Fréttir

Fréttatíminn - 34 börn með sérþarfir ættleidd til landsins

Kristinn Ingvarsson
Kristinn Ingvarsson

11.11 2011

Alls hafa 34 börn með skilgreindar sérþarfir verið ættleidd frá Kína hingað til lands frá árinu 2007. Þessi leið getur stytt bið foreldra eftir barni um mörg ár. Eitt hundrað fjölskyldur á biðlista eftir barni til ættleiðingar. Fjögur hjón sem sóttu börn án sérþarfa í sumar höfðu beðið í fimm ár.

„Börn með skilgreindar sérþarfir hafa verið mjög stór partur þeirra barna sem hafa frá Kína síðastliðin ár,“ segir Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar. Hann sest mánaðarlega fyrir framan tölvu að nóttu til, ásamt starfsmanni Ættleiðingarfélagsins, og skannar uppfærða lista kínverskra stjórnvalda yfir börn með sérþarfir.

„Fötluð börn er það fyrsta sem kemur upp í huga fólks þegar talað er um börn með sérþarfir. Inni á listanum eru hins vegar börn sem eru jafnólík og þau eru mörg; börn með minniháttar sérþarfir sem og þau sem búa við meiriháttar fötlun. Þar finnast börn með skarð í vör, minniháttar hjartagalla, stóra fæðingarbletti og aðra þætti sem við hér á landi lítum ekki á sem fötlun. Einnig eru þarna börn sem eru til þess að gera gömul, eða allt að fjórtán ára.“

Kristinn segir væntanlega foreldra barna með sérþarfir hitta Gest Pálsson barnalækni sem tekið hafi á móti öllum ættleiddum börnum til Íslands síðustu þrjátíu ár. Hann sest niður með þeim og útskýrir hvað felst í því að ættleiða börn með sérþarfir. Í kjölfarið veitir Sýslumaðurinn í Búðardal leyfi til ættleiðingar, standist foreldrar könnun barnaverndaryfirvalda. „Reynslan af sérþarfalistanum er almennt mjög góð eins og almennt er um ættleiðingar á Íslandi.“ 

34 börn með sérþarfir ættleidd til landsins


Svæði