Fréttir

DV - Of fátæk til að ættleiða: Mjög jákvæð umsögn barnaverndarnefndar

Mynd: Sviðsett mynd/DV
Mynd: Sviðsett mynd/DV

Til þess að ættleiða barn þarf að sækja um leyfi hjá Sýslumanninum á Búðardal. Hann fer síðan fram á umsögn barnaverndar- og ættleiðinganefndar. Barnaverndarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að hjónin sem fjallað er um í DV í dag væru fullkomlega fær um að ættleiða barn. Þau ættleiddu barn árið 2004 og samkvæmt skýrslu sem nefndin vann um fjölskylduna, hefur„afar vel gengið“ með stúlkuna, eins og segir í skýrslunni. Hjónin eiga að baki tæknifrjóvganir sem báru ekki árangur og er ættleiðing því þeirra leið til að eignast börn. Þá segir í skýrslu barnaverndarnefndarinnar að hjónin hafi verið í sambúð í 21 ár og gift í 13 ár. Þeim komi vel saman og hjónabandið sé traust.

Um heilsufar þeirra segir að „hjónin eru bæði heilsuhraust og verða sjaldan veik.“ Hið sama á við um dóttur þeirra sem sé afar heilsuhraust stúlka. Þá kemst barnaverndarnefndin að þeirri niðurstöðu að hjónin séu bæði í föstu, öruggu starfi og hafa þar af leiðandi öruggar tekjur. „Þau hafa meðaltekjur og geta vel séð fyrir fjölskyldu. Eðlilegt húsnæðislán hvílir á húsinu þeirra. Á skattaskýrslu þeirra hjóna er miðað við brunabótamat hússins þegar eignir og skuldir þeirra eru taldar fram og virðist því eignarstaða þeirra vera neikvæð. Söluvirði hússins er hinsvegar talsvert hærra en brunabótamatið. Ef tekið er tillit til þess telst eignastaða þeirra jákvæð.“

Þá segir í umsögn barnaverndarnefndarinnar um fjárhag hjónanna að þau séu í skilum með allar sínar fjárhagslegu skuldbindingar og virðist vera skynsöm í fjármálum og eyða ekki umefni fram.

Umsögn nefndarinnar um hjónin er mjög lofsamleg. Þau eru sögð búa við mjög góðar og stöðugar aðstæður í fallegu einbýlishúsi í grónu, fjölskylduvænu hverfi. Þau njóti mikils stuðnings allra í kringum þau varðandi ákvörðun sína um að óska eftir að ættleiða barn. Þá er tekið fram að öll aðlögun og tengslamyndun dóttur þeirra hafi gengið mjög vel. Dóttir þeirra sé hamingjusöm og heilbrigð stúlka sem gengur vel í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Nefndin telur einnig að hjónin hafi mjög heilbrigt viðhorf til uppeldis barna. „Þeim hefur gengið afar vel í foreldrahlutverkinu gagnvart dóttur sinni og hafa skynsamlegar áherslur í hennar uppeldi.

Niðurstaða barnaverndarnefndar er afgerandi. „Hjónin séu fullfær til þess að ættleiða barn erlendis frá og uppfylli allar þær kröfur sem gerðar eru til aðila sem óska eftir að ættleiða barn.“ Þá er tekið sérstaklega fram að hjónin búi við traustan fjárhag og séu fullfær til þess að búa litlu barni gott líf og veita því ást, umhyggju og stuðning sem þarf á að halda. Nefndin leggur til að sýslumaðurinn í Búðardal veiti þeim forsamþykki til þess að ættleiða eitt eða tvö börn á aldrinum 0-4 ára.

Eins og fram kemur í ítarlegri úttekt um málið í DV í dag hefur sýslumaðurinn í Búðardal hafnað umsókn hjóna um fertugt um að fá að ættleiða barna frá Tékklandi á þeim forsendum að þau hafi ekki nægilega „traustan fjárhag“ án þess að nokkur lögfest viðmið séu til um hvað teljist traustur fjárhagur.

Sjá einnig:

Of fátæk til að ættleiða


Svæði