Mbl - Fjórar á tíu árum
FJÓRUM einhleypum einstaklingum hefur verið veitt leyfi til frumættleiðingar á barni á síðustu tíu árum að því er fram kemur í skriflegu svari dómsmálaráðherra, Sólveigar Pétursdóttur, við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar þingmanns Samfylkingarinnar. Svarinu var nýlega dreift á Alþingi og er í því miðað við þau gögn sem er að finna um þessi mál í tölvuskráningarkerfi dómsmálaráðuneytisins.
Af þessum fjórum ættleiðingarleyfum voru tvö veitt á þessu ári, eitt árið 1995 og eitt árið 1992. Í elsta málinu er um að ræða ættleiðingu á íslensku barni en í hinum tilfellunum var um frumættleiðingu á erlendu barni að ræða.
Í svarinu kemur fram að í öllum tilvikunum hafi verið talið að umsækjendur hafi sýnt fram á að þeir væru hæfir til að ættleiða barn og að aðstæður væru þannig að þeir gætu búið viðkomandi barni trygg og góð uppeldisskilyrði og að ættleiðing yrði barni til gagns.

Fylgdu okkur á Instagram