Fréttir

Aðalfundur ÍÆ 13.08.2008

Aðalfundur Íslenskrar ættleiðingar haldinn þann 13. Mars 2008 kl. 20:00 á Hótel Loftleiðum
 
Fundurinn hófst á erindi Lene Kamm, sálfræðings frá Danmörku. Hún er sjálf ættleidd og fjallaði erindi hennar um ættleiðingu frá sjónarhóli barnsins.
 
1. Venjuleg aðalfundarstörf
 
Ingibjörg Jónsdóttir formaður ÍÆ hóf fundinn með því að tilnefna Hrafnhildi Arnkelsdóttur sem fundarstjóra og Kristjönu E. Jóhannsdóttur sem fundarritara.
 
Skýrsla formanns
Árið 2007 var meðalár hvað fjölda ættleiðinga varðar. 21 barn kom heim á árinu, 19 frá Kína, 1 frá Kólumbíu og 1 frá Tékklandi. Í fyrsta sinn frá árinu 1990 kom ekkert barn heim frá Indlandi og er helsta skýringin á því sú hve erfiðlega gekk að fá starfsleyfi ÍÆ endurnýjað. Fulltrúar ÍÆ sóttu ráðstefnu á Indlandi í október sl. og áttu þá fund með yfirmönnum CARA um endurnýjunina. Þessi fundur hafði áhrif, því að núna um áramótin kom loksins hið langþráða skjal.
 
Umsóknum til Kólumbíu hefur fjölgað verulega og eitt brýnasta verkefni ÍÆ á næstunni er að fara þangað og kynnast starfseminni sem þar er auk þess að kynna félagið okkar.
 
Þróun síðustu ára er sú að ættleiðanlegum börnum hefur fækkað, en þar er átt við þau börn sem eru á barnaheimilum sem hafa leyfi stjórnvalda í landinu til að ættleiða börn úr landi. Á sama tíma hefur umsóknum fjölgað mjög mikið. Í öllum þeim löndum sem ættleiða börn úr landi hefur tíminn sem ættleiðingarferlið tekur lengst og einnig hefur sú jákvæða þróun átt sér stað í upprunalöndunum að innanlandsættleiðingum hefur fjölgað.
 
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og Haag samningurinn um vernd barna og ungmenna eru sáttmálar sem Íslendingar eru aðilar að og við vinnum eftir. Samkvæmt þeim ber ríkjum að viðurkenna að ættleiðing milli landa geti aðeins komið til álita að ekki sé unnt að koma barni í fóstur eða til ættleiðingar í upprunalandinu. Ættleiðing úr landi er næst lakasti kosturinn fyrir barnið og aðeins vist á munaðarleysingjaheimili er talin verri. Þessir alþjóðasáttmálar, sem eru samdir í þeim tilgangi að vernda munaðarlaus börn, geta á stundum verið skýringin á því hversu erfitt og flókið það er að koma einu ættleiðingarmáli í gegn. Samt sem áður er mikilvægt að vinna eftir þeim sáttmálum sem undirritaðir eru þar sem þeir vernda börnin okkar í þessu ferli.
 
Umsóknum á biðlista ÍÆ fækkaði árið 2007 frá árinu áður. Nú eru um 130 umsóknir í gangi, 90 í Kína, 12 í Kólumbíu, 3 í Tékklandi og 12 eru á Indlandsbiðlistanum auk þess sem nokkrir eru óákveðnir.
 
Ef litið er til einstakra landa þá hafa nýjar reglur sem tóku gildi í Kína árið 2007 breytt miklu. Nú er nær útilokað að senda út umsóknir fyrir einhleypa þar sem þær eru látnar mæta afgangi og vegna mikillar ásóknar frá hjónum sem uppfylla öll skilyrði til ættleiðingar frá Kína er ekki mikill möguleiki fyrir þennar hóp að ættleiða þaðan. Nýjar reglur um 50 ára hámarksaldur umsækjenda, tveggja ára hjónaband, strangari skilyrði um þyngd og almennt heilsufar hefur einnig gert möguleika margra á ættleiðingu að engu.
 
Í Kólumbíu hefur þróunin líkt og annars staðar verið sú að umsóknum hefur fjölgað en börnum fækkað. Olga, tengiliður og lögfræðingur ÍÆ, segir allt með eðlilegum hætti og engan bilbug er að finna á henni.
 
Nýjasta ættleiðingalandið okkar er Tékkland og fyrsta barnið þaðan kom heim vorið 2007. Fleiri umsækjendur sýna áhuga á því að senda umsókn þangað og eru nú fjórar í vinnslu.
 
Möguleikar á nýjum ættleiðingalöndum hafa verið skoðaðir og hefur verið horft til Afríku, bæði Eþíópíu og S-Afríku í því sambandi, en einnig til nokkurra fleiri landa. Hafa skilyrði í löndunum og möguleikar “venjulegra íslenskra umsækjenda” verið skoðuð sérstaklega, en á Íslandi er algengt að fólk sé ógift og víða er krafist nokkurra ára giftingartíma, eða að umsækjendur eru eldri en ýmis lönd telja æskilegt og þarf að taka mið af þessu við óskir um samstarf. Formlegt samstarf við ný lönd verður kynnt á heimasíðu ÍÆ þegar að því kemur.
 
Í mars fór fulltrúi ÍÆ á Euradopt fund í Luxemburg þar sem umræðuefnið var erfiðleikarnir sem ættleiðingaheimurinn á í þessa dagana. Ættleiðingum hefur fækkað og ekki útlit fyrir að það breytist á næstu árum. Það er mikilvægt fyrir lítið félag eins og ÍÆ að sjá að alls staðar er verið að fást við sömu málin og mikilvægt að viðhalda faglegum vinnubrögðum og gera miklar kröfur til þeirra aðila sem verið er að vinna með í upprunalandi barnanna.
 
Fulltrúar ÍÆ sóttu stóra NAC ráðstefnu í Helsinki í september og á henni voru ýmis málefni ættleiddra rædd, bæði hvað varðar rannsóknir og reynslu þeirra. ÍÆ mun halda þessa ráðstefnu árið 2009 og koma helstu fræðimenn og fulltrúar ættleiðingasamtaka Norðurlandanna og fulltrúar frá upprunalöndunum til með að sækja hana. Einnig verður skipulagður opinn dagur í tengslum við þessa ráðstefnu.
 
Formaður og framkvæmdastjóri ÍÆ sóttu alþjóðlega ráðstefnu um ættleiðingamál í Dehli í október. Aðal viðfangsefni hennar var að kynna nýjar reglur sem CARA vill setja, en CARA er miðstýrt yfirvald ættleiðingarmála á Indlandi og allar ættleiðingar fara í gegnum þá skrifstofu. Þarna er um að ræða hertar reglur sem Indland mun setja í framtíðinni og svipar þeim mjög til þeirra sem Kína setti 1. maí 2007 . Íslenska sendiráðið í Dehli var einnig heimsótt þar sem málefni varðandi vegabréfsáritanir og ferðaleyfi barnanna voru meðal annars rædd. Ferðin endaði í Kolkata þar sem böndin voru styrkt með því að heimsækja barnaheimilið og eiga góðan fund með Anju. Átti þessi heimsókn vonandi þátt í því að nú á vordögum eru væntanlegar upplýsingar um börn frá Indlandi.
 
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hélt námstefnu um ættleiðingar í mars 2007, en hún var fyrst og fremst ætluðu starfsfólki félagsþjónustu sveitarfélaganna sem kemur að gerð greinargerðar umsækjenda um ættleiðingu. Fulltrúar ÍÆ voru gestir á námstefnunni og sagði Karl Steinar Valsson, varaformaður ÍÆ frá hlutverki félagsins.
 
Um mitt síðasta ár var afkoma félagsins orðin mjög alvarleg.  Formaður og framkvæmdastjóri sátu fund með formanni fjárlaganefndar í lok nóvember þar sem fjárhagsstaðan var rædd og í framhaldi af þeim fundi samþykkti fjárlaganefnd Alþingis þriggja milljóna króna aukafjárveitingu inn í rekstur félagsins.
 
Félagslífið var blómlegt á síðasta ári og öllum þeim nefndum og öðrum sem unnið hafa fyrir félagið var þakkað fyrir mikilvægt vinnuframlag.
 
Árið 2007 kom út bæklingur á vegum ÍÆ sem var þýddur úr sænsku og fjallar um ættleidda barnið og skólann.
 
PAS-nefndin skipulagði fyrirlestur með Nadya Molina og var hann vel sóttur. Fjallaði hann um tengslamyndun ættleiddra barna og þá erfiðleika sem geta átt sér stað ef það ferli tekst ekki. Bauð hún félagsmönnum viðtöl heima hjá þeim og nýttu þó nokkrir þá þjónustu.
 
Undirbúningur afmælisársins hófst á haustmánuðum 2007 með því að setja afmælisnefnd á laggirnar. Hennar fyrsta verk var að skipuleggja afmælisveislu sem haldin var 17. febrúar sl. Þátttaka fór fram úr björtustu vonum og áttu allir ljúfa stund saman með það eina að markmiði að hittast, fá sér afmælisköku og hafa gaman. Tímamótanna verður minnst allt afmælisárið. Í vor ætlar PAS-nefndin að sjá um málþing og í nóvember verður ættleiðingarvika að hætti frænda okkar á Norðurlöndum, sem halda slíka viku í 47. viku ár hvert. Vikan er þá tileinkuð þessu málefni á einhvern hátt með röð fyrirlestra, fjölmiðlaumfjöllun o.fl. sem afmælisnefndin skipuleggur.
 
Fyrirspurn kom varðandi það hvort aftur verði sótt til fjárlaganefndar um aukafjárveitingu. Þess gerist ekki þörf þar sem þetta er föst aukafjárveiting upp á 3 milljónir.
 
Spurt var um starfsleyfi barnaheimilisins í Kolkata sem rennur út í mars. CARA á eftir að samþykkja endurnýjunina, en hún er gerð á þriggja ára fresti. Þetta ferli á ekki að hafa mikil áhrif varðandi væntanlegar upplýsingar um börn hingað.
 
Ársreikningur félagsins
Pálmi Finnbogason kynnti reikninga félagsins, sem hafa verið undirritaðir af endurskoðanda Price Waterhouse Coopers og stjórn ÍÆ. Tekjur félagsins hækka á milli ára vegna aukafjárframlags frá hinu opinbera. Laun hækkuðu einnig milli ára þar sem Guðlaug félagsráðgjafi var starfandi í 5 mánuði á síðasta ári. Handbært fé eykst. Eignir eru 8 milljónir og auknir fjármunir eru í árslok frá fyrra ári.
 
Ein fyrirspurn kom frá félagsmanni um hve stór hluti af rekstrartekjum kæmi frá Ríkinu. Það eru 9 milljónir á ári.
 
Kjör stjórnar
Tveir stjórnarmenn hætta störfum, þeir Karl Steinar Valsson og Pálmi Finnbogason. Ingibjörg Birgisdóttir og Kristjana Erlen Jóhannsdóttir gefa kost á sér áfram. Finnur Oddsson og Ragna Freyja Gísladóttir bjóða sig fram og voru kosin með handauppréttingu.
 
Ákvörðun félagsgjalds
Lagt var til að hækka félagsgjaldið úr 4.500 krónum í 5000 krónur frá árinu 2008. Það var samþykkt samhljóða.
 
Skýrslur nefnda
 
Skemmtinefnd
Kristín Skjaldardóttir, fulltrúi skemmtinefndar á Suðvestur-horninu las skýrslu nefndarinnar og einnig skýrslu Norðurlandsdeildarinnar. Á síðasta starfsári voru mánaðarlegar fjölskyldustundir þar sem viðfangsefni voru fjölbreytt svo ná mætti til sem flestra, en tilgangurinn fyrst og fremst sá að fjölskyldur hittist og börnin leiki sér saman. Fyrsta laugardag í mánuði hefur félagið Hreyfiland til afnota í klukkustund. Árlegt grill var í Heiðmörk. Útilegan var haldin að Húsabakka í Svarfaðardal og var skipulögð af skemmtinefndinni á Norðurlandi. Útilegan var eins og alltaf ættarmóti líkust þar sem allir njóta sín og var gaman að sjá afa og ömmur í hópnum. Jólaballið var fjölmennt að vanda. Margir eru að hætta í skemmtinefnd og vantar áhugasamt fólk til starfa. 
 
Á Norðurlandinu voru haldnar fjölskyldustundir bæði innan húss og utan, grillveisla í Kjarnaskógi, íþróttadagur í Þelamörk sem verður fastur liður hér eftir, kaffihúsaferðir, bíóferðir og fjöruferð. Útilegan var aðalverkefni Norðurlandsdeildarinnar á síðasta ári, en hana sóttu um 300 manns. Helga Hjálmarsdóttir og Jórunn Elídóttir hafa tekið við keflinu frá þeim Birnu og Ingu Möggu og ætla að stjórna starfi skemmtinefndar á Norðurlandi næsta árið.
 
PAS nefnd
Gerður Guðmundsdóttir las skýrslu PAS-nefndar, en hún skipuleggur fræðslu fyrir félagsmenn. Fulltrúi nefndarinnar sótti norrænan PAS-fund í Helsinki og þar sást að við erum að gera góða hluti. Erum auðvitað í peningaströgli eins og allir aðrir.  Sérfræðingalisti sem nefndin hefur tekið saman er til hjá félaginu. Nefndin stóð fyrir fyrirlestri Nadia Molina og var hann bæði vel sóttur og fróðlegur. Fyrirlestur um myndrænt skipulag var haldinn í febrúar. Þetta var góður fyrirlestur Unnar Valdimarsdóttur leikskólasérkennara. Nefndin er að skipuleggja málþing sem haldið verður 17. maí og fyrirlestur verður haldinn á haustdögum. PAS-starfið er í móun og verður skilgreint betur á næsta starfsári. Félagsmenn eru hvattir til að senda PAS-nefndinni tillögur og hugmyndir.
 
Fjáröflunarnefnd
Klara Geirsdóttir og Elín Kristbjörnsdóttir sögðu frá starfi fjáröflunarnefndar en hlutverk hennar er að safna fé til að vinna að velferðarmálum barna erlendis. Í mars 2007 var sendur 3000 US dollara styrkur til Tomorrow Plan verkefnisins í Kína. Í gær, 12. mars 2008, var sendur 5000 US dollara styrkur til CCAA vegna kuldanna sem voru í Kína fyrr á árinu. Fjáröflunarnefnd vildi gjarnan sjá fleiri félagsmenn taka þátt þegar beðið er um aðstoð, t.d. við sölu í Kolaportinu, vörutalningar og innpökkun jólagjafa fyrir fyrirtæki. Fjáröflunarnefndarkonur hvetja fólk á biðlista til að koma og starfa með henni.
 
Ritnefnd
Kristín Valdimarsdóttir stóð upp og sagði ritnefnd vera að vinna í afmælisblaðinu kemur út fljótlega.
 
2. Önnur mál
Fyrsta samkynhneigða par félagsins kvaddi sér hljóðs og lýsti áhuga sínum á því að starfa fyrir félagið þó ekki sé enn land sem hægt er að senda umsóknir þeirra til.
 
Fleira var ekki rætt og fundi slitið.
Kristjana Erlen Jóhannsdóttir
fundarritari

Svæði