Hamingjustund
Í dag sameinaðist fjölskylda í Tékklandi.
Hjónin Torben og Stefanie fóru frá Íslandi til Tékklands að sækja dæturnar sínar þrjár. Þau fóru á barnaheimilið og áttu venju samkvæmt að byrja á því að hitta forstöðumann barnaheimilisins ásamt sálfræðingum og félagsráðgjöfum, en systurnar sáu Torben og Stefanie í gegnum glugga og þá varð ekki aftur snúið. Fjölskyldan sameinaðist því aðeins fyrr en áætlað var og Torben og Stefanie stukku beint útí djúpu laugina. Það var mikið fjör og hamagangur þegar fjölskyldan fór út á leikvöll og tók sín fyrstu skref sem fimm manna fjölskylda.
Það voru þreytt og hamingjusöm hjón sem lögðust á koddann sinn í lok dags enda búið að vera mikið fjör hjá stórfjölskyldunni.
Umsókn Torben og Stefanie var samþykkt af yfirvöldum í Tékklandi 6. janúar 2015 og voru þau pöruð við systurnar 10. mars 2015. Þau voru því á biðlista í Tékklandi í rúmlega tvo mánuði.
Þetta er tólfta fjölskyldan sem sameinast á þessu ári og börnin orðin 16. Nú hafa 25 börn verið ættleidd frá Tékklandi til Íslands.