Fréttir

Fréttablaðið - Föst fjölskylda fær þrjár milljónir

Ríkisstjórnin mun styrkja íslenska fjölskyldu, sem hefur verið föst í Kólumbíu í níu mánuði, um þrjár milljónir króna. Þetta var ákveðið fyrir helgi.
  Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir og Friðrik Kristinsson héldu til Kólumbíu í desember síðastliðnum til þess að sækja ættleiddar dætur sínar tvær. Þau gerðu ráð fyrir því að komast heim með dæturnar um sex vikum síðar en dómstólar ógiltu fyrri dóm um að stúlkurnar væru lausar til ættleiðingar. Af þessum sökum hefur fjölskyldan verið föst í Kólumbíu á meðan málið er tekið fyrir á æðri dómstigum. Þau munu því að öllum líkindum þurfa að vera í Kólumbíu í nokkra mánuði enn.
  Að sögn Íslenskrar ættleiðingar er kostnaður hjónanna orðinn um tólf milljónir króna. Tekið hefur verið við frjálsum framlögum fyrir þeirra hönd auk þess sem Íslensk ættleiðing hefur styrkt hjónin. Í tilkynningu Íslenskrar ættleiðingar um málið segir að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafi beitt sér fyrir því að fjölskyldan yrði styrkt.

Fréttablaðið - Föst fjölskylda fær þrjár milljónir


Svæði