Reynslusaga - Þrír bræður og foreldrar þeirra. Eftir Unni Björk Arnfjörð
Þann 21. febrúar 2015 fengum við hjónin, ég og hann Páll Sæmundsson, langþráð símtal. Búið að para okkur við þrjá bræður sem bjuggu í bænum Most í Tékklandi. Aðdragandinn var þó aðeins lengri…
Reykjavík – Ísafjörður – Tékkland
Á sama tíma fékk fjölskyldufaðirinn vinnu úti á landi svo áður en símtalið dásamlega kom vorum við búin að selja íbúðina okkar í Reykjavík og kaupa okkur hús á Ísafirði. Hins vegar var aðeins annað okkar flutt vestur og húsið áttum við ekki að fá afhent fyrr en 1. apríl ef ég man rétt. Það beið okkar því mikil vinna að pakka öllu okkar dóti niður á sama tíma og við vorum að undirbúa komu bræðranna inn í líf okkar. Sem betur fer hafi ég aðeins byrjað að sanka að mér dóti og þurftum við því ekki að kaupa allt á þessum tveimur mánuðum sem við höfðum til undirbúningsins. Með góðri aðstoð fjölskyldu og vina náðum við þó að gera eins klárt og hægt var þegar við settumst upp í flugvél á leið til Þýskalands þann 18. apríl. Upphaflega hafði staðið til að við færum út 10 dögum fyrr en örlögin gripu enn í taumana hjá okkur því upphafleg áætlun um sameiningu fjölskyldunnar gekk ekki eftir. Ný lög í Tékklandi ollu því að einn af drengjunum var ekki löglega laus til ættleiðingar strax. Biðin eftir því valt á 5-6 mánuðum og án þess að blikka auga spurðum við hvort við gætum samt ekki farið út og beðið með drengjunum þar til allir pappírar væru tilbúnir. Það leyfi fékkst, þó með þeim fyrirvara að á meðan dvölinni úti stæði, værðum við með drengina í skammtímafóstri. Það voru því spenntir foreldrar sem flugu á vit ævintýranna vitandi í raun ekki hvað beið þeirra.
Loksins loksins
Langþráður sameiningardagur fjölskyldunnar var þann 21. apríl. Já já, allt í einu vorum við orðin foreldrar tveggja, þriggja og fimm ára drengja sem allir vildu sinn skerf af athygli og þurftu að prófa nýju foreldrana sína, oft á dag sem og nýfengið frelsi sitt. Við dvöldum í íbúð fyrir ofan barnaheimilið og fyrstu dagana hittum við þá í nokkra tíma og sögðum síðan bless við þá á kvöldin. Á sjötta degi voru þeir alkomnir til okkar og gistu fyrstu nóttina í íbúðinni fyrir ofan deildina sína. Þó svo að við öll værum búin að bíða eftir þessari stund, þá var hún þeim ansi erfið og áttu þeir erfitt með að sofna. Þeir yngri sofnuðu um klukkan 22 en sá elsti sofnaði ekki fyrr en klukkan þrjú um nóttina, örmagna. Eftir á að hyggja hefðum við átt að ná í fóstru til að tala við þá en okkur fannst við vera pínu að falla á foreldraprófinu að geta ekki ráðið almennilega við okkar eigin börn! Næsta kvöld gekk aðeins betur enda sá elsti ekki búinn að sofa nema þrjár klukkustundir nóttina áður og sofnaði í fanginu á mér. Það var nú samt síðasta nóttin á barnaheimilinu sem við reyndum að svæfa þá sjálf því hinir tveir áttu erfitt með að sofna og vildu frekar hoppa og skoppa um herbergið en að hlýða þessum mállausu foreldrum sínum. Þessir fyrstu dagar voru því ansi mikil áskorun fyrir nýbaka foreldra og bræðurna en með aðstoð starfsfólksins á barnaheimilinu þá gekk hver dagur betur og betur. Þau sáu fljótlega að við þurftum auka aðstoð. Við fengum því manneskju með okkur í verslunarferðir, í göngutúra, leikjagarða og hvaðeina sem við þurftum. Það var líka gott að hafa tékkneskumælandi fólk hjá okkur á meðan við vorum að læra á þá og þeir á okkur.
Most
Við vorum 16 daga á barnaheimilinu svo við kynntumst því mjög vel og starfsfólkinu líka. Eflaust var það of langur tími en á móti sáum við hvernig líf þeirra hafði verið áður en við komum til sögunnar og eigum í dag, auðveldara með að ræða um barnaheimilið við þá þegar þær umræður koma upp.
Prag
Í Prag fengum við leigða íbúð á almennum leigumarkaði. Stundum er gott að vera Íslendingur og þekkja mann sem þekkir mann. Leigusalinn okkar var sérlega almennilegur og leigðum við fyrst í þrjá mánuði en gátum síðan endurnýjað samninginn mánuð í einu, því við vissum ekki hversu lengi við yrðum. Íbúðin var á fimmtu hæð í lyftulausri blokk sem okkur fannst góð hugmynd því drengirnir höfðu mikla orku og stigarnir áttu að vera góðir til þess að beisla hana. Íbúðin var á frábærum stað í Prag. Aðeins tvö metrostop í miðbæinn, en samt það langt frá miðbænum að við voru ekki í hringiðu ferðamannanna. Marta túlkurinn okkar bjó líka í fimm mínútuna göngufæri við okkur svo það var enn betra.
Marta var okkur sérlega hjálpleg og fór verksvið hennar oft langt fram úr því sem túlkar gera. Daginn eftir komuma til Prag keyrði hún mig til að mynda í IKEA þar sem ég gat verslað það sem þurfti fyrir fjölskylduna, en íbúðin sem við fengum var frekar hrá á íslenskan mælikvarða og ýmislegt sem vantaði. Við komum okkur þó ágætlega fyrir þarna - lifðum mínimalískum stíl og reyndum að sanka ekki miklu dóti að okkur. Íbúðin var stór svo það var nóg pláss fyrir okkur öll og gesti okkar. Við sváfum öll í sama herberginu og því var gestaherbergið alltaf laust.
Atlaga að rútínu
Við reyndum að koma lífinu í Prag í nokkuð fastar skorður, eftir því sem hægt var. Með okkur til Prag komu tveir fjölskyldumeðlimir sem aðstoðu okkur við að koma okkur fyrir, elda, þrífa og aðstoða við daglegt líf. Þær fóru síðan aftur til Íslands og vorum við þá ein í Prag, fimm saman.
Fyrstu vikurnar var dagleg rútína þannig að drengirnir vöknuðu um klukkan sex á morgnana, öðrum íbúum fjölbýlishússins til mikillar gleði. Þeir eru og voru jú miklir gleðigjafar og háværir eins og piltar á þessum aldri eru. Við reyndum því að láta fara lítið fyrir okkur og í marga marga daga hófst dagurinn á því að við púsluðum og púsluðum og púsluðum til þess að hafa ofan af fyrir þeim. Síðan var morgunverður og farið út á leikvöll. Þar leið strákunum einna best, þeir gátu hlaupið um og leikið sér allan daginn. Suma daga hreinlega lágum við á hliðinu og biðum eftir að væri opnað. Við urðum því fljótt vinir starfsfólksins í Drekagarðinum - eins og við kölluðum garðinn okkar.
Við fundum strax að rútína var það sem skipti mestu máli í okkar lífi. Hins vegar gat verið erfitt að koma á rútínu þegar allir dagar voru sunnudagar. Smátt og smátt kom hún og m.a. sem við gerðum var að fara alltaf heim úr garðinum kl. 17. Þá var kvöldmatur, bað og farið í rúmið klukkan 18:30. Sumir gætu nú hugsað, já fyrst þeir fóru svona snemma að sofa þess vegna voru þeir að vakna svona snemma, en reyndin var nú sú að við höfðum reynt að láta þá fara að sofa á mismunandi tímum en alltaf skyldu þeir vakna klukkan sex!
Eftir því sem leið á sumarið breyttist þetta og þeir urðu rólegri. Undir lokin vorum við ekki farin að fara á fætur fyrr en um hálf átta eftir notalega stund í rúminu þar sem við spjölluðum saman eða lásum bók.
Ómetanleg aðstoð
Við fengum gesti til okkar (aðstoðarfólk) í fjögur skipti. Liðu u.þ.b. tvær vikur á milli heimsókna og fengum við síðustu heimsóknina í byrjun júlí. Það var afar dýrmætt fyrir okkur að fá þessa aðstoð að heiman, hvort heldur til þess að fá eldaðan mat, tiltekt eða einhvern í þvottinn. Drengirnir lærðu líka mikið af þessum heimsóknum, bæði nýja tungumálið sitt sem og að það er til fólk sem er okkur náið. Hins vegar er munurinn á þessu fólki og okkur foreldrunum að það kemur og fer en við, mamman og pabbinn erum alltaf til staðar. Þetta var því afar góð blanda af gestum og síðan “einangrun” fjölskyldunnar.
Til að byrja með vorum við bara í næsta nágrenni við heimili okkar - bæði á meðan þeir voru að venjast því að vera með okkur og að læra á nýtt umhverfi. Þeir voru að flytjast í stórborg úr litlum tékkneskum bæ svo það voru hellings viðbrigði. Í litla bænum þeirra þekktu þeir fólkið í kringum barnaheimilið og gátu spjallað við það en þegar til Prag var komið hafði fólk takmarkaðan áhuga á að tala við þá, bara eins og er í stórborgum.
Með gestunum okkar fórum við í lengri ferðir með trammi, metróinu og strætisvögnum. Það var góð æfing fyrir þá áður en við fórum að fara ein með þá. Til að byrja með fórum við varlega í sakirnar og tók jafnvel annað okkar einn með sér í prufutúra áður en farið var í eiginlegar ferðir. Ferðir okkar takmörkuðust þó að mestu við að fara á nýja rólóvelli út um Prag, á söfn, í dýragarðinn og á aðra staði sem hentuðu börnum. Skoðunarferðir um Prag verða farnar síðar.
Aðlögun að nýjum aðstæðum
Praktísk atriði voru ekkert einföld hjá okkur. Það eitt að ná í mat fyrir fjölskylduna var yfirleitt gert á kvöldin eftir að strákanir voru sofnaðir. Þá fór annað okkar og verslaði í matinn því það er jú ekkert grín að taka með sér þrjú börn í matvörubúð og það var aldrei svo að við gætum verið eitt með þá alla þrjá. Ekki á þessu tímabili. Það var því hálfgerð bylting þegar við gátum farið að taka einn og einn með í matarleiðangra og versla á daginn.
Eftir því sem líða tók á sumarið fór hitinn líka að verða meiri og meiri og lentum við í tveimur hitabylgjum. Sú fyrri var í júlí og hin seinni í ágúst. Að lenda í hitabylgju með þrjú lítil börn án allrar loftkælingar dag eftir dag eftir dag er eitthvað sem ég myndi ekki óska neinum. Þetta var svakalegur tími en við lærðum þó að Tékkar kæla verslunarmiðstöðvar sínar og metróið er frábært. Við þeystumst um alla borg í metróinu og fórum í ótrúlega margar verslunarmiðstöðvar í útjarði Prag til þess að kæla okkur niður. Við lærðum líka að sund var mjög gott en þurftum þó að taka sundferðir í skrefum, fyrst með einn og einn því þeir voru ekki vanir sundlaugum og hálf hræddir til að byrja með. Ég uppgötvaði í þessum sundferðum okkar hvað vatnið gerði þeim gott og jafnframt hvað sundferðir eru góð leið til tengslamyndunar við börnin sín. Nándin verður svo mikil og þau leggja allt sitt traust á okkur foreldrana.
Óvissan um tímann
Eins og ég gat í upphafi, þá fórum við til Tékklands ekki viss um hversu lengi við yrðum. Þegar við komu út var okkur sagt að þetta yrðu líklega aldrei meira en fjórir mánuðir en þegar á reyndi þá gengu hlutirnir ekki alveg jafn hratt fyrir sig og við óskuðum. Við lifðum alltaf í voninni að koma heim í ágúst og því var það pínu erfitt að sjá ágústdagana líða og vita ekkert. Það voru því mikil gleðitíðindi þegar upplýsingar bárust frá Brno þann 8. september að nú væri allt að verða klárt. Fór elsti sonur okkar með pabba sínum til Brno til að skrifa undir alla pappírana og gistu þeir á svítu í Brno, svo mikil var gleðin. Þann 13. september lentum við síðan í Keflavík, mjög svo tilbúin að koma heim.
Mögnuð lífsreynsla
Dvölin í Prag var, þegar við lítum til baka, mögnuð lífsreynsla. Hún tók á og oft fannst manni tíminn ekki líða (ef hægt er að segja það þegar þrjú börn eru komin í líf manns). Dagarnir voru frekar líkir og reyndum við alltaf að halda í rútínuna okkar. Á þeim tíma sem við vorum í Tékklandi komu þrjár aðrar fjölskyldur á eftir okkur en fóru heim eftir hinar hefðbundnu 4-5 vikur. Það var frábært að hafa þær í landinu og ekki var verra að ein þeirra bjó í Prag á sama tíma og við. Það var því söknuður þegar þau fóru til Íslands í byrjun ágúst og við enn í Prag.
Fagleg þjónusta
Við vorum í afar góðu sambandi við UMPOD (miðstjórnarvaldið sem fer með ættleiðingarmál í Tékklandi). Bæði lögræðinginn okkar sem og sálfræðinginn. Sálfræðingurinn kom til okkar einu sinni í viku og ræddi við elsta drenginn þar til tungumálaörðugleikarnir voru orðnir þannig að þau voru eiginlega hætt að skilja hvort annað. Það var okkur afar dýrmætt því við gátum líka rætt við hana um lífið og tilveruna, hvað var að ganga vel og það sem gekk ekki alveg jafnvel. Ég tel að þessar heimsóknir hennar hafi gert mjög mikið fyrir okkur fjölskylduna. Það var jú líka ruglingslegt fyrir drengina að vita ekki almennilega hvenær við myndu fara heim til Íslands.
Ómetanlegur stuðningur
Heima á Íslandi áttum við ófá símtölin við Lárus sálfræðinginn okkar hjá Íslenskri ættleiðingu. Hann gaf okkur dýrmæt ráð en leyfði okkur líka bara að blása. Þá stöndum við ætíð í þakkarskuld við baklandið okkar - sem í daglegu tali er kallaður Tékklandshópurinn. Í gegnum súrt og sætt fengum við góð ráð annarra foreldra sem yfirleitt höfðu alltaf glímt við svipaðar áskoranir og við. Áskoranir sem aðeins foreldrar ættleiddra barna skilja.
… þannig týnist tíminn
Í dag erum við búin að vera á Íslandi í 13 mánuði - erum raunar löngu hætt að telja. Lífið gengur sinn vanagang. Mamman og pabbinn fara í vinnuna og strákarnir okkar í leik- og grunnskóla. Það er í raun ótrúlegt að hugsa til þess hversu stutt við erum búin að vera fjölskylda því tilfinningin er sú að við höfum alltaf verið saman.