Fréttir

Bætt aðgengi að listum barna með skilgreindar sérþarfir frá CCAA í Kína

China Center of Adoption Affairs hefur sent Íslenskri ættleiðingu tilkynningu um bætt aðgengi að listum stofnunarinnar yfir börn með skilgreindar sérþarfir. Framvegis verður send til okkar tilkynning fyrirfram um hvenær næsti listi verður aðgengilegur til yfirferðar fyrir skrifstofu Í.Æ.

Ferlið við ættleiðingu barns með skilgreindar sérþarfir er nokkuð ólíkt því ferli sem almennt er um ættleiðingar barna frá Kína. Íslensk ættleiðing hefur aðgang að lista hjá CCAA yfir þau börn, sem koma til greina til ættleiða. CCAA gefur umsækjendum mjög stuttan íhugunartíma eða 48 klukkustundir fyrir hvert barn.

Listarnir eru birtir á nokkurra vikna fresti og nokkur erlend ættleiðingarfélög hafa aðgang að sömu listum og Í.Æ. Sé á listunum barn sem samræmist óskum einhverra væntanlegra kjörforeldra á biðlistum hjá félaginu er hægt að læsa aðgangi annarra ættleiðingarfélaga að upplýsingum um viðkomandi barn í 48 klukkustundir. Mikilvægt er að öll ættleiðingarfélög sitji við sama borð hvað varðar aðgang að listunum en vegna tímamismunar hafa erlend ættleiðingafélög stundum haft listana til skoðunar í drjúga stund áður en vinnudagur hefst á Íslandi.

Hið nýja fyrirkomulag CCAA, að senda Í.Æ. ábendingu um hvenær opnað verður fyrir aðgang að listum kann að verða til þess að biðtím eftir barn styttist í einhverju tilfelli.

En þetta nýja fyrirkomulag hefur líka margvíslegt hagræðingargildi fyrir okkar litla ættleiðingarfélag. Ekki þarf lengur að hefja hvern vinnudag á því að athuga hvort nýjir listar hafi verið lagðir fram þá um nóttina og þar af leiðir að ekki er við því að búast að áætlunum vinnudagsins verði fyrirvaralaust vikið til hliðar vegna yfirferðar á listanum. Hið nýja fyrirkomulag gefur okkur líka tækifæri til þess að setja saman teymi fagfólks til að fara yfir listann en ógerlegt væri að kalla slíkann hóp saman án fyrirvara.

Það fylgdi sögunni að nýtt fyrirkomulag af hálfu Kínverskra ættleiðingaryfirvalda væri sniðið að ábendingum sem samstarfsaðilar þeirra erlendis hefðu gefið þeim. Þessi tilkynning kemur í kjölfarið á yfirlýsingu sem nýr forstjóri CCAA, herra Lu Ying gaf um að aukin áhersla hjá stofnuninni verði á ættleiðingar barna með skilgreindar sérþarfir.

Athugið að þeir sem hafa áhuga á að ættleiða barn með sérþarfir þurfa að skrá sig á biðlista eftir barni með skilgreindar sérþarfir hjá ÍÆ og sækja um sérstakt viðbótarsamþykki hjá sýslumanninum í Búðardal. Hafið samband við skrifstofu félagsins til að fá frekari upplýsingar.


Svæði