Fréttir

RÚV - Foreldrar senda Ögmundi bréf

Félagar í Íslenskri ættleiðingu hafa sent Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra bréf þar sem ráðherrann er hvattur til þess að kippa fjárhagsgrundvelli Íslenskrar ættleiðingar í lag.

Í bréfunum er bent á að Íslendingum er eingöngu heimilt að ættleiða erlendis frá með milligöngu löggilts félags og slíkt félag verði að hafa fjárhagslegan rekstargrundvöll. Annars séu þeim, sem vilja ættleiða börn frá útlöndum, allar bjargir bannaðar.

Íslensk ættleiðing fær 9,2 milljónir króna frá ríkinu á þessu ári en þyrfti 45 milljónir til viðbótar til að geta staðið við sína eigin fjárhagsáætlun. Félagið hefur lagt að fjárþörfinni verði svalað í skrefum næstu þrjú árin. 

Ráðherrann hefur sent bréfriturunum svarbréf og tekið undir að mikilvægt sé að fjárhagur Íslenskrar ættleiðingar verði tryggður.

Hörður Svavarsson, formaður íslenskrar ættleiðingar, hefur haft spurnir af því að félagið fái hugsanlega aukafjárveitingu á fjáraukalögum í haust. 

http://www.ruv.is/frett/foreldrar-senda-ogmundi-bref


Svæði