slík staðgöngumæðrunin sé í hagnaðarskyni og feli í sér að líkami konu sé notaður í annarlegum tilgangi.

Umsögn samtakanna ´78

Í umsögn Samtakanna ´78 um þingsályktunartillögu um staðgöngumæðrun segir að mikilvægt að tryggja að staðgöngumæðrunarúrræðið verði ekki misnotað.

„Mjög mikilvægt er að tryggja sem best að úrræðið verði ekki misnotað og fólk notfæri sér ekki neyð kvenna sem ganga með barn fyrir aðra. 
Gæta skal þess í hvívetna að staðgöngumæður njóti fullra réttinda og stuðnings í ferlinu og að staðganga sé eingöngu leyfð af velgjörð en ekki í hagnaðarskyni,“ segir í umsögninni og bent á að það samræmist ekki mannréttindabaráttu að fá réttindi á kostnað annarrar manneskju.

Undir þetta tekur Anna Pála Sverrisdóttir, núverandi formaður samtakanna og segir það mikilvægt að hafa í huga að sú leið sem Sindri talar um sé önnur en sú sem ætlað er að fara hér á landi.

„Það kom mér á óvart að sjá þessi ummæli. Mannréttindi einnar manneskju eru ekki sjálfsögð og það má aldrei setja aðra manneskju neðar manni sjálfum í eigin þágu,“ segir Anna Pála og vísar í umsögn samtakanna.

„Það sem hann talar um auðvitað lögbrot á Íslandi, það er að segja að nota sér staðgöngumæðrun á Indlandi og koma heim með barn. Mér finnst alvarlegt að tala svona frjálslega og á þeim nótum. Það má benda á siðferðislega vinkla á því að nýta sér fátækt kvenna á Indlandi til að eignast barn,“ segir hún.

„Mér finnst þetta ansi sláandi sjálfri, en Samtökin ´78 hafa ekki opinbera afstöðu til staðgöngumæðrunar innanlands, vegna þess að í félaginu eru skiptar skoðanir um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni,“ segir hún og bætir við: „Það sem Sindri er að tala um er ekki í velgjörðarskyni heldur viðskipti. Það þarf að gera greinarmun á því.“

Anna Pála segir að skoðanir innan samtakanna séu margbreytilegar þegar kemur að staðgöngumæðrun. 
„Það eru mjög skiptar skoðanir og sterkar í báðar áttir um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Samtökin hafa tekið þessa umræðu, fyrir mína tíð sem formaður, og niðurstaða hennar var að hafa ekki afstöðu til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni,“ segir hún.

Samtökin ´78 hafa innan sinna banda starfshóp sem vinnur að því að rýmka heimildir samkynhneigðra til að ættleiða og þá frá löndum sem heimila ættleiðingar samkynhneigðra. Afar fáar ættleiðingar eiga sér stað innanlands og sem áður sagði er ekkert samningsríki Íslands sem heimilar ættleiðingar samkynhneigðra.

http://www.dv.is/frettir/2013/6/27/thad-sem-sindri-er-ad-tala-um-er-ekki-i-velgjordarskyni-heldur-vidskipti/


Svæði