Aðalfundur 19. mars 2025
Aðalfundargerð Íslenskrar ættleiðingar - 19. mars 2025 klukkan 20.00
Fundarstaður: Framvegis, miðstöð símenntunar, Borgartúni 20, 105 Reykjavík.
Mætt af hálfu stjórnar: Kristín Ósk Wiium Hjartardóttir, Helga Pálmadóttir, Sigríður Dhammika Haraldsdóttir, Selma Hafsteinsdóttir og Sólveig Diljá Haraldsdótttir
Mætt af hálfu starfsfólks skrifstofu: Ásta Sól Kristjánsdóttir, framkvæmdarstjóri og Thelma Rún Runólfsdóttir í gegnum fjarfundarbúnað.
Fundargerð aðalfundar ritaði: Selma Hafsteinsdóttir
Dagskrá aðalfundar:
-
Fundarsetning og kjörinn fundarstjóri og fundarritari.
-
Skýrsla stjórnar um hag félagsins og rekstur þess á liðnu starfsári.
-
Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár ásamt athugasemdum endurskoðanda félagsins lagður fram til samþykktar.
-
Breytingar á samþykktum félagsins
-
Ákvörðun árgjalds.
-
Kjör stjórnar
1. Fundarsetning og kjörinn fundarstjóri og fundarritari.
Formaður, Kristín Ósk Wiium Hjartardóttir, setti fundinn og gerði tillögu um Helgu Pálmadóttur sem fundarstjóra og Selmu Hafsteinsdóttur sem fundarritara.
Helga tók við fundarstjórn
Fundarstjóri: Samkvæmt 7. gr. samþykkta Íslenskrar ættleiðingar skal aðalfundur félagsins haldinn fyrir lok marsmánaðar ár hvert og skal til hans boðað bréflega eða með öðrum sannanlegum hætti með að minnst þriggja vikna fyrirvara.
Fundurinn var auglýstur á heimasíðu félagsins þann 24. febrúar og í tölvupósti til félagsmanna sama dag, eða með rúmlega 3ja vikna fyrirvara. Einnig var hann auglýstur á samfélagsmiðlum (Facebook og Instagram). Fundurinn telst því löglegur aðalfundur Íslenskrar ættleiðingar. Enginn gerði athugasemd og taldist fundurinn því löglegur.
2. Skýrsla stjórnar
Kristín formaður stjórnar flutti.
Stjórnin er skipuð 5 stjórnarmeðlimum og vanalega eru fundir mánaðarlega en við nokkrir aukafundir voru haldnir vegna Tógó heimsóknar og vegna umræðna um þjónustusamnings við DMR. Nýr samningur við dómsmálaráðuneytið, sama upphæð og í fyrra og samningurinn gildir í eitt ár. Annars voru fjölmargir aðrir fundir og kynningar ÍÆ á árinu. Þar má nefna heimsókn frá Tógó, netfundi með UMPOD og ICBF í Kólumbíu, ráðstefna Euradopt, fundir með ráðuneytum og fleira.
Skrifstofa og rekstur - Elísabet kvaddi og Ásta tók við sem framkvæmdastjóri ÍÆ í ágúst. Thelma Rún starfar á skrifstofunni í 50% starfi og Rut er verktaki hjá okkur eftir þörfum. Verkefni sem tekin voru frá ÍÆ yfir til sýslumanns eru eftirfylgniskýrslur og sálfræðiaðstoð fyrir uppkomna ættleidda (fyrsta heila árið sem þau verkefni eru ekki hjá félaginu). Áhuginn á ættleiðingum hefur ekki minnkað í gegnum árin og unnið er að vitundarvakningu til að vekja athygli á málaflokki ættleiðinga.
Íslensk ættleiðing hefur löggildingu við þrjú lönd, Kólumbía, Tékkland og Tógó.
Styrkir til félagsins voru minni en áður og of ein ættleiðing var árið 2024 frá Tógó. Í árslok 2024 voru 12 fjölskyldur á biðlista eftir barni en í heildina yfir 20 í einhvers konar ferli. Mikilvægt er að viðhalda samböndum við upprunalöndin og vinna í löggildingu til Kólumbíu, sinna upprunaleit og samtölum við uppkomna ættleiddra. Einng var unnið að verklag vegna farsældar ættleiddra barna og verður því haldið áfram.
- UMRÆÐUR orðið gefið laust
- Spurning barst um löggildingu í Kólumbíu og svarað framkvæmdastjóri því. Það hefur lengi staðið til að gera formlega löggildingu í Kólumbíu (áður fyrr vorum við með undanþágu) nú erum við að safna gögnum og þarf félagið að vera skráð sérstaklega með löggildingu í Kólumbíu. Þetta er allt í vinnslu og stefnum á að klára þetta fyrir sumarið.
- Spurning barst um að taka upp ættleiðingasamband við Indland aftur. Framkvæmdastjóri svaraði en félagið bíður enn svara frá dómsmálaráðuneytinu, en svar hefur ekki borist enn þrátt fyrir ítrekun. Vonast er til að niðurstaða berist sem allra fyrst.
3. Lagðir fram reikningar félagsins frá 1. janúar – 31. desember 2024.
Ásta Sól Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri kynnti reikningana.
Eigið fé félagsins er búið og staðan er þröng, ÍÆ er komin í minna húsnæði og starfshlutfall er núna 1 og ½. Ekki er hægt að skera meira niður.
Fundarstjóri bar reikningana upp til samþykktar. Ársreikningur 2024 samþykktur samhljóða.
4. Breytingar á samþykktum
Skv. 7.gr. Skulu tillögur til breytinga á samþykktum félagsins berast stjórn félagsins skriflega í síðasta lagi 31. janúar. Engar tillögur bárust frá félagsmönnum og hefur stjórnin ekki hug á að leggja fram lagabreytingar heldur. Hins vegar þurfti að leiðrétta samþykkt frá fyrra ári sem gerð var til samræmis við 15. gr reglugerðar 453/2009 um ættleiðingarfélög, breytt þann 1. október 2023 en þá var eftirfarandi setningu breytt: ,,Stjórn löggilts ættleiðingarfélags skal skipuð 7 mönnum hið minnsta” í ,,Stjórn löggilts ættleiðingarfélags skal skipuð 5 mönnum hið minnsta.” Í breytingu á samþykktum frá 2024 stendur. 6. grein stendur: ,, Stjórn félagsins skal skipuð 5 mönnum: Formanni, varaformanni og fimm meðstjórnendum.” En samkvæmt þessu mætti stjórnin vera skipuð 5 mönnum annars vegar og 7 mönnum hins vegar.
Stjórnin lagði því til að 6. gr. samþykkta ÍÆ um stjórn verði lagfærðar á eftirfarandi máta:
,,Stjórn félagsins skal skipuð 5 mönnum í hið minnsta: Formanni, varaformanni og þremur eða fleiri meðstjórnendum.”
Breytingarnar/lagfæring á samþykktum var borin upp til samþykktar. Engar athugasemdir bárust og því var þetta samþykkt.
5. Félagsgjöld næsta árs ákveðin.
Fundarstjóri ræddi næst félagsgjöld næsta árs. Stjórnin lagði fram tillögu að árgjaldið yrði hækkað úr 4.000 í 4.900 á ári. Þetta er gert í samræmi við tillögu dómsmálaráðuneytisins um að hækka árgjald og þjónustugjöld.
Fundarstjóri bar upp til samþykktar að hækka árgjaldið um 900 krónur á einstakling á ári eða upp í 4.900 krónur. Ef engar athugasemdir og skoðast hækkun á félagsgjaldi samþykkt.
6. Kjör stjórnar
Tillögur bárust um skipun stjórnar en áfram sitja frá fyrra ári Kristín Ósk Wiium Hjartardóttir og Helga Pálmadóttir. Skv. samþykktum félagsins verða framboð að hafa borist eigi síðar tveimur vikum fyrir aðalfund og bárust þau öll í tæka tíð. Fjögur framboð bárust en Sigríður Dhammika Haraldsdóttir og Selma Hafsteinsdóttir óska eftir að sitja áfram. Ný framboð: Jón Guðmundur Björgvinsson og Elísabet Hrund Salvarsdóttir. Um að ræða kjör til tveggja ára.
Framboðin voru öll samþykkt og þau öll kjörin til stjórnarsetu.
Þetta þýðir að Sólveig Diljá Haraldsdóttir lætur af störfum sem meðstjórnandi en hún hefur sinnt því hlutverki í 2 ár. Henni var þakkað fyrir skemmtilegt samstarf og óskað velfarnaðar.
STUTT HLÉ
Aðalfundarauki - fræðsluerindi:
1. Katha Aþena Guðný Þorsteinsdóttir kynnti BA verkefni sitt í félagsfræði sem hún lauk í fyrra og bar titilinn ,,Saga barnsins og tengsl þess við upprunaland sitt mega ekki týnast." Þar fjallaði hún um upplifun þeirra sem ættleiddir hafa verið frá Indlandi til Íslands en sjálf var hún ættleidd þaðan.
2. Selma Hafsteinsdóttir tónlistarkona, stjórnarkona í ÍÆ og foreldri ættleidds barns frá Tékklandi kynnti ættleiðingar hlaðvarpið ,,Allt um ættleiðingar" sem fór í loftið í febrúar 2023.
Engin önnur mál voru tekin fyrir. Ný stjórn boðin velkomin til starfa.
Kristín Ósk formaður sleit fundinum kl. 21.00