Fréttir

Góðir gestir frá Tógó

Miðstjórnvald Tógó þáði boð innanríkisráðherra að koma í heimsókn til Íslands og kynna sér skipulag ættleiðingarmála á Íslandi og aðstæður barnanna sem eru ættleidd til Íslands. Formaður ættleiðingarnefndarinnar og skrifstofustjóri miðstjórnvaldsins í Tógó lögðu land undir fót ásamt fulltrúa Íslenskrar ættleiðingar í Tógó. Hópurinn fundaði með innanríkisráðuneytinu, sýslumannsembættinu og barnaverndaryfirvöldum, heimsóttu leik- og grunnskóla, ásamt því að funda með Íslenskri ættleiðingu. Þá voru tvær fjölskyldur sem hafa ættleitt frá Tógó heimsóttar og einnig farið í kynnisferð í leik- og grunnskóla. Haldin var fjölskylduhátíð fyrir þá sem hafa notið þeirrar gæfu að ættleiða barn frá Tógó ásamt þeirra nánustu aðstandendum.

Hópurinn fékk einnig að kynnast öðrum gersemum Íslands, en hópurinn fór í dæmigerða ferð um gullna hringinn.

Í heimsókninni kom margt fróðlegt fram jafnt fyrir miðstjórnvald Tógó sem og þá sem koma að ættleiðingarmálum á Íslandi.

Miðstjórnvald Tógó var ákaflega ánægt með heimsóknina í alla staði og hefur óskað eftir því að heimsóknin verði endurgoldin hið fyrsta.

Íslensk ættleiðing hefur haft löggildingu til að annast milligöngu um ættleiðingar frá Tógó síðan 2011 og hafa 6 börn verið ættleidd síðan þá.

Jafnt er tekið á móti umsóknum hjóna og einhleypra, en ekki umsækjendum í sambúð og samkynhneigðum. Tvö af börnunum sem hafa verið ættleidd hafa verið pöruð við hjón, en hin fjögur við einhleypar konur. Þar af hefur ein konan ættleitt tvö börn frá Tógó.

Búið er að para eitt barn við umsækjanda sem bíður frétta af því hvenær hann fær heimild til að fara til Tógó til að hitta barnið.

Engin íslensk umsókn er virk í Tógó
Fáar ættleiðingar eru frá Tógó á hverju ári og hefur miðstjórnvaldið óskað eftir því að það séu ekki margar virkar umsóknir frá hverju landi sem það er í samstarfi við. Íslensk ættleiðing hefur fengið leiðbeiningar um að félagið megi vera með tvær virkar umsóknir í Tógó, og má senda nýja umsókn þegar búið er að para barn við umsækjanda.

Nú er engin virk umsókn í Tógó, en einhverjar umsóknir í vinnslu hjá sýslumannsembættinu.

Miðstjórnvald Tógó hefur gefið vísbendingar um að Íslendingar geti búist við því að meðaltali verði eitt barn ættleitt frá Tógó til landsins á meðan unnið er að endurbótum á málaflokknum þar í landi.

Tógó er aðili að Haagsamningnum um vernd barna og samvinnu um ættleiðingar milli landa. Samningurinn er verkfæri til að tryggja að fylgt sé ákveðnum leikreglum um ættleiðingar á milli landa og til að ganga úr skugga um að öruggt er að barnið sé munaðarlaust og laust til ættleiðingar.

Við undirritun samningsins var slitið á samband milli forstöðumanna barnaheimilanna og ættleiðingarfélaga í móttökulöndunum og er grunnreglan sú að öll samskipti séu á milli miðstjórnvalda og ættleiðingarfélaga, en að umsækjendur og starfsmenn barnaheimilanna séu aldrei í samskiptum fyrr en búið sé að para barn við umsækjanda.

Breytingarnar á málaflokknum við undirritun samningsins lögðust illa í starfsmenn barnaheimilanna. CNAET er að vinna að áætlun um námskeið fyrir starfsmenn barnaheimilanna til að kenna þeim um helstu kosti aðildar að Haagsamningnum og eru væntingar um að vinnulag breytist í kjölfarið.


Svæði