Fréttir

Stjórnarfundur 10.11.2015

 Fundur stjórnar Íslenskrar ættleiðingar, þriðjudaginn 10. nóvember 2015, kl. 20:00.

Fundinn sátu: Hörður Svavarsson, Elín Henriksen, Ágúst H. Guðmundsson, Elísabet Hrund Salvarsdóttir, Sigrún María Kristinsdóttir og Vigdís Ó. Häsler Sveinsdóttir.

Kristinn Ingvarsson framkvæmdastjóri sat einnig fundinn.

Fundargerð ritaði: Vigdís Ó. Häsler Sveinsdóttir.

Dagskrá:

1. Fundargerð.
Fundargerð stjórnar frá stjórnarfundi dags. 13. okt. sl., samþykkt.

2. Húsnæðismál.
Hörður fer yfir verkefnastöðu á húsnæðismálum félagsins.

Fylgiskjal: Minnisblað um stöðu verkefnisins lagt fram.

3. Meðferð ættleiðingamála.  
Fulltrúar Íslenskrar ættleiðingar, Hörður Svavarsson, Vigdís Häsler og Kristinn Ingvarsson, ásamt fulltrúum Innanríkisráðuneytisins, Lilju B.Viðarsdóttur og Hermanns Sæmundssonar, hittu fulltrúa Barnaspítala og velferðarráðuneytisins hinn 15. okt. sl. Til fundarins boðaði Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri kvenna og barnasviðs LSH. Fundurinn var haldinn í framhaldi af fundi sem fulltrúar ÍÆ áttu hinn 18. ágúst sl., með fulltrúum IRR, VEL og LSH. Efni fundarins sneri að því hvort að spítalinn hefði áhuga á að annast þá þjónustu sem Gestur Pálsson barnalæknir hefur annast fram að þessu. Framkvæmdastjóri kvenna og barnasviðs LSH upplýsti að hann hefði rætt við lækna spítalans og að fram hafi komið áhugaleysi og vangeta til þess að annast þennan málaflokk. Þá benti hann á að spítalanum bæri engin lagaleg skylda til þess að annast þennan málaflokk þar sem hér væri ekki um íslenska ríkisborgara að ræða og ekki kveðið á um verkefni sem þetta í lögum. Af hálfu spítalans var stungið upp á bráðabirgðalausn sem fælist í því að kannað yrði hvort að Gestur myndi vilja taka verkefnið að sér fyrir spítalann næstu 1-2 árin. ÍÆ myndi þá greiða spítalanum fyrir þjónustu Gests og Gestur fengið svigrúm til þess að annast um verkefnið á dagvinnutíma. Ekki liggur fyrir hvort að vilji sé til þessa hjá Gesti Pálssyni.

Niðurstaða fundar: Stjórn mun taka saman minnisblað um málið og senda ráðherra innanríkismála og heilbrigðismála til upplýsingar og óska eftir samtali.

Fylgiskjal: Lagt fram minnisblað formanns frá fundi.

4. Jólaball.
Framkvæmdastjóri greinir frá stöðu verkefnisins og leggur fram kostnaðaráætlun.

Niðurstaða fundar: Jólaballið verður haldið í Hörpunni þetta árið. Í fyrra komu 114 gestir, þar af 51 barn. Jólaballið verður haldið 6. desember nk. frá kl. 14-16.

5. Eftirlit IRR vegna þjónustusamnings
Lagður er fram tölvupóstur frá ráðuneytinu í kjölfar á sex mánaða uppgjöri.

Niðurstaða fundar: Ánægja með uppgjör af hálfu ráðuneytisins.

6. Löggilding á Indlandi
Framkvæmdastjóri fjallar um reglur á Indlandi og möguleika á að endurnýja löggildinguna. Sjá nýjar reglur: http://www.isadopt.is/static/files/2015/2015.07.17_adoption-guidelines2015.pdf og http://www.isadopt.is/is/lond/indland
Ráðuneytið hefur ekki farið yfir reglurnar. Framkvæmdastjóri leggur til að löggilding verði endurnýjuð en þó með þeim fyrirvara að ekki verði tekið á móti nýjum umsóknum þar sem atriði í nýju reglunum að krefjast frekari skoðunar og félagið þurfi að tryggja að þar sé farið að reglum barnasáttmálans og Haag-sáttmálans.

Niðurstaða fundar: Ákveðið að endurnýja löggildingu til Indlands en þó verður ekki tekið á móti nýjum umsóknum fyrr en innanríkisráðuneytið hefur upplýst félagið um inntak nýju reglnanna.

7. Þjónustusamningur við VITA.
Framkvæmdastjóri leggur fram og gerir grein fyrir samningnum.

Niðurstaða fundar: Þjónustusamningurinn mun reynast mikil bragarbót fyrir starfsmenn skrifstofu og stjórnarmenn, auk foreldra sem eru á leið út að sækja börnin sín.  

Fylgiskjal: Lagt fram samningur Vitaferða við Íslenska ættleiðingu.

Ekki fleira gert. Fundi slitið kl. 21.10.


Svæði