Fréttir

Áskorun um breytingar á aldurviðmiðum

Íslensk ættleiðing hefur um langa hríð mælt fyrir breytingum á ákvæði 11. gr. reglugerðar, nr. 238/2005 um ættleiðingar þar sem þau sjónarmið eru lögð til grundvallar að tekið verði tillit til aldurs barns og/eða skilgreindra þarfa, fremur en að einblínt sé á aldur viðkomandi umsækjenda.

Reglugerð nr. 238/2005 var síðast breytt með reglugerð nr. 996/2009 þar sem ákvæði 11. gr. var bætt við. Ákvæðið fól í sér heimild fyrir sýslumann til þess að gefa út nýtt forsamþykki eða framlengja forsamþykki þegar svo stæði á að gildistími forsamþykkis eða framlengds forsamþykkis til ættleiðingar rynni út eftir að umsækjandi hefði náð 45 ára aldri og umsókn hans væri til meðferðar hjá stjórnvöldum í upprunaríki. Nýtt eða framlengt forsamþykki af þessu tagi gilti nú hér eftir þar til sá umsækjenda sem væri yngri, þegar um par væri að ræða, næði 50 ára aldri. Breytingarnar voru gerðar til að koma til móts við óskir einstaklinga sem vilja ættleiða börn erlendis frá. Þær tóku mið af því að rýmka reglur vegna lengri biðtíma eftir börnum að svo miklu leyti sem það þótti unnt án þess að ganga gegn hagsmunum barnanna.

Gildandi reglugerð ber þess merki að hafa verið mótuð á þeim tíma þegar börn sem ættleidd voru til landsins voru að jafnaði ungabörn, þá oft undir eins árs aldri. Með því að hafa hámarksaldurinn við innlögn umsóknar 45 ára, og möguleika umsækjenda að endurnýja forsamþykki sitt þar til að umsækjandi hefur náð 50 ára aldri, var verið að reyna að tryggja að barn nyti foreldra sinna á meðan það væri á barnsaldri. Hins vegar hefur margt breyst í málaflokknum síðan reglugerðin var skrifuð. Aldur barna sem hafa verið metin ættleiðanleg hefur hækkað verulega.

Með verklagi Haagsamningsins um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu milli landa er leitast við að tryggja að ættleiðing sé neyðarúrræði, þar sem kannað hefur verið til fullnustu að barnið hafi ekki möguleika á að alast upp hjá foreldrum sínum né öðrum skyldmennum. Þá byggir samningurinn jafnframt á þeim sjónarmiðum að finnist ekki umsækjendur um ættleiðingu innanlands í upprunaríki barnsins og undirbúningsvinnu vegna ættleiðingar erlendis er barn að jafnaði aldrei yngra en tveggja ára við ættleiðingu. Meðalaldur barna sem hafa verið ættleidd til Íslands undanfarin ár er 3,7 ár. Síðastliðið ár var elsta barnið 8 ára við ættleiðingu.

Víða í upprunaríkjum barnanna er leitast við að það sé eðlilegur aldursmunur á milli barns og þess kjörforeldris sem yngra er. Það eru hagsmunir upprunaríkisins að haga lögum, reglum og leiðbeiningum í ættleiðingar-málaflokknum þannig að munaðarlaust barn fái athvarf hjá fjölskyldu sem getur og vill leiða barnið inn í fjölskyldu sína með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja.

Íslensk ættleiðing leggur til að ákvæði 11.gr. reglugerðarinnar verði breytt. Við breytinguna verði haft að leiðarljósi að börn sem þarfnast fjölskyldu eru ekki bara ung börn. Í lögum er einstaklingur skilgreindur sem barn þar til að hann nær 18 ára aldri.


Svæði