Fréttir

Ættleiðing frá sjónarhóli barnsins

Nokkrir punktar úr fyrirlestir Lene Kamm (danskur sálfræðingur) á aðalfundi ÍÆ 13. mars 2008. Ekki er hér að ræða heilstæðan texta heldur stiklað á stóru er varðar þá þætti sem hún ræddi um.

Lene byrjaði á að spyrja þeirra spurninga af hverju ættleiðingin og allt sem henni fylgir, fyrir og eftir, væri svo mismunandi eftir einstaklingum, þ.e. áhrif þessa alls á einstaklinga eru mjög mismunandi. Við því eru svo sem engin svör nema það að einstaklingar eru ólíkir, hafa mismunandi eiginleika og eru mismunandi að upplagi. Ástæður  sem rekja megi til „early trauma“ (áföll í æsku) geta valdið sumum einstaklingum erfiðleikum en aðrir geta farið í gegnum þetta auðveldlega.
 
Í Danmörk er veitt aðstoð til foreldra í 3 ár eftir ættleiðingu barns. Aðstoðin er  á vegnum ríkisins og kostar ekkert.
 
Hvað gerist hjá barninu eftir að það er skilið eftir? Við vitum það ekki. En allt sem við upplifum er geymt hið innra með okkur. Áður var talað um að svo væri ekki, að við bara gleymdum, en í dag vitum við betur. Öll okkar reynsla er til hið innra með okkur.
 
Á bak við hvert barn er yfirefið barn með sína fortíð – á bak við flest börn er síðan einnig barnaheimili og jafnvel fósturfjölskylda.
 
Það er erfið reynsla fyrir barn að vera yfirgefið. Upplifunin af að vera yfirgefin getur síðar komið fram sem t.d. hræðsla við að einhver deyi eða sem ótti við að missa einhvern sér nákominn.
 
Öll ættleidd börn hafa þennan ótta í sér, það er að vera skilin eftir og enginn sjái um þau. Þau hafa ekki tungumál til að tjá það sem þau vilja segja um það sem þau upplifa og því kemur þetta oft fram á annan hátt en með orðum. Þessi reynsla barnanna er eins og svört hola (black hole).
 
Draugar aðskilnaðarins (The ghost of abandoned). Hvað gerist hjá barni sem er yfirgefið? 
Það er alltaf eitthvað sem gerist hjá barni sem er yfirgefið – barnið missir tilfinninguna fyrir öryggi. Það gerist eitthvað með tilfinningalíf barnsins varðandi öryggi, það er þegar þessari grunnvallarþörf á að finna viðvarnandi öryggi í tilverunni er ekki sinnt (to be safe in the world). Það er enginn til staðar fyrir barnið (t.d. þegar það er eitt einhverstaðar áður en það finnst). Barnið skynjar þetta. Þegar barnið er komið á barnaheimili þá er það oft 24 tíma í rúminu sínu  - það er enginn til að hugsa um það persónulega. Þörfum barnsins er aldrei fullnægjandi mætt á barnaheimilum.
 
Hvað gerist með hæfni barnsins til að ná sambandi við aðra? (the ability to make contact).  
Börnin þróa með sér leiðir til að komast af, t.d. læra þau að heyra ekki það sem þau heyra, þau loka á hljóð sem skipta þau ekki máli. Þau læra að þau fá engin viðbrögð eða svörun þó þau kalli eftir því.
„Þegar ég rétti út hendurnar af því mig vantar eitthvað þá er enginn til að taka í þær “ Hugur barnsins – en það fær engin viðbrögð, það er enginn til að gefa því þá athygli og nálægð sem þarf.
 
Börnin læra að fjarlægja sig af vettvangi þess langbæra  ástands sem er á barnaheimilinu, það er þegar þörfum þeirra er ekki mætt. Þau finna leiðir til að þjást ekki of mikið.
 
Sum börnin búa t.d. til hávaða. Þau eru ekki kyrr, þau eru óróleg, alltaf á hreyfingu, tala, banka  og gera hávaða. Þetta gera þau til að heyra ekki hávaðann (sálarkvölina)  hið innra með sér. Börnin reyna að útiloka innri vanlíðan.
Mjög margar stúlkur ættleiddar frá Kína eru t.d. mjög mikið á hreyfingu og hafa mikla þörf fyrir hreyfingu. Lene talaði um að það væri nokkuð algengt meðal þessara barna að þau væru vel virk eða sem kalla mætti eirðarlaus (restless).
 
Þeir sem sjá um börnin á barnheimilunum hafa lítinn tíma. Þau undirbúa t.d. ekki börnin undir það sem er að gerast. Börnin sitja og fylgjast með því sem er að gerast og læra að þekkja fólk og skipulag. Þau læra að það er nauðsynlegt að hafa góða yfirsýn.
 
Mikið félagslegt nám á sér stað á barnaheimilum, börnin læra af hvort öðru og með öðrum börnum. Yfirleitt er ekki um að ræða að börnin myndi stöðug viðvarandi tengsl við aðra sem leiðir af sér tengslaröskum (attachment disorder) eða erfiðleika/varfærni við að tengjast öðrum.
 
Börn á barnheimilum geta þurft að skipta um herbergi /stofur (eða fara í fóstur). Þau eru þá flutt á milli án undirbúnings og við tekur nýtt umhverfi, nýtt fólk, önnur börn. Þetta er mörgum börnum mjög erfitt. Enginn hjálpar þeim að takast á við nýjar aðstæður og brúa bilið milli þess þekkta og óþekkta.
 
Hvað er mikilvægt við ættleiðingu?
Dagurinn, þegar foreldrar hitta barnið sitt fyrst, er mikilvægasti dagur lífsins í lífi foreldranna, miklar væntingar, ást og allt sem því fylgir. Fyrir barnið er þetta dagur átaka, sorgar og álags. Þetta er dagur mikilla andstæðna.
 
Það þarf að beina athyglinni að barninu og sorg þess í stað gleðinnar. Ósk barnsins er að við finnum sorg þess og álag og erfiðleika. 
 
Lene lagði áherslu á að tengslamyndun væri ferli. Barn-foreldrar / foreldrar-barn. Mun mikilvægari eru tengsl foreldris við barnið.
Hún sagði að tengslasaga foreldra skipti máli. Margir foreldrar þurfa að vinna með sína eigin sögu er varðar tengsl. Hvernig voru þeirra tengsl í sambandi við þeirra foreldra?
Foreldrar nota oftast eigin tengslareynslu við sín börn. Foreldra þurfa margir hverjir að vinna í sínum málum til þess að geta unnið með tengslamyndum við börnin sín.
 
Barnið á ekki að „fit in“  (falla inn í tilveruna) þetta er ný veröld og allt er breytt og nýtt. Börn nota alltaf smugur til að komast að og nálgast þá sem skipta þau máli. Börn eru mjög úrræðagóð er varðar að tengjast öðrum og ná fram því sem þau þurfa.
 
Þroskastig ættleiddara barna eru ekki alltaf eins og hjá öðrum börnum. Þau hafa ekki öll farið í gegnum sömu þroskastig og önnur börn né farið á sama hraða. En þau fara í gegnum öll stigin og þurfa þess.
Börn geta t.d. hafnað foreldrum sínum tímabundið.  Ákveðið tímabil í þroska barna einkennist af  leitun barnsins eftir áviðurkenningu.  Barnið þarf að fara í gegnum þetta skeið þroskans (höfnun – viðurkenning), þetta er hluti af þroskanum og eru þrep sem þarf að fara í gegnum. Líta má á þetta sem eðlilegan hluta af þroska barnsins til að það þroskist áfram. Þetta gildir einnig um önnur þroskaþrep/stig.
Barnið er að prófa t.d. hvort það sé öruggt að eiga þig fyrir mömmu/pabba. Barnið fer fram og tilbaka í því að nálgast foreldrana.
 
Ef börn hafa ekki verið vanrækt (hér er átt við alvarlega vanrækslu) fyrir ættleiðingu þá ná þau sér flest vel á strik.
 
Saga barnsins
Barnið þitt segir þér með hegðun sinni hvernig sögu það hefur að geyma. Ef þú horfir á barnið og þekkir, þá sérðu sögu þess. Þú lest sögu barnsins í gegnum atferli og hegðun.
 
Ættleiðing er ekki afsökun fyrir allt það sem upp á kemur í lífi einstaklings síðar á ævinni. Hér þarf að hafa í huga að ákveðið jafnvægi þarf að ríkja. Einstaklingar fæðast með ákveðna eiginleika sem líka hafa að segja við mótun persónuleikans.
 
Samantekt: Jórunn Elídóttir

Svæði