DV - Ég vildi ekki breyta neinu
06:00 › 22. maí 2015
Indíana Ása Hreinsdóttir
indiana@dv.is
Tónlistarmaðurinn Heimir Ingimarsson er loksins orðinn pabbi - Hjónin ættleiddu strák frá Kína
Hamingja Hjónin höfðu reynt lengi að eignast barn og fengu loksins ósk sína uppfyllta fyrir rúmum tveimur vikum.
Mynd: Auðunn Níelsson
Tónlistarmanninn Heimi Ingimarsson og eiginkonu hans hafði lengi dreymt um að eignast barn. Sá draumur rættist fyrir tveimur vikum þegar hjónin ættleiddu tveggja ára dreng, Breka Ingimar Chang. Indíana Ása Hreinsdóttir ræddi við Heimi um barnleysið, ættleiðingarferlið, tónlistina, trúna á Guð og síðast en ekki síst soninn sem þau hjónin biðu svo lengi eftir.
„Ég held að þetta hafi alltaf átt að fara svona og að við höfum þurft að bíða svona lengi eftir honum því það hafi alltaf átt að vera hann sem átti að koma til okkar. Auðvitað hefðum við verið til í að þetta tæki styttri tíma en þetta var allt þess virði og ég vildi ekki breyta neinu. Eftir allt erfiðið erum við að uppskera núna,“ segir tónlistarmaðurinn og -kennarinn Heimir Ingimarsson, en hann og eiginkona hans, Anna Rósa Friðriksdóttir, ættleiddu lítinn dreng frá Kína á dögunum. Sá litli, Breki Ingimar Chang Heimisson, er tveggja ára en litla fjölskyldan sameinaðist fyrir rúmum tveimur vikum.
Hraustur mömmustrákur
Hjónin höfðu lengi reynt að eignast barn en án árangurs. „Þetta hafði tekið dágóðan tíma og margar meðferðir. Við þoldum einfaldlega ekki meira og ákváðum að hefja ættleiðingarferli og vorum strax mjög sátt við það. Það ferli hefur styrkt okkur sem hjón og við höfum kynnst mörgu yndislegu fólki. Allt í einu er maður kominn inn í góðan vinahóp,“ segir Heimir en þau Anna Rósa héldu til Kína í byrjun mánaðarins, rúmum tveimur árum eftir að þau sóttu um ættleiðingu. „Þann 11. mars fengum við mynd af honum og það var alveg ólýsanleg tilfinning. Við vorum svo sátt og hamingjusöm með hann og okkur var í rauninni alveg sama hvort eitthvað væri að en hann fæddist með hjartagalla. Gleðin varð svo enn meiri þegar barnalæknirinn sagði að hann myndi ná sér að fullu. Þetta hefur gengið svo rosalega vel að það er eiginlega lyginni líkast. Hann fékk frábæra læknisskoðun og er hress og góður og tengdist mömmu sinni strax gríðarlega vel. Þetta er mömmustrákur – þótt við eigum líka okkar góðu stundir saman.“