Fréttir

DV - „Við erum varla að trúa því að þetta sé loksins að taka enda“. Dómara bannað að taka að sér ættleiðingamál eftir vandamál íslenskrar fjölskyldu

Fjölskyldan, Friðrik Kristinnson, Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir, Helga Karólína og Birna Salóme, undirbýr það nú að koma hingað til lands, en þau hafa verið föst í Kólumbíu í tæpt ár. Þau bíða nú eftir íslenskri vegabréfsáritun og þá geta þau loksins komið öll heim saman. Friðrik og Bjarnhildur ættleiddu þær Helgu Karólínu og Birnu Salóme á þessu ári frá Kólumbíu. Eftir að ættleiðingin hafði verið samþykkt þurfti formlega heimild dómara til að það gengi eftir. Það mál strandaði fyrir dómstólum í Kólumbíu og telja þau Friðrik og Bjarnhildur að þau hafi verið beitt miklu óréttlæti af dómara í máli sínu. Dómarinn dró það í hálft ár að úrskurða í máli þeirra og kvað síðan upp sinn dóm; foreldrunum væri óheimilt að flytja stúlkurnar hingað til lands.

Málinu var áfrýjað og fékkst þá loksins heimild. Það var löng og ströng bið en nú sér loksins fyrir endann á málinu. Þá fengu þau þær fréttir að upprunalega dómaranum hefði verið bannað að taka að sér ættleiðingarmál og að formleg kvörtun hafi verið lögð fram af áfrýjunardómstólnum og ICBF ættleiðingarstofnuninni.

„Það hefur gengið mjög vel hjá okkur fjölskyldunni seinustu daga. Nú erum við komin með alla þá pappíra sem við þurfum hér í Kólumbíu sem staðfesta ættleiðinguna. Við fengum vegabréfin fyrir stelpurnar í gær og var alveg dásamleg tilfinning að vera loksins með þau í höndunum. Núna vantar okkur bara vegabréfsáritun fyrir stelpurnar, hún er send frá Íslandi í sænska sendiráðið hér í Bogota. Þegar við erum komin með hana límda inn í vegabréfin getum við lagt af stað heim til Ísland,“ segir fjölskyldan á Facebook síðu sinni. „Við erum varla að trúa því að þetta sé loksins að taka enda. Við erum svo rosalega glöð, lífið er svo dásamlegt!! Takk fyrir allar fallegu kveðjurnar og stuðninginn elsku þið öll sem hafið stutt okkur í þessu erfiða ferli. Við erum ykkur mjög þakklát og hefðum við ekki getað gert þetta án ykkar allra!!“

Líkt og áður hefur komið fram höfðu hjónin reynt að eignast barn í nokkur ár en án árangurs. Þau sóttu því um ættleiðingu og eftir hefðbundið ferli hér á landi var þeim sagt að biðtíminn væri um það bil tvö ár. Tvö ár urðu að fimm og fóru þau út í desember síðastliðnum að sækja dæturnar og hafa verið þar síðan. 

Hægt er að fylgjast með hjónunum hér.

http://www.dv.is/frettir/2012/11/30/vid-erum-varla-ad-trua-thvi-ad-thetta-se-loksins-ad-taka-enda/


Svæði