Fréttir

Aðalfundur 18.11.1979

Aðalfundur haldinn á Hótel Esju 18/11 '79
Gylfi Guðjónsson form. setti fundinn.
Fundarstjóri var Vésteinn Ólason.

1) Skýrsla formanns:
Allar umsóknir hafa nú verið endursendar frá Norsk Korea forening. Frú Finch sagði m.a. í bréfi sem fylgdi umsóknunum að þau í Noregi væru nú að hefja starfsemi í Thailandi og Indlandi, en reiknaði ekki með að fleiri börn kæmu þanan en auðveldlega mætti útvega fjölskyldum í Noregi, en ef þetta breyttist myndu þau gjarnan vilja eiga við okkur samstarf. Í janúar bars félaginu bréf frá Hollis Ansel-Henry lögfr. og félagsráðgjafa í Kaupmannahöfn, þar sem hann taldi sig vera í aðstöðu til að útvega okkur sambönd í nokkrum löndum s.s. Indlandi, Mauritius og Filipseyjum og reiknaði með að þetta gæti gengið nokkuð fljótt fyrir sig. Voru þegar hafin bréfaskipti við Hollis og taldi hann ófært fyrir okkur að nota nafnið Ísland-Kórea fyrir okkar félag og því var haldinn fundur 7. apríl og stofnað nýtt félag sem hlaut nafnið Íslensk ættleiðing. Ákv. var að bæði félögin störfuðu undir sömu stjórn og sömu lögum fram að næsta aðalfundi, og skyldi þá tekin ákvörðun um framtíðarskipulag félaganna.
Ef einhver leið opnast í þessum málum vill Hollis gjarnan koma hingað til lands og ræða frekar við okkur og skipuleggja ferðirnar og annað. Myndi þetta óhjákvæmilega hafa einhvern kostnað í för með sér.
Í maí s.l. voru sendar fjórar umsóknir til Indlands til reynslu og var reiknað með að fyrstu börnin kæmu hingað til lands í sept. - okt., en nýjustu fréttir frá Hollis eru að einhverjar tafir hafi orðið og er hugsanlegt að úr rætist um áramótin.
Eitthvað af börnum mun vera komin hingað frá Líbanon og Guademala en þetta eru allt persónuleg sambönd og getur félagið ekki orðið tengiliður við þessa staði nema þá óbeint.
Á síðasta aðalfundi voru kosnar tvær nefndir fræðslunefnd , sem ekkert starfaði á árinu og skemmtinefnd, sem stóð fyrir m.a. jólatrésskemmtun, sem tókst mjög vel. 
Nokkur fjölgun hefur orðið í félaginu á árinu og eru félagsmenn nú 108.
Að lokum þakkaði form. gjaldkera og ritara og varastjórn samstarfið á síðustu 2 árum en þau gáfu ekki kost á sér til endurkjörs.

Gjaldkeri gerði grein fyrir reikningum félagsins f. síðasta ár og voru þeir samþykktir.

2) Framtíð félaganna:
Vésteinn Ólason kom með þá tillögu að bæði félögin störfuðu áfram hvort með sínu nafni, þ.e. Ísland-Kórea og Íslensk ættleiðing, og undir sömu stjórn og sömu lögum. Var tillaga þessi samþykkt samhljóða.

3) Stjórnarkjör: (nefndakjör)
Gylfi Guðjónsson gaf kost á sér sem form. í eitt ár til viðbótar og var það samþykkt einróma, aðrir í stjórn voru kosnir:
Guðrún Söderhólm ritari og Sigtryggur Benediktsson gjaldkeri og í varastjórn: Gylfi Guðmundsson og Lovísa Þórðardóttir.

Skemmtinefnd:
Þorsteinn Þorsteinsson
Marta Kristjánsdóttir
Bera Þórisdóttir

Fræðslunefnd:
Vésteinn Ólason
Elías Kristjánsson
Tae Chol Kim

Endurskoðendur:
Sigurður G. Sigurðsson
Sigurður Benediktsson

Samþ. var að félagsgjöld yrðu áfram kr. 5000.- pr. félaga.

4) Önnur mál:
Nokkrar umræður spunnust um Kóreu t.d. hvort ekki væru fleiri félög þar í landi en Holt sem sæju um þessi mál. Einnig um að reyna að snúa sér til annara landa ef ekkert gengur hjá Hollis en fallist á að bíða átekta og sjá hvort ekki rætist úr þessum málum upp úr næstu áramótum.
Síðan var fundi slitið eftir nokkrar umræður.

Brynja Guðjónsdóttir.


Svæði