Fréttir

Fréttablaðið - Ættleidd börn verði fyrir miklum fordómum

Birna Dröfn Jónasdóttir skrifar í Fréttablaðið laugardaginn 15.október

Elísabet Salvarsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar, segir ekki einsdæmi að ættleidd börn verði fyrir fordómum , eins og Sóley Lóa Smáradóttir greindi frá í Kastljósi í fyrradag. Þar greindi hún meðal annars frá því að kennari í grunnskóla hefði beðið hana að segja bekknum frá Afríku, en Sóley fæddist í Tógó og kom hingað til lands aðeins nokkurra mánaða gömul.

„Þetta er því miður ekki einsdæmi. Við höfum heyrt svona sögur, þar sem ættleidd börn eru spurð spurninga sem þau hafa engar upplýsingar um, eins og í þessu dæmi sem hún nefnir,“ segir Elísabet.

Hún segir skólana ekki taka nægilegt tillit til ættleiddra barna, upp komi ýmsir þættir í skólastarfinu sem geti verið ansi flóknir og haft áhrif á börnin. „Til dæmis það þegar börn eiga að teikna upp fjölskyldutré eða segja frá fjölskyldunni í skólanum, það getur verið flókið fyrir ættleidd börn,“ segir Elísabet.

„Við foreldrar ættleiddra barna reynum að passa þetta og við hjá Íslenskri ættleiðingu höfum farið með fræðslu inn í leikskóla og grunnskóla þar sem eru ættleidd börn,“ segir hún. Spurð að því hvort slík fræðsla ætti heima í öllum skólum, sama hvort þar stundi nám ættleidd börn eða ekki, segir hún svo vera. „En að minnsta kosti þar sem eru ættleidd börn ætti það að vera sjálfsagt en ekki þannig að foreldrar þurfi að ýta eftir því eins og það er núna, “ segir Elísabet.

Hún sjálf á tvö ættleidd börn og segist hafa fundið fyrir fordómum í þeirra garð. Börnin sem eru sjö og tíu ára hafa sem dæmi verði kölluð „brún eins og skítur“.

„Þau hafa látið vita og þá er hægt að stoppa það strax. Ef það er ekki gert og svona heldur áfram þá er það orðið einelti en skólarnir virðast eiga erfitt með að taka á kynþáttafordómum eins og einelti. Það er bara eins og þau kunni það ekki og viti ekki hvað þau eigi að gera,“ segir hún.

Í minnisblaði sem Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, ritaði til Borgarráðs um stöðuna á fjölmenningarlegu skóla- og frístundastarfi í október, telur hann upp nokkur lykilhugtök. Sem dæmi um hugtök eru: Fólk með erlendan bakgrunn, flóttafólk og innflytjendur. Elísabet segir það vekja með sér áhyggjur að ættleidd börn séu þar ekki á meðal. Þau börn sem ættleidd séu til Íslands séu með erlendan uppruna.

„Það er þörf á því að auka þekkingu á aðstæðum ættleiddra barna og skilning á þörfum þeirra,“ segir Elísabet. Hún óskaði eftir fundi með Helga Grímssyni. „Hann hefur staðfest að hann muni hitta mig, sem er mjög jákvætt,“ segir Elísabet.

 


Svæði