Fréttir

Aðalfundur Íslenskrar ættleiðingar 2019

Aðalfundur Íslenskrar ættleiðingar var haldinn miðvikudaginn 13. mars í húsnæði Framvegis, miðstöð símenntunar.

Elísabet Hrund Salvarsdóttir formaður félagsins bauð fundargesti velkomna og tilnefndi Eygló Jónsdóttur sem fundarstjóra sem var samþykkt með lófataki. Hún stýrði svo fundinum með röggsemi og festu.

Elísabet Hrund fór yfir skýrslu stjórnar en þar bar margt áhugavert á góma:

Skýrsla stjórnar
Meginstarfsemi félagsins

Samkvæmt samþykktum Íslenskrar ættleiðingar er tilgangur félagsins:

  • að vinna að alþjóðlegum ættleiðingum með því markmiði að hagsmunir barnsins séu ávallt hafðir í fyrirrúmi í anda Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og Haagsamningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa frá 29. maí 1993
  • að vinna að velferð og réttindamálum kjörfjölskyldna
  • að aðstoða fólk sem vill ættleiða börn erlendis frá
  • að standa fyrir fræðslu fyrir félagsmenn í formi fræðslufunda, námskeiða og fyrirlestra 
  • að vinna að jöfnum rétti allra, burtséð frá uppruna 
  • að auka þekkingu og skilning samfélagsins og stjórnvalda á ættleiðingu og kostum hennar fyrir barn og kjörfjölskyldu 
  • að stuðla að velferð barna í samræmi við Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og Haagsamninginn um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa frá 29. maí 1993.

Íslensk ættleiðing hefur löggildingu dómsmálaráðuneytisins til að annast milligöngu um ættleiðingar til Íslands frá 5 löndum; Búlgaríu, Kína, Kólumbíu, Tékklandi og Tógó.

Um ættleiðingar gilda lög nr. 130/1999 með síðari breytingum og reglugerðir um ættleiðingar nr. 238/2005 með síðari breytingum og um ættleiðingarfélög, nr. 453/2009 með síðari breytingum.

Íslensk ættleiðing er rekin án hagnaðarsjónarmiða og til að sinna hlutverki sínu sem sett er fram í lögum og reglugerðum hefur félagið gert þjónustusamning við dómsmálaráðuneytið um skilgreinda þjónustu til að tryggja að veita umsækjendum liðsinni sem nauðsynlegt er til að af lögmætri ættleiðingu geti orðið.
Rekstrarlegar grunnforsendur félagsins eru tryggðar með framlagi ríkisins í þjónustusamningnum og er rekstargrundvöllur félagsins ekki háður fjölda umsækjenda eða fjölda ættleiðinga. Þetta fyrirkomulag er nú nefnt Íslenska ættleiðingarmódelið og hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinanna.

Fræðsla, ráðgjög og stuðningur er meginstoð í ættleiðingarferlinu og er lágmarksþjónusta tryggð með framlagi ríkisins til þjónustusamningsin.

Á árinu 2018 var þjónustusamningur í gildi við ráðuneytið og rann hann skeið sitt á enda við áramót.

Starfsemin á árinu
Íslensk ættleiðing fagnaði því á árinu að 40 ár eru liðin frá stofnun félagsins. Dómsmálaráðherra ásamt fríðu föruneyti fögnuðu afmælisdeginum 15.janúar með stjórn félagsins og fyrrum formönnum þess. Fyrri formenn félagsins voru sérstaklega heiðraðir við þetta hátíðlega tækifæri.

Tímamót urðu í starfi félagsins árið 2018 þegar ný fræðsluáætlun tók gildi. Með henni jókst fræðsla til umsækjenda og færðist hún mun framar í ættleiðingarferilinn. Þá var tekið upp nýtt verklag þegar umsækjendur leggja fram umsókn um forsamþykki og er nú gerður samningur á milli umsækjenda og félagsins um þá þjónustu sem veitt er í ferlinu.

Með breyttri fræðsluáæltun hefur fjöldi stunda sem umsækjendur fá í forsamþykkisferlinu aukist úr 28 í 39. Með því að færa fræðsluna framar í ferlið er markmiðið að þekking umsækjenda á ættleiðingarmálaflokknum komist til skila inní umsögn barnaverndar. Það ætti að stuðla að því að fjölskyldur frá Íslandi skeri sig úr þegar kemur að þekkingu, þegar þær eru bornar saman við aðra umsækjendur í upprunalöndum barnanna sem félagið starfar með. Þetta skiptir sérstaklega máli í þeim löndum sem para umsækjendur við munaðarlaus börn.
Fræðsla til barnaverndarnefnda jókst á síðastlinu ári og fengu allar barnaverndarnefndir fræðslu um málaflokkinn.
Félagið finnur fyrir auknum áhuga á fræðslu, og hefur fjöldi beiðna frá fagaðilum, háskólasamfélaginu og hagsmunaaðilum aukist á árinu. Sérstaklega hefur orðið aukning innan skólasamfélagsins, jafnt leikskóla og grunnskóla.
Félagið hefur um árabil heimsótt lögfræðinema við Háskólann í Reykjavík og á árinu bættust félagsráðgjafanemar við Háskóla Íslands við.

Opnir fyrirlestrar félagsins voru 5 á árinu. Björn Hjálmarsson barna- og unglinga geðlæknir á BUGL fjallaði um snallsímanotkun og skjátíma barna og unglinga. Anne-Lise Rygvold prófessor emeritus við Háskólann í Osló fjallaði um langtíma rannsókn sína á mun þróunar talmáls og lestrar hjá þeim sem eru ættleiddir. Ingbjörg Magnúsdóttir grunnskólakennari og MA í sérkennslu flutti erindi um skólaaðlögun ættleiddra barna og sérstöðu þeirra á fyrstu árum skólagöngunnar. Lucia Skorusova og Ondrej Bousa, fulltrúar tékkneska miðstjórnvaldsins fluttu erindið Best interest determination, um pörun munaðarlausra barna við umsækjendur í Tékklandi og að síðustu flutti Vilborg G. Guðnadóttir erindi um tengslavanda og tengslaeflandi nálgun foreldra.

Eins og áður hefur Framvegis, miðstöð símenntunar veitt félaginu fría aðstöðu fyrir fyrirlestrana og því er hægt að bjóða félagsmönnum á landsbyggðinni að fylgjast með í gegnum fjarfundarbúnað þeirra.
Í tilefni af afmæli félagsins var boðið til málþings þann 16. mars. Forseti lýðveldisins setti málþingið sem var hlaðið kræsingum fyrir fræðsluþyrsta félagsmenn og fagfólk. Sarah Naish félagsráðgjafi frá Bretlandi flutti erindi um theraputing parenting and adoption, Jórunn Elídóttir dósent við Háskólann á Akureyri fjallaði um ímyndunaraflið og af hverju það skiptir ættleidd börn svo miklu máli, meistaraneminn Hildur Ósk Gunnlaugsdóttir sagði frá rannsókn sini um líðan fullorðinna ættleiddra, en hún stundaði nám í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Í kjölfar málþingsins var Sarah Naish með námskeið sem nefndist Therapeutic Parenting in Real Life. 

Styrktaraðilar
Án stuðnings styrktaraðila væri rekstur félagsins þyngri í vöfum. Síðastliðin ár hefur Íslensk ættleiðing fengið höfðinglegan styrk frá Símanum og lækkar því kostnaður félagsins vegna síma og internetsþjónustu um kr. 60.000 á mánuði eða kr. 720.000 á ári. Þá hefur Sensa veitt félaginu styrk sem nemur allri þjónustu Sensa. Sensa veitir félaginu yfirgripsmikla tækniþjónustu og vistar öll gögn félagsins í ISO vottuðu skýi sínu til að tryggja öryggi gagna félagsins. Kostnaðarmat á styrk Sensa er um kr. 100.000 á mánuði eða kr. 1.200.000 á ársgrundvelli.
Íslensk ættleiðing er eitt af þeim félögum sem hefur tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og hefur verið hægt að heita á þátttakendur sem hlaupa til styrktar þess. Styrktarfé þessa árs rann til barna- og unglingastarfs félagsins, en án hans væri ekki hægt að bjóða uppá jafn viðamikið starf og raun er. Árið 2018 hlupu 22 hlauparar í nafni félagsins og söfnuðu kr. 712.486.
Stjórn félagsins þakkar öllum þeim sem styrkja félagið til góðra verka.

Samstarf ættleiðingafélaga
Árið 1993 kom Íslensk ættleiðing að stofnun EurAdopt, regnhlífarsamtaka ættleiðingarfélag í Evrópu. Tveimur árum síðar gekk félagið í samtök norrænna ættleiðingarfélaga, Nordic Adoption Council, NAC, þegar þau voru stofnun. Íslensk ættleiðing er með fulltrúa sem sitja ístjórnum þessara samtaka og taka þátt í ýmsum verkefnum. Haldnar eru ráðstefnur annað hvert ár hjá báðum samtökunum þar sem farið er yfir ýmis mál innan málaflokksins, EurAdopt hélt sína í Mílanó í maí 2018. Næsta ráðstefna NAC verður haldin á Íslandi 19. –21.september á þessu ári. Það er mikilvægt fyrir félagið að komast í samstarf við önnur félög til að efla allt starf. Þar er hægt að afla frekari þekkingar og kynnast kollegum sem vinna í sama málaflokki.

Samstarfsríki Íslenskrar ættleiðingar

Búlgaría
Enn hefur engin umsókn verið send til Búlgaríu.
Kína
Eitt barn var ættleitt frá Kína árið 2018.
Fjórar umsóknir voru virkar í á biðlista CCCWA í árslok.
Listi barna með skilgreindar þarfir var vaktaður reglulega á síðasta ári.
Kólumbía
Engin umsókn var virk í lok árs.
Fyrirhugað var að heimsækja Kólumbíu á árinu, en miklar breytingar urðu á starfsmannaliði ICBF á árinu og var því heimsókn frestað fram til 2019.
Tékkland
Fjögur börn voru ættleidd frá Tékklandi til Íslands á árinu.
Þrjú börn voru pöruð við verðandi foreldra og hófst undirbúningur fjölskyldnanna fyrir ferðalagið til Tékklands.
Tíu umsóknir voru virkar á biðlista UMPOD í lok árs.
Sendinefnd frá miðstjórnvaldi Tékklands heimsótti Ísland á árinu. Yfirsálfræðingur og tengiliður félagsins kynntu sér starf félagsins, heimsóttu dómsmálaráðuneytið og sýslumannsembættið. Þá hittu þau fjölskyldurnar sem hafa ættleitt frá Tékklandi og voru með upplýsingafund fyrir umsækjendur.
Rut Sigurðardóttur félagsráðgjafa félagsins var boðið að taka þátt í ráðstefnu í Brno um rödd barna í barnaverndarmálum, en þar flutti hún erindi um þátttöku íslenskra barna í málum sem varða þau. Erindinu var vel tekið og þótti eftirtektarvert hvernig sýn á barnaverndarmál er ólík í þessum tveimur ríkjum.
Tógó
Eitt barn var parað við verðandi foreldri á árinu og hófst undirbúningur fjölskyldunnar fyrir ferðalagið, en gert er ráð fyrir að hún heimsæki Tógó um mitt ár 2019.
Ein umsókn var virk á biðlista CNEAT í lok árs. 

Lönd í skoðun
Kristinn Ingvarsson framkvæmdastjóri félagsins heimsótti Dóminíska lýðveldið með það að markmiði að kynna sér ættleiðingamálflokkinn og kynna starf félagsins fyrir yfirvöldum. Heimsóknin heppnaðist vel og var samþykkt að hefja undirbúning undir umsókn um löggildingu félagsins til að annast milligöngu um ættleiðingar þaðan. 

Tölfræði:
16 samningar voru gerðir við nýja umsækjendur um forsamþykki.
40 fyrstu viðtöl hjá ráðgjöfum félagsins.
57 eftirfylgniskýrslur skrifaðar af félagsráðgjöfum félagsins.
5 ættleiðingar á árinu. 1 frá Kína og 4 frá Tékklandi.
11 upplýsingar um börn skoðaðar af sérfræðingum félagsins.
15 umsóknir voru virkar hjá upprunalöndunum sem félagið er í samstarfi við.
16 umsóknir voru í vinnslu hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu.
4 forsamþykki voru virk sem ekki hafa orðið að umsókn í lok árs.
11 stjórnarfundir voru haldnir á árinu.
83 fréttir voru skrifaðar á heimasíðu félagsins.

Þegar Elísabet Hrund hafði lokið yfirferð yfir skýrslu stjórnar vatt hún sér í að kynna ársreikning félagsins og helstu kennitölur í honum. 

Fjögur framboð bárust um fjögur laus sæti í stjórn félagsins og var því sjálfkjörið í þau.

Stjórn félagsins er því skipuð þannig:
Ari Þór Guðmannsson
Elísabet Hrund Salvarsdóttir
Ingibjörg Valgeirsdóttir
Lísa Björg Lárusdóttir 
Magali Mouy 
Sigrún Eva Grétarsdóttir 
Sigurður Halldór Jesson 

Lára Guðmundsdóttir gaf ekki kost á sér að nýju og þakkar félagið henni óeigingjarnt starf í þágu Íslenskrar ættleiðingar.

Fundurinn ákvað að ágjald félagsins skyldi vera óbreytt á þessu ári kr. 2.900.- 

Engar breytingar á samþykktum bárust félaginu og engin önnur mál voru borin upp.

Stjórn mun funda hið fyrsta og skipta með sér verkum, eins og um getur í samþykktum félagsins.

 

Svæði